Ungir jafnaðarmenn styðja frumvarp um bætta réttarstöðu útlendinga

Ungir jafnaðarmenn lýsa yfir eindregnum stuðningi við frumvarp um bætta réttarstöðu útlendinga, sem nú liggur fyrir Alþingi.

Ungir jafnaðarmenn lýsa yfir eindregnum stuðningi við frumvarp um bætta réttarstöðu útlendinga, sem nú liggur fyrir Alþingi. Í frumvarpinu er tekið á ámælisverðum gloppum í íslensku lagaumhverfi, sem löngu er tímabært að leiðrétta. Því er það von Ungra jafnaðarmanna að frumvarpið mæti ekki fyrirstöðu í þinginu og eru þingmenn Samfylkingarinnar sérstaklega hvattir til að gera það sem í þeirra valdi stendur til að tryggja því framgang.
Í fyrsta lagi er brýnt að leiðrétta stöðu útlendinga, þá einkum erlendra kvenna sem sæta heimilisofbeldi af hálfu maka sinna. Það á ekki að líðast að fólk þurfi að ganga gegnum það helvíti að þola ofbeldi á eigin heimili í framandi landi og eiga á hættu að missa landvistarleyfi ef skilnaðar er óskað.
Í öðru lagi ítreka Ungir jafnaðarmenn þá afstöðu sína að hina svokölluðu 24 ára reglu beri að afnema þegar í stað. Það er ómálefnaleg mismunun að setja þetta aldurstakmark á dvalarleyfi maka. Í ljósi þess að þingmenn Samfylkingarinnar töluðu manna hæst á móti lögleiðingu þessarar reglu árið 2004, vænta Ungir jafnaðarmenn þess að þeir tryggi breytingatillögunni framgang í þinginu nú.
Í þriðja lagi gerir frumvarpið ráð fyrir bættri stöðu einstaklinga gagnvart atvinnurekendum, meðal annars þannig að tímabundið atvinnuleyfi sé veitt einstaklingi en ekki atvinnurekanda. Þetta telja Ungir jafnaðarmenn, nú sem fyrr, mjög æskilega breytingu sem geti stuðlað að því að fyrirbyggja misnotkun og slæma meðferð á erlendum launþegum, sem eru of háðir vinnuveitanda sínum vegna atvinnuleyfis.
Að lokum tekur frumvarpið á skilyrðum um dvalarleyfi, sem eru of ströng gagnvart erlendum ungmennum. Núverandi lög um útlendinga gera þannig ráð fyrir að við 18 ára aldur þurfi börn innflytjenda sjálf að sýna fram á trygga framfærslu sína. Þetta getur m.a. leitt til þess að þau hætti skólagöngu.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand