Ungum er það allra best…

Þetta nýjasta áfall fyrir Bush stjórnina hefur enn frekar dregið úr fylgi hennar og ljóst að árið 2006 verður strembið ár fyrir Bush, hann þarf að vinna til baka stuðning þjóðar sem hann hefur blekkt, svikið og vanvirt. Ólíkt Íslendingum er óvíst hvort Bandaríkjamenn gleymi þessu, það eru nefnilega lönd sem eru á móti því að æðstu embættismenn þeirra brjóti lög þegar þeim hentar. Hvað er það sem brennur á ungu fólki í dag? Eru það sömu mál og almennt gildir um aðra í samfélaginu. Að sumu leyti, en ekki öðru, eins og gefur að skilja. Að mínu mati skiptir það mestu fyrir ungt fólk í dag að hafa aðstöðu til að sinna þeirri menntun sem hugur þess stendur til, að fá vinnu við hæfi og hafa aðstöðu til þess að sinna því fjölskyldulífi sem er að hefjast hjá mörgum fyrir eigin reikning. Húsnæðismál, leikskólamál, launamál og lánamál til mennta og húsnæðiskaupa skipta sköpum. Samfylkingin reynir að sinna þessum þáttum af kostgæfni.

Ef byrjað er á leikskólamálunum þá hefur Samfylkingin í starfi sínu í Reykjavíkurlistanum lyft Grettistaki. Við leggjum áherslu á að sinna þessu vel. Laun starfsmanna hafa verið hækkuð. Í þessari prófkjörsbaráttu hef ég bent á að það þurfi að lengja fæðingarorlofið, auk þess sem fjölga þarf leikskólarýmum og dagvistarrýmum.

Í menntamálum er mikilvægt að bæta aðstöðu þeirra sem verst eru settir á upphafsskeiði lífs síns. Það er hugsjón jafnaðarmanna; að allir hafi sömu tækifæri óháð efnahag. Við leggjum áherslu á góða hverfisskóla með fjölbreyttu námsvali að hæfi hvers og eins og við viljum efla framhaldsskólastigið. Við þurfum að standa vörð um gott háskólanám og tryggja að námsmenn hafi fjárhagslegar forsendur til að sinna náminu.

Hvað húsnæðismál varðar þá reynir Reykjavíkurborg m.a. að sjá til þess með skipulagsforsendum að nægt framboð geti verið af húsnæði sem hentar námsfólki nálægt skólasvæðum. Verðhækkun sem átt hefur sér stað fyrir tilstilli útlánaþenslu bankanna á síðustu misserum hefur þó gert ýmsum námsmönnum erfitt fyrir.

Það er af ýmsu að taka sem skiptir ungt fólk jafn miklu máli og aðra. Jafnréttismálin skipta máli fyrir ungt fólk sem annað, en aukið jafnrétti inni á heimilum, í atvinnulífi og alls staðar í samfélaginu eru ein meginkrafa jafnaðarmannaflokks á borð við Samfylkinguna.

Umhverfismálin eru annar málaflokkur sem skiptir alla máli. Hér á þessari síðu hefur komið fram að unnið er að endurskoðun á Staðardagskrá 21. Eitt veigamesta atriðið sem ég tel að þurfi að bæta þar eru loftgæðin í borginni, en svifryk fer á vissum tímum yfir viðmiðunarmörk sem byggja á áætluðum heilsufarslegum áhrifum, og af þeim sökum og vegna alþjóðlegra skuldbindinga sem við höfum undirgengist þurfum við að gera eitthvað í þessum málum. Til að byrja með þarf að upplýsa um stöðu mála og mögulegar leiðir, eins og við í umhverfisráði borgarinnar höfum verið að gera. Það þarf einnig að koma til samráð og samtöl við borgarbúa og svo þurfum við að breyta hegðun okkar í umferðinni til að draga úr þessari mengun. Leiðir sem huga þarf að eru breyttur hámarkshraði á vissum tímum, að draga úr notkun nagladekkja með leiðbeiningum og aukin notkun almenningssamgangna, en í því sambandi má benda á að borgarstjórn hefur samþykkt að frumkvæði okkar í umhverfisráði að láta athuga kosti þess að ungt fólk og aldraðir fái frítt í strætó.

Við þurfum að halda áfram að þétta byggð og byggja upp þekkingarþorp í Vatnsmýrinni. Ég hef trú á því að áður en langt um líður verði Reykjavík eftirsótt menningarborg þar sem kraftur og nýsköpun á Vatnsmýrarsvæðinu og tónleika- og ráðstefnuhald á nýju svæði við höfnina laðar að fjölda erlendra gesta sem munu efla borgarsamfélagið að styrk og þrótti. Að þessu hefur samfylkingarfólkið í borgarstjórn unnið á síðustu árum. Þess vegna segi ég að endingu: Ungum er það allra best að kjósa Samfylkinguna. Þess vegna minni ég á prófkjörið sem er framundan.

Stefán Jóhann Stefánsson, varaborgarfulltrúi, býður sig fram í 3. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík 11. og 12. þessa mánaðar. Nánari upplýsingar eru á www.stefanjohann.is

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið