Ungir jafnaðarmenn fordæma innrás Tyrkja

Ungir jafnaðarmenn fordæma innrás Tyrkja í Rojava og aðgerðaleysi Bandaríkjamanna.

Trump og Erdogan

Tugþúsundir manna eru nú á flótta eftir að tyrkneski herinn réðst þann 9. október síðastliðinn inn á kúrdíska yfirráðasvæðið Rojava í Norður-Sýrlandi. Innrásinni var hrundið af stað eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti fullvissaði tyrkneskan starfsbróður sinn, Recep Tayyip Erdoğan, um að bandarískir hermenn í Sýrlandi myndu ekki skipta sér með neinum hætti af þessari árás Tyrkja á kúrdíska bandamenn þeirra. Ásetningur Tyrkja er að uppræta yfirráð samtaka sem þeir telja til hryðjuverkahópa og koma upp eigin öryggissvæði fyrir flóttamenn.

Her Bandaríkjanna og bandamanna þeirra í Sýrlandi hafa síðastliðin ár barist við hlið Lýðræðissveita Sýrlands (SDF) og Varnarsveita Kúrda (YPG), sem hafa komið sér upp sjálfstjórnarsvæðinu Rojava í norðurhluta Sýrlands. Þessi kúrdísku hernaðarsamtök hafa verið einna ötulustu andstæðingar hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki (ISIS), sem réðu fyrir fáeinum árum yfir miklu landflæmi í Sýrlandi, en hafa nú að mestu verið þurrkuð af kortinu. Þar er ekki síst að þakka baráttu SDF og YPG, sem hafa frelsað fjölda borga undan ógnarstjórn ISIS, meðal annars stórborgina Raqqa, sem var höfuðborg „kalífadæmis“ hryðjuverkahópsins frá 2014 til 2017.

Að orðinu til hefur Donald Trump í forsetatíð sinni lagt ríka áherslu á baráttuna gegn þeirri hryðjuverkaógn sem stafar af íslömskum öfgahreyfingum. Það að hann skuli snúa baki við þeim hópum sem hafa gert hvað mest til að uppræta eina hættulegustu öfgahreyfingu síðustu ára er því í besta falli mjög ódrengilegt og í miklu ósamræmi við yfirlýsta stefnu hans.

Ungir jafnaðarmenn fordæma innrás Tyrkja og fálæti Bandaríkjanna gagnvart henni. Ennfremur telur hreyfingin hvort tveggja varpa skugga á aðild Íslands ásamt báðum ríkjunum í Atlantshafsbandalaginu – ekki einungis því Ísland hefur lítinn heiður af því að vera í hernaðarbandalagi með ríki sem kemur fram af illrættlætanlegum ágangi gegn þjóðarbroti í nágrannaríki sínu, heldur vegna þess að fálæti Bandaríkjanna gagnvart bandamönnum sínum vekur verulegar efasemdir um að bandalag við þau muni í raun tryggja öryggi Íslendinga þegar á hólminn er komið.

Ein röksemd Donalds Trump fyrir því að snúa baki við kúrdískum bandamönnum sínum var sú að Kúrdar hefðu ekki hjálpað Bandaríkjaher í innrásinni í Normandí árið 1944. Minnumst þess í augnablik að við Íslendingar börðumst ekki heldur í Normandí – og vonum að ef einhvern tímann steðjar hætta að Íslandi muni Bandaríkin ekki setja svo þröng skilyrði fyrir því að heiðra bandalag okkar.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand