Lækkun matvælaverðs – orð og efndir

Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, segir að á undanförnum dögum hafi Sjálfstæðisþingmennirnir Guðlaugur Þór Þórðarson og Birgir Ármannsson ljáð máls á mikilvægi þess að lækka matvælaverð á Íslandi. Ágúst Ólafur sagist vera þeim hjartanlega sammála og fagna þessum nýja liðsauka í umræðunni um lægra verð á matvöru. Hins vegar verði að viðurkennast að sinnaskipti þingmannanna komi furðulega fyrir sjónir. Undanfarna daga hafa Sjálfstæðisþingmennirnir Guðlaugur Þór Þórðarson og Birgir Ármannsson ljáð máls á mikilvægi þess að lækka matvælaverð á Íslandi. Ég er þeim hjartanlega sammála og fagna þessum nýja liðsauka í umræðunni um lægra verð á matvöru. Hins vegar verður að viðurkennast að sinnaskipti þingmannanna koma furðulega fyrir sjónir. Samfylkingin hefur lagt mikla áherslu á þetta mál, enda er það bjargföst trú mín og félaga minna í þingflokknum að lækkun matarverðs skipti almenning í landinu miklu máli. Samfylkingin hefur reglulega lagt fram þingmál þess efnis að fella niður virðisaukaskatt á matvælum, en með því skapast forsendur til þess að lækka verð á matvöru.

Hvernig kusu menn á þingi um málið?
Í atkvæðagreiðslum hafa þingmenn Sjálfstæðisflokks hins vegar alltaf greitt atkvæði gegn slíkum frumvörpum. Það hafa þeir Guðlaugur Þór og Birgir einnig gert, sem og allur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins. Í upphafi þessa kjörtímabils lagði Samfylkingin fram frumvarp um helmingslækkun á matarskatti, en það var í samræmi við loforð okkar í kosningabaráttunni. Svo vildi til að Sjálfstæðisflokkurinn hafði lofað því nákvæmlega sama.

En þegar kom að efndum kosningaloforðanna brást þingflokkur Sjálfstæðisflokksins í þessu máli og greiddi atkvæði gegn þessu máli. Það var ekki liðið hálft ár frá kosningum en það virtist nægilega langur tími til þess að loforð kosningabaráttunnar voru löngu gleymd.

Afturkölluð kosningaloforð Sjálfstæðismanna
8. október 2003 birtist í DV afstaða þingmanna Sjálfstæðismanna til frumvarps Samfylkingarinnar um helmingslækkun á matarskattinum og um leið afstaða þeirra til eigin kosningaloforðs. Einar K. Guðfinnsson, þá þingflokksformaður, sagðist ekki vilja styðja frumvarpið því hann vildi lækka matarskattinn á eigin forsendum eins og hann orðaði það. Ég veit ekki hvernig túlka á þessi orð, því forsendur Sjálfstæðisflokks í þessu máli voru þær sömu og Samfylkingarinnar í kosningabaráttunni. Hvort að eigin forsendur merki að ekki þurfi að standa við gefin loforð er erfitt að segja. Loforð flokkanna tveggja lutu að því að lækka matarskatt úr 14% í 7%. 

Þingmaðurinn Sigurður Kári Kristjánsson sagði að Sjálfstæðisflokkurinn myndi vinna að þessu máli en það yrði ekki í anda frumvarps Samfylkingarinnar. Aftur nokkuð sérstök afstaða í ljósi loforð hans eigin flokks. Birgir Ármannsson treysti sér ekki heldur að styðja sitt eigið kosningaloforð og vildi frekar bíða og sjá skattapakka ríkisstjórnarinnar í heild sinni.

Nú er komið að lokum þessa kjörtímabils og þessir þingmenn hafa fengið fleiri tækifæri til að kjósa með lækkun matarskattsins en alltaf kosið gegn því. 

Viðsnúningur Sjálfstæðisflokks?
Það er óskandi að afstaða þeirra Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og Birgis Ármannsonar og annarra þingmanna Sjálfstæðisflokksins verði önnur á komandi þingi, en hún hefur verið hingað til. Samfylkingin mun þá að nýju leggja fram tillögur til þess að stuðla að lægra verði á matvöru og þá vonumst við auðvitað til þess að hljóta stuðning frá Sjálfstæðisflokknum. Þá eru til staðar forsendur til þess að hafa með jákvæðum hætti áhrif á þróun matvælaverðs á Íslandi.

Fram til þessa hefur skort á pólitískan vilja í þeim efnum. Kannski þarf kosningabaráttu til að Sjálfstæðismenn fari að rifja upp fyrri stefnu og loforð.

Greinin birtist á vefsíðu Ágústs Ólafs 15. september sl.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið