Stjórnmálaályktun landsþings Ungra jafnaðarmanna 10.-12. október 2014
Landsþing Ungra jafnaðarmanna 2014 var haldið undir yfirskriftinni „Fjölmenning gegn fordómum“.
Á landsþinginu var samþykkt stjórnmálaályktun þar sem m.a. var ályktað gegn fordómafullri orðræðu sem beinist gegn fjölmenningu, og gegn stefnu ríkisstjórnarinnar í Evrópu- og alþjóðamálum, sem og forgangsröðun ríkisfjármála. Í ályktuninni kemur einnig fram vilji til að aðskilja ríki og kirkju og hvatning til Samfylkingarinnar til að treysta ungu fólki til áhrifa. Ályktunina í heild má sjá hér að neðan:
Fjölmenning gegn fordómum
Fjölmenning auðgar samfélagið og brýnt er að vinna gegn öflum sem stefna að því að gera samfélagið einsleitnara og leiðinlegra. Vaxandi þjóðernishyggja og fordómar eru til þess fallin að ýta fólki, sem annars gæti tekið fullan þátt í samfélaginu, út á jaðarinn. Ungir jafnaðarmenn vilja ekki að hópar einangrist frá samfélaginu og mikilvægt er að allir hafi jafna möguleika. Þeir sem verða fyrir barðinu á þessari þróun eru t.d. innflytjendur með fjölbreyttan menningarlegan bakrunn. Framkoma frambjóðenda Framsóknarflokksins í Reykjavík gagnvart samborgurum af ólíkum uppruna fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor er mjög uggvænleg og er lýðskrum af verstu sort. Við viljum upplýst og opið samfélag laust við fordóma og hatur.
Ungir jafnaðarmenn vilja búa í fjölmenningarsamfélagi þar sem fjölbreytileikanum er fagnað og ekkert umburðarlyndi er gagnvart hatursfullri orðræðu, hvorki af hálfu kjörinna fulltrúa né almennra borgara. Ungir jafnaðarmenn reiðast yfir því að fjölmiðlar landsins veiti haturs- og fordómafullri umræðu byr undir báða vængi í stað þess að beina sjónum sínum að uppbyggilegri umræðu.
Með áhrifavaldi sínu, geta fjölmiðjar og kjörnir fulltrúar stýrt umræðunni frá því neikvæða plani sem hún er á núna og í stað ýtt undir jákvæð viðhorf almennings gagnvart minnihlutahópum og fjölmenningarsamfélögum.
Ísland standi við alþjóðlegar skuldbindingar og beiti sér fyrir friði
Ungir jafnaðarmenn vilja alheimsfrið og leggjast gegn elítisma auðugra iðnríkja á alþjóðavettvangi. Við mælumst til þess að íslensk stjórnvöld gerist öflugri boðberar friðar á heimsvísu og krefjumst þess að þau standi við alþjóðlegar skuldbindingar sínar varðandi þróunarsamvinnu. Skammarlegt er að Ísland hafi aldrei náð að standa við skuldbindingar sínar um að leggja fram 0.7% þjóðarframleiðslu til þróunarsamvinnu. Þar að auki styðja Ungir jafnaðarmenn aukna verslun við þróunarlönd, enda er það farsæl leið til að efla hag þróunarlanda á jafnræðisgrundvelli. Þessu er hægt að ná fram t.a.m. með því að fella niður tolla á innflutningi frá þróunarríkjum og gera fríverslunarsamninga við þau.
Ekki meiri einangrunarstefnu gagnvart Evrópu
Ungir jafnaðarmenn fordæma markvissa einangrunarstefnu íslenskra stjórnvalda og krefjast þess að ríkisstjórnin standi við skuldbindingar sína gagnvart Evrópskra efnahagssvæðinu (EES) og leiðrétti innleiðingarhalla á reglugerðum og lögum. Áhugaleysi ríkisstjórnarinnar við að framfylgja samningnum skerðir uppbyggingarmöguleika íslensks viðskiptalífs. Auk þess er stefnuleysi ríkisstjórnarinnar varðandi afnám gjaldeyrishafta aðför að frekarai efnahagsbata. Ísland stendur ekki jafnfætis öðrum Evrópuþjóðum í viðskiptum og krefjast Ungir jafnaðaramenn breytinga.
Mikilvægi NPA
Ungir jafnaðarmenn vilja að haldið sé áfram með þróun notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA) í tengslum við þjónustu við fatlaða. Ungir jafnaðarmenn telja NPA sérstaklega vel til þess fallið að veita fötluðu fólki vald yfir eigin lífi. Þannig er líklegra að einstaklingar hafi jöfn tækifæri á við aðra til að mennta sig og komast út á vinnumarkaðinn. Það skal stuðlað að jafnrétti og sambærilegum lífskjörum fyrir alla borgara óháð færni.
Feminísk menntastefna
Ungir jafnaðarmenn leggja áherslu á að kynjafræði verði fléttuð inn í allt nám á öllum skólastigum. Mjög mikilvægt er að þessi fræðsla hefjist strax á fyrsta skólastigi, þ.e. í leikskóla, enda byrja staðlaðar ímyndir okkar af samfélagshópum og kynjahlutverkum að mótast strax í frumbernsku. Til þess að þetta geti orðið að veruleika verður að gera kynjafræði að skyldufagi í öllu kennaranámi. Þannig veitum við þeirri félagsmótun sem þröngvar okkur í fyrirfram ákveðin hlutverk mótvægi. Ungir jafnaðarmenn telja að stjórnvöld eigi að sjá til þess að allir þegnar þjóðfélagsins geti blómstrað sem einstaklingar, frjálsir undan íþyngjandi staðalímyndum. Innleiðing kynjafræðikennslu er liður í því.
Forkastanleg forgangsröðun ríkisfjármála
Ungir jafnaðarmenn gagnrýna forgangsröðun ríkistjórnarinnar sem kemur bersýnilega fram í fjárlagafrumvarpinu. Hækkun virðisaukaskatts á mat og bókum kemur sérstaklega niður á hinum efnaminni í samfelaginu. Í stað þess að nýta svigrúm í ríkisfjármálum til að sækja fram í menntamálum er áfram skorið niður til háskóla og framhaldsskóla. Auk þess er ekki brugðist við brýnni þörf heilbrigðiskerfisins á fjármagni til viðhalds og tækjakaupa.
Spilling í mjólkuriðnaði
Ungir jafnaðarmenn fordæma þá spilling sem hefur einkennt mjólkuriðnað á Íslandi frá upphafi. Ráðherrar úr röðum Framsóknarflokksins hafa kerfisbundið hyglt einu fyrirtæki með markaðsráðandi stöðu sem á sama tíma er beintengt flokknum. Ungir jafnaðarmenn krefjast þess að hagsmunatengsl ráði ekki för þegar Alþingi og ráðherrar taka ákvarðanir um örlög ákveðinna atvinnugreina. Ungir jafnaðarmenn telja það eina af grunnstoðum réttarríkis að lög og reglugerðir séu gerðar til að þjóna heildarhagsmunum þjóðarinnar en ekki ákveðnum hagsmunaaðilum úr atvinnulífinu.
UJ veitir Samfylkingunni aðhald
Ungir jafnaðarmenn ætla sér að halda áfram að veita Samfylkingunni öflugt aðhald. Oft er haft orð á því að ungliðahrefyingar séu samviska flokkanna, en Ungir jafnaðarmenn telja það hlutverk sitt að tryggja að Samfylkingin fari ekki af leið við störf sín.
Aðskilnaður ríkis og kirkju
Þá geta Ungir jafnaðarmenn ekki stutt þingmenn þegar þeir tala fyrir lagalegri yfirburðastöðu þjóðkirkjunnar og forgangsröðun í þágu hennar. Að mati Ungra jafnaðarmanna er það grundvallarmannréttindamál og grunnhugsjón jafnaðarstefnunnar að trúfrelsi skuli virt en við teljum að svo sé ekki gert með sérmeðferð ríkisins í garð þjóðkirkjunnar. Hvergi í stefnu Samfylkingarinnar er kveðið á um kirkjuskipan og því með öllu ótækt að þingmenn skuli setja hennar málefni á oddinn.
Samfylkingin stendur vörð um almannahagsmuni
Þó vilja Ungir jafnaðarmenn koma á framfæri ánægju sinni með framgöngu Samfylkingarinnar í stjórnarandstöðu. Á meðan að ríkisstjórnarflokkarnir hafa lagt áherslu á að flytja auðinn frá lægri stéttum til hinna efnameiri hefur Samfylkingin staðið ötulan vörð um hagsmuni fjöldans. Þingmenn flokksins hafa talað fyrir málefnum ungs fólks s.s bættum kjörum á leigumarkaði, eflingu menntakerfisins og fjölbreytts atvinnulífs á alþjóðlegum grundvelli.
Ungt fólk til áhrifa
Ennfremur viljum við að Samfylkingin treysti fleiru ungu fólki til ábyrgðarhlutverka innan sem utan flokksins. Þingflokkurinn er sá elsti á Alþingi, en þörf er á að nýliðun eigi sér stað við næstu Alþingiskosningar. Vilja Ungir jafnaðarmenn þar af leiðandi tryggja að minnst einn einstaklingur undir 35 ára aldri sé á einum af efstu fimm sætum á framboðslistum Samfylkingarinnar í öllum kjördæmum. Auk þess sem komið sé á 30% aldurskvóta líkt og gert var í Reykjavík fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar.