Ungir jafnaðarmenn hafna olíuvinnslu

Ungir jafnaðarmenn hafna öllum hugmyndum um leit og vinnslu jarðefnaeldsneyta við Íslandsstrendur. Slík vinnsla myndi stórskaða ímynd Íslands og auka útblástur gróðurhúsalofttegunda, auk þess sem olíu- og gasvinnslu á þessu svæði fylgdi efnahagsleg áhætta. Ungir jafnaðarmenn telja sömuleiðis að Samfylkingin hafi gert mistök í málinu sem flokkurinn þarf að viðurkenna og leiðrétta.

 

Loftslagsbreytingar kalla á aðgerðir

Loftslagsbreytingar af mannavöldum er ein stærsta ógn sem steðjar að mannkyninu í dag. Ætli heimsbyggðin að vinna bug á loftslagsbreytingum verður hún að skilja a.m.k. tvo þriðjuhluta þekktra birgða jarðefnaeldsneyta eftir ofan í jörðinni. Þetta hafa bæði Loftslagsnefnd Sameinuðu Þjóðanna (IPCC) og Alþjóða Orkumálastofnunin (IEA) staðfest. Afleiðingar loftslagsbreytinga gætir nú þegar og milljónir manna víða um heim þjást vegna þeirra. Ísland verður að axla sína ábyrgð í loftslagsmálum með því að láta væntanlegar olíu- og gaslindir á Drekasvæðinu vera.

Vöxtur grænnar orku gerir vinnslu jarðefnaeldsneyta áhættusama

Heimsbyggðin lítur í sífellt auknum mæli til endurnýjanlegra orkugjafa. Þetta hefur orðið til þess að fjárfestingar í geiranum verða sífellt áhættusamari sem sýndi sig nú nýlega þegar Rockefeller-fjölskyldan dró sig út úr öllum fjárfestingum í fyrirtækjum sem tengjast framleiðslu jarðefnaeldsneyta. Þá er vinnsla þeirra á norðurslóðum mjög dýr og lækkandi olíuverð gæti gert hana beinlínis óarðbæra.

Hrein ímynd Íslands

Íslendingar hafa öðlast gott orðspor í orkumálum með framleiðslu hreinnar jarðvarma- og vatnsaflsorku. Sérstaða Íslands er ótvíræð og hefur útflutningur íslensks hugvits á þessu sviði skilað fyrirtækjum hér á landi miklum tekjum. Hreinleiki er ein verðmætasta söluvara Íslands, bæði þegar kemur að sjávarútvegi og ferðaþjónustu. Ungir jafnaðarmenn óttast að vinnsla jarðefnaeldsneyta gæti skaðað þessa jákvæðu ímynd sem Ísland hefur á alþjóðavettvangi.

Jafnaðarmenn – líka í umhverfismálum

Vegna neikvæðra áhrifa notkunar jarðefnaeldsneyta á alla jarðarbúa telja Ungir jafnaðarmenn að aukin vinnsla þess samræmist illa jafnaðarstefnunni. Við hvetjum Samfylkinguna til að viðurkenna mistök í þessum efnum, sem fólust í því að ríkisstjórn hennar stóð að útgáfu sérleyfa til vinnslu jarðefnaeldsneyta á Drekasvæðinu. Þá krefjast Ungir jafnaðarmenn þess að Samfylkingin setji sér afgerandi stefnu í þessu máli þar sem loftslagið er sett í fyrsta sæti og vinnslu jarðefnaeldsneyta er hafnað.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið