Menntun er fjárfesting í framtíðinni

,,Við verðum að fjárfesta í framtíðinni. Það gerum við best með því að fjárfesta í menntun og skapa þannig frekari þekkingu. Það er úrelt að tala um fjármagn til menntunar sem kostnað. Fjármagn til menntunar mun skila sér til baka til þjóðfélagsins í formi þekkingar og tækifæra“. segir Guðlaugur Kr. Jörundsson stjórnarmaður í ungum jafnaðarmönnum í Reykjavík.

Á þessum tímum – hávaxta, hárrar verðbólgu, hárra tolla og gjalda, hás húsnæðisverðs, hækkandi rekstrarkostnaði ungra fjölskyldna, hækkandi fjölda ungs fólks sem kýs að flytja úr landi, hækkandi fjölda ungs fólks sem sér sjálfum sér ekki fært að flytja heim til Íslands með nýju fjölskylduna sína að loknu námi – verður að finna leiðir til háleitra markmiða um nýtt og ódýrara Ísland sem verður að vera samkeppnisfært í hinum síminnkandi heimi. Huga þarf vel að menntun þjóðarinnar til þess að tryggja að hér skapist áfram frjó tækifæri sem auðga okkar íslenska þjóðfélag og gera það að stað sem enginn þarf að flytja frá til að skapa fjölskyldu sinni sem best skilyrði.

Lykillinn að framtíðinni er menntun. Þjóðfélag okkar þarf að halda áfram sinni för til framþróunar. Við vorum eldsnögg að stíga upp úr torfbæjunum og þurfum nú að vera enn sneggri í snúningum til að halda í við framþróun heimsins. Við þurfum að tryggja okkar þekkingarsamfélag – það er stoðin undir Íslandi framtíðarinnar.

Þekkingarsamfélag okkar hefur vaxið og dafnað á síðustu árum. Háskólasamfélagið hefur auðgast mjög af þekkingu og akademískri færni. Má þar að miklu leiti þakka þeim fjölbreytileika sem við höfum komið upp með okkar háskólastofnunum. Þó þarf að gera betur til að tryggja starfsumhverfi þeirra og eðlilega samkeppni þeirra í milli. Stjórna verður þróun háskólastigsins og verður að líta langt til framtíðar þegar stefnan er tekin. Varast þarf að hlaupa að ákvörðunum vegna þrýstings frá hagsmunaðilum. Ákvarðanir þarf að taka með hagsmuni alls þekkingarsamfélagsins til framtíðar.

Engin skólagjöld við opinbera háskóla

Við verðum að fjárfesta í framtíðinni. Það gerum við best með því að fjárfesta í menntun og skapa þannig frekari þekkingu. Það er úrelt að tala um fjármagn til menntunar sem kostnað. Fjármagn til menntunar mun skila sér til baka til þjóðfélagsins í formi þekkingar og tækifæra.

Þá er mikilvægt að tryggja jafnt aðgengi allra að menntun. Við megum ekki við því í okkar litla þjóðfélagi að snillingarnir sem við fæðum í þennan heim komist ekki til menntunar vegna fjárhagslegra aðstæðna. Við hvern slíkan snilling sem ekki kemst til menntunar gætum við verið að missa af einu fyrirtæki á heimsvísu. Við verðum að mennta fjöldann til að halda við þekkingunni og miðla henni áfram og til að tryggja að snillingarnir sem auka við þekkinguna og skapa ný tækifæri fái til þess nauðsynlega menntun. Skaði okkar þekkingarsamfélags hefði verið mikill ef t.d. Kári Stefánsson hefði ekki gengið menntaveginn vegna fjárhagsaðstæðna.

Samfylkingin vill tryggja jafnt aðgengi og er hér vert að minna á stefnu hennar frá síðasta landsþingi þar sem kemur fram hvernig Samfylkingin ætlar sér að ná því markmiði:

„Samfylkingin vill: Stuðla að því að öllum standi til boða gjaldfrjáls menntun frá og með leikskóla til og með háskóla. Tryggja að skólagjöld verði ekki tekin upp í almennu grunn- og framhaldsnámi við opinbera háskóla.“

Þá er ljóst að leið Samfylkingarinnar að jafnaðarstefnunni krefst þess að fjárfesting í menntun komi ekki frá nemendum. Ungir jafnaðarmenn hafa sömu stefnu. Fjármagn á þá að koma frá öðrum aðilum og þá að mestu úr sameiginlegum sjóðum. Að sjálfsögðu er þetta ekki eina leiðin til að ná fram markmiðum um jafnt aðgengi en er þó að mínu mati sú leið sem nær markmiðinu á óumdeilanlegan hátt.

Aldrei má taka umræðuna um skólagjöld upp á sama tíma og fjárhagsvandi háskóla er ræddur. Það verður að tryggja háskólum nægjanlegt fjármagn til þess að sinna sínu mikilvæga hlutverki í okkar þekkingarþjóðfélagi. Stjórnvöld verða að koma í veg fyrir að háskólastofnanir búi við fjársvelti – annað er mikil skammsýni. Síðan er það áhugaverð umræða um það hvort að hluti af fjármagni háskóla eigi að koma frá nemendum. Sú umræða á að fjalla um það hvaða jákvæðu hlutum það skilar í námi og þekkingarsköpun nemandans. Skólagjöld á aldrei að taka upp til þess að auka fjármagn til háskólastofnanna. Nægjanlegt fjármagn verður að tryggja með öðrum hætti.

Sjálfur er ég þó algjörlega á móti skólagjöldum og hef ekki sannfærst um jákvæð áhrif þeirra. Samband nemenda og kennara er oft líkt við viðskiptasambandi. Það verður aldrei meira en líking. Menntastofnanir eru ekki fyrirtæki. Þær lúta allt öðrum lögmálum og eru markmið þeirra allt annars eðlis en markmið fyrirtækja. Nemandi þarf ekki sérstaka hvatningu til þess að krefjast gæða við kennslu. Nemandi er að fórna miklu með því að verja tíma sínum í nám, m.a. launatekjum. Vilji fólk leita til fyrirmynda úr fyrirtækjarekstri þá væri kannski rétt að rifja upp hvernig starfsfólk er hvatt áfram í vinnu sinni. Það fær greidd laun. Starfsfólk er ekki látið taka þátt í kostnaði fyrirtækisins til þess að gera það meðvitaðra um að sinna vinnu sinni vel.

Þá má vel gefa háskólastofnunum færi á að bjóða þjónustu til fyrirtækja landsins. Bjóða mætti upp á menntun til starfsmanna fyrirtækja og innheimta skólagjöld. Slíkar námsleiðir væru þá án efa nokkuð sérhæfðar og í raun einungis kenndar til þess að búa til starfskrafta fyrir fyrirtæki, fremur en að byggja upp akademíska þekkingu. Skólagjöld mundu án efa hugnast báðum aðilum þar sem starfsfólk fyrirtækja sem hefur jafnvel lokið einhverju háskólanámi vill ekki endilega þiggja gjaldfrjálsa kennslu. Sem sagt, skólagjöld koma til greina þar sem í raun er einungis verið að þjálfa upp háskólamenntað starfsfólk fremur en að byggja upp fræðimenn eða sérfræðinga. Hér er Endurmenntunarstofnun HÍ klárt dæmi. Þá ætti alltaf að gefa fólki möguleika á að greiða fyrir eigin menntun kjósi það svo.

Samkeppni háskólastofnana

Nauðsynlegt er fyrir þekkingarþjóðfélag okkar að háskólastofnanir vaxi og dafni. Það gera þær helst í samkeppni við aðrar háskólastofnanir. Samkeppnin á að byggja á akademískri stöðu en ekki fjárhagsstöðu. Réttast væri að háskólastofnanir fengju að keppa á jafnréttisgrundvelli hvað varðar fjármagn en staða þeirra mundi svo ráðast af því hversu vel fjármagninu er varið til akademískrar uppbyggingar.

Óski háskólastofnun eftir því að fá að taka upp skólagjöld til að ná fram sínum markmiðum þá ætti sneið háskólastofnunarinnar úr öðrum sjóðum að minnka sem nemur skólagjöldunum. Slíkt þarf ekki að þýða ójafnt aðgengi til náms – þó að skólagjöld séu ávallt viss þröskuldur – því ríkið gæti enn komið að sínum hlut sem háskólastofnunin afþakkar með því að styrkja nemandann t.d. í gegnum LÍN. Þetta þýðir þá breytingu á núverandi ástandi að t.d. HR mundi ekki hagnast sérstaklega á því að innheimta skólagjöld en mundi njóta allra hinna jákvæðu áhrifanna sem HR hlýtur að hafa haft sem aðal sjónarmið þegar ákveðið var að innheimta skólagjöld.

Sé gengið frá hnútunum þannig að háskólastofnanir búi við jafnan fjárhag til kennslu þá gufar upp umræðan um að háskólastofnanir sem innheimta skólagjöld muni ávallt hafa forskot á hina sem slíkt gera ekki. Þá geta háskólastofnanir unnið að því í sameiningu að fá sem réttmætastar reiknireglur fyrir fjármagn frá ríkinu á hvern nemanda.

Fjármögnun háskólastofnana

Sé lokað fyrir það að háskólastofnanir fái inn frekari fjárhæðir til kennslu en þær sem koma frá ríkinu þá þarf að tryggja fjármagn til rannsókna. Ríkið á að sjálfsögðu að styðja við rannsóknir og einnig hvetja til þess að nemendur stundi framhaldsnám. Að sjálfsögðu er það ekki hvatning að setja skólagjöld á framhaldsnám. Nær væri að tryggja nemendum í framhaldsnámi laun fyrir störf sín, enda er framhaldsnám orðið samstarf nemanda og háskóla við það að byggja upp þekkingu – skapa verðmæti. Laun er hægt að tryggja með því að bjóða upp á virka samkeppnissjóði til rannsókna. Fjármögnun á samkeppnissjóðum getur komið frá ríki, fyrirtækjum og einstaklingum. Veita ætti afslátt af sköttum til þessara fjárfestingaaðila.

Háskólastofnanir eiga að rækta samband sitt við brautskráða nemendur mun betur. Hvetja á gamla nemendur til þess að þakka skólanum sínum fyrir fjárfestingu hans í þeirra menntun. Séu engin skólagjöld innheimt eru meiri líkur á því að gömlum nemendum þykja þeir vera skuldbundnir skólanum sínum. Þeir ættu að gefa til baka með því að bjóða stöku sinnum fram krafta sína eða leggja fram fjárframlög. Þá er spurning hvort ætti að hvetja til þess að fjármagni sé frekar veitt í sjóði til að skekkja ekki samkeppnisstöðu milli skóla. Jafnvel væri betra að líta á þessi tengsl við gamla nemendur sem auka tekjulind skólanna – í stað skólagjalda. Þá mundi þeim háskólum vegna betur sem ræktuðu best samband við sína nemendur því þá fengju þeir aðgang að þekkingarbrunni þeirra og jafnvel djúpum vösum. Fyrir þær námsgreinar sem ekki beint gefa af sér möguleika á hálaunastörfum þá er aðgengi að góðum fræðimanni mjög mikils virði.

Grípum til aðgerða

Það er ekki eftir neinu að bíða. Stefnan er skýr. Samfylkingin á að berjast fyrir stefnu sinni um að engin skólagjöld skuli vera frá og með leikskóla til og með háskóla. Þá er mjög mikilvægt að jafna samkeppnisstöðu háskólanna. Öflugt og fjölbreytt háskólaumhverfi er segull á ungt fólk og á þessum hávaxta tímum þarf þessi segull að vera hvað sterkastur til að halda unga fólkinu í landinu.


Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand