Ber almenningur ábyrgð á ábyrgðarleysi stjórnmálamanna?

,,Það er nefnilega almenningur sem dregur línuna í sandinn, en ekki stjórnmálamennirnir“. Segir Sölmundur Karl Pálsson í ritstjórnarpistli dagsins.

Samkvæmt Alþjóðabankanum telst hluti góðrar stjórnsýslu að stjórnmálamenn og opinberir starfsmenn taki ábyrgð á gjörðum sínum. Fyrir mér sem áhugamanni um stjórnmál er gaman að skoða þessi mál á Íslandi því þau eru eilítið sérstök. Almenningur kvartar stöðugt að íslenskir stjórnmálamenn taki aldrei ábyrgð á einu eða neinu. Jafnvel ganga sumir það langt að kalla íslenska stjórnmálamenn siðlausa sem hugsi aðeins um sjálfan sig og sína. En kannski eru íslenskir stjórnmálamenn ekkert siðlausari en annars staðar. En hugsanlega komast þeir upp með meira hér á landi en víðast hvar annars staðar í heiminum. Gæti það verið að það sé íslenskum almenningi að einhverju leyti að kenna að íslenskir stjórnmálamenn taka ekki meiri ábyrgð á sig?

Ábyrgðarleysi almenningi að kenna?

Margir hverjir hafa hátt þegar einhver stjórnmálamaður misstígur sig, en eftir nokkrar vikur er þetta gleymt og grafið. Síðan finnst fólki það skrítið að tiltekinn stjórnmálamaður hafi ekki tekið á sig ábyrgð. En þeir sömu sem kvarta yfir ábyrgðarleysi leggja lítið á sig í að krefja stjórnmálamenn til ábyrgðar. Það er nefnilega almenningur sem dregur línuna í sandinn, en ekki stjórnmálamennirnir. Stjórnmálamenn vinna í umboði okkar kjósendanna og því hljóta þeir að vera háðir okkur hversu langt þeir mega ganga. Málið er að þessi lína Íslendinga er varla sjáanleg, og því ekkert skrítið að stjórnmálamenn hér á landi geta gengið lengra en víðaannars staðar. Annað er upp á teningnum á Norðurlöndunum. Þar er þessi lína sjáanleg og almenningur passar upp á að enginn fari yfir hana. Margir stjórnmálamenn þar hafa þurft að segja af sér vegna mála sem við hér á landi myndum álíta vera litla sök.
Íslendingar þurfa að fara að draga línuna í sandinn, svo að stjórnmálamenn sjái þessa línu og hagi sér eftir henni. Almenningur verður þá að standa vörð um þessi mörkog refsa þeim sem fara yfir hana. Þetta á bæði jafnt fyrir almenning sem og fjölmiðla. Á meðan almenningur hefur ekki sett þessi mörk þýðir lítið að krefja þá til ábyrgðar þar sem þeir vita ekki hvenær almenningi er misboðið.

Hvar drögum við mörkin?

Mér finnst annars alþingismenn og ráðherrar vinna einhverja skemmtilegustu vinnu sem hægt er. Ég, eins og margir aðrir, vildum gjarnan fá tækifæri til að vinna þessi störf í framtíðinni. En að vinna sem alþingismaður eða ráðherra er erfitt. Við borgarnir eigum það til að líta á alþingismenn sem eingöngu sem alþingsmenn en ekki sem venjulega borgara. Málið er hvar eigum við að að draga mörkin, hvenær er alþingismaður ekki alþingismaður?
Er ekki sanngjarnt að við setjum auknar kröfur á alþingismenn en á aðra? Eigum við ekki að setja þá lágmarkskröfu að alþingismenn fari eftir lögunum sem þeir setja sjálfir? En síðan er það áhugaverð spurning hversu langt eigum við að ganga á einkalíf alþingismanna? Eigum við að krefjast uppsagnar alþingismanns ef kemst upp um framhjáhald? Þetta er t.d. spurning sem við almenningur þurfum að svara. Við verðum að ákveða hversu langt stjórnmálamenn mega ganga langt. En það er alveg ljóst að um leið og búið er að ákveða mörkin þá verðum við að standa við þau og leyfa engar undantekningar. Þá fyrst getum við kallað sjórnmálamenn til ábyrgðar.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand