Ungir jafnaðarmenn leggja til tillögur um niðurskurð

Magnús Már Guðmundsson formaður Ungra jafnaðarmanna fjallar um tillögur að niðurskurð sem ræddar voru og samþykktar á nýliðinu landsþingi hreyfingarinnar. Magnús Már segir að útgjöld hins opinbera hafa þanist út á undanförnum árum og bruðl og forgangsröðun stjórnvalda sést einna best þegar að kostnaður almennings vegna 12 ráðherrabíla á árunum 1998-2003 er skoðaður, en kostnaðurinn var nálægt 500 milljónum eða 80-90 milljónum á ári hverju.

Um nýliðna helgi héldu Ungir jafnaðarmenn sitt 7. landsþing og fór það fram í Mosfellsbæ. Á þinginu fór fram kröftugt og mikið og gott málefnastarf. Man ég vart eftir að hafa sjálfur tekið þátt í jafn frjóum og skemmtilegum umræðum um ályktanir.

Einn af þeim málaflokkum sem við tókum fyrir um helgina voru tillögur um niðurskurð. Ungir jafnaðarmenn gera sér grein fyrir því að til að auka svigrúm hins opinbera til að byggja upp öflugra velferðar- og menntakerfi og til að létta skattbyrði verða að koma tillögur um niðurskurð á móti. Útgjöld hins opinbera hafa þanist út á undanförnum árum og bruðl og forgangsröðun stjórnvalda sést einna best þegar að kostnaður almennings vegna 12 ráðherrabíla á árunum 1998-2003 er skoðaður, en kostnaðurinn var nálægt 500 milljónum eða 80-90 milljónum á ári hverju.

Nauðsynlegt er að draga úr fjárútlátum til ýmissa málaflokka, minnka ríkisafskipti á ákveðnum sviðum og endurksipuleggja umfang ríkisrekstrar. Hér koma þær tillögur sem við ræddum um helgina og ákváðum að hafa í niðurskurðartillögum okkar. Vafalítið er hægt að bæta við listann og týna til fleiri atriði.
_____________

Endurskipulagning ráðuneyta
Í dag eru ráðuneyti íslenska ríkisins þrettán talsins. Mörg þeirra eru smá en með mikla yfirbyggingu. Með endurskipulagningu og sameiningu ráðuneyta væri hægt að auka skilvirkni, fækka ráðherrum, lækka launagreiðslur, samnýta starfsfólk og einfalda yfirbyggingu ríkisstjórnarinnar. Ungir jafnaðarmenn leggja til að ráðuneytum verði fækkað úr þrettán í níu.

Bifreiða-, ferða- og risnukostnaður
Bifreiða-, ferða- og risnukostnaður hins opinbera hefur aukist upp úr öllu valdi seinustu ár. Samkvæmt bókhaldi stofnana ríkisins fyrir árið 2004 var ferðakostnaður ráðuneytanna og undirstofnana þeirra 2,3 milljarðar. Risnukostnaður þeirra var rúmar 330 milljónir og jókst um 10% frá árinu áður. Aksturs- og bifreiðakostnaður hins opinbera var 1,2 milljarðar. Ungir jafnaðarmenn telja að hægt sé að draga saman verulega þegar kemur að bifreiða-, ferða- og risnukostnaði ríkisins en kostnaðurinn fyrir árið 2004 var samtals 3,9 milljarðar.

Ráðherrabílaflotinn
Kostnaður almennings vegna 12 ráðherrabíla á árunum 1998-2003 var nálægt 500 milljónum eða 80-90 milljónum á ári hverju. Ungir jafnaðarmenn telja kostnaðinn vera með öllu ótækan og leggja til að ráðherrabílunum verði fækkað og þeir samnýttir.

Einföldun sjóða- og styrkjakerfis
Sjóða- og styrkjakerfi íslenska ríkisins er þungt í vöfum. Flóran í þessum geira er mikil og yfirbyggingin kostnaðarsöm. Ungir jafnaðarmenn vilja að kerfið verði tekið til gagngerrar endurskoðunar og það einfaldað með sameiningu og fækkun sjóða og styrkja.

Lækkun ríkisstyrkja til landbúnaðar
Beinir og óbeinir styrkir til landbúnaðarkerfisins eru á annan tug milljarða króna á ári. Þrátt fyrir þessar háu styrkupphæðir er verð á landbúnaðarvörum mjög hátt og ekki samkeppnishæft við verð á sambærilegri vöru erlendis frá. Nú er kerfið uppbyggt af óhagstæðum, smáum, rekstrareiningum. Nauðsynlegt er að stokka upp í kerfinu og byggja upp stærri og hagstæðari rekstrareiningar. Ungir jafnaðarmenn vilja að styrkir til landbúnaðar verði skornir niður.

Fækkun sendiráða og samnýting með öðrum Norðurlöndum
Útgjöld vegna sendiráða Íslands eru um 1,6 milljarðar á ári. Við teljum ekki að þessi útgjöld skili tilætluðum árangri. Ungir jafnaðarmenn telja að hér megi spara umtalsverðar fjárhæðir með því að samnýta sendiráð með öðrum Norðurlöndum, auka aðhald í rekstri og minnka íburð sendiráða. Einnig telja Ungir jafnaðarmenn að endurskoða ætti fjölda sendiráða.

Aðskilnaður ríkis og kirkju
Ungir jafnaðarmenn vilja aðskilnað ríkis og kirkju. Leggja ætti niður framlög ríkissjóðs til trúfélaga í núverandi mynd. Framlög ríkissjóðs t.a.m. til þjóðkirkjunnar eru í dag áætluð rúmur milljarður umfram venjuleg sóknargjöld.

Hættum að styrkja stríðsrekstur
Ungir jafnaðarmenn hafna alfarið aðild Íslands að öllum stríðsrekstri og vilja að Ísland hætti að verja fjármunum til þessa málaflokks.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand