Ungir jafnaðarmenn vilja fleiri og kröftugri aðgerðir

Ungir jafnaðarmenn fagna fyrirhuguðum efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar, sem kynntar voru á blaðamannafundi í gær, en vilja sjá fleiri og kröftugri aðgerðir. Hreyfingin saknar beinna aðgerða til að styðja lágtekjufólk, skapa störf fyrir ungt fólk og námsmenn og bæta aðgengi fólks að námi.

Ungir jafnaðarmenn vilja að hinn svokallaði barnabótaauki verði hærri og komi strax til útborgunar. Hreyfingin leggur einnig til að heilbrigðisstarfsfólk fái sérstakt launaálag á meðan kórónufaraldurinn gengur yfir og krefst þess að ríkið semji strax við hjúkrunarfræðinga, en þeir hafa verið samningslausir í tæpt ár. 

Þá vilja Ungir jafnaðarmenn að ríkið verji meiri fjármunum í aðgerðirnar, sérstaklega í ljósi sterkrar stöðu ríkissjóðs. Hreyfingin bendir á að beinn kostnaður ríkissjóðs við fyrirhugaðar aðgerðir er ekki 230 milljarðar heldur aðeins 66 milljarðar. Þetta er lægri upphæð en kostnaðurinn við hina svokölluðu leiðréttingu, aðgerð sem ráðist var í á hápunkti góðærisins og gagnaðist aðallega tekjuháu fólki.

Helstu áherslur Ungra jafnaðarmanna eru eftirfarandi:

Viðspyrna fyrir lágtekjufólk

Atvinnulaust fólk, öryrkjar, ellilífeyrisþegar og fólk á lægstu launum hefur lítið sem ekkert fjárhagslegt svigrúm til að bregðast við þeim efnahagslegu áföllum sem dynja nú yfir þjóðinni og heimsbyggðinni allri. Því á að hækka atvinnuleysisbætur og örorku- og ellilífeyri almannatrygginga í samræmi við hækkun lægstu launa. Einnig á að nota skattkerfið til að auka ráðstöfunartekjur þeirra sem lægstar tekjur hafa, t.a.m. með hækkun persónuafsláttar og frítekjumarks. Þá þarf að auka húsnæðisstuðning til tekjulægri hópa og þeirra sem hafa misst vinnuna. 

Hærri barnabótaauki

40.000 króna eingreiðsla til barnafólks eftir tvo og hálfan mánuð er of lítið, of seint. Upphæðin kemst ekki nálægt því að bæta öllum foreldrum það fjárhagslega tjón sem þeir verða fyrir vegna fjarveru frá vinnu þann tíma sem skerðing skólastarfs stendur yfir. Barnabótaaukinn þyrfti að vera mun hærri og greiðast út strax. Fjárhagslegur stuðningur getur veitt foreldrum svigrúm til að minnka við sig vinnu og verja tíma með börnum sínum meðan skólastarf er skert án þess að verða fyrir mikilli tekjuskerðingu. Þá á að forgangsraða barnabótaaukanum enn frekar til þeirra lægst launuðu. 

Tryggjum fjölbreytt störf fyrir námsmenn og ungt fólk

Útlit er fyrir vaxandi atvinnuleysi á komandi vikum og mánuðum. Ríki og sveitarfélög eiga að sameinast um að tryggja námsmönnum og ungu fólki bæði sumarstörf og almenn störf við hæfi. Fækkun ferðamanna í sumar gefur kjörið tækifæri til að ráðast í átak í uppbyggingu og viðhaldi ferðamannastaða um allt land. Þá skal áhersla lögð á að skapa ný störf í skólastarfi, velferðarþjónustu, rannsóknarstarfi og grænu hagkerfi.

Skrásetningargjöld afnumin og stuðningur við námsmenn aukinn

Afnema á skrásetningargjöld við opinbera háskóla og auka fjárveitingar til þeirra. Þá á að auka stuðning við námsmenn í gegnum Lánasjóð íslenskra námsmanna. Þannig hvetjum við ungt fólk til að sækja menntun og styrkja stöðu sína á vinnumarkaði þar til atvinnulífið tekur við sér.

Semjið við hjúkrunarfræðinga!

Að lokum krefjast Ungir jafnaðarmenn þess að ríkið semji við hjúkrunarfræðinga. Hjúkrunarfræðingar eru í framvarðarsveit í baráttunni við COVID-19 og leggja eigin heilsu að veði fyrir okkur hin. Hjúkrunarfræðingar og annað heilbrigðisstarfsfólk á að fá sérstakt álag á laun sín á meðan kórónufaraldurinn gengur yfir.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand