Ungir jafnaðarmenn fagna þeirri hugmynd að sett verði á fót rannsóknarnefnd sem verði falið að rannsaka aðdraganda stuðningsyfirlýsingar Íslands við innrásina í Írak árið 2003.
Ungir jafnaðarmenn fagna þeirri hugmynd, sem komið hefur fram í máli Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur og Ögmundar Jónassonar, að sett verði á fót rannsóknarnefnd sem verði falið að rannsaka aðdraganda stuðningsyfirlýsingar Íslands við innrásina í Írak árið 2003.
Um er að ræða eina afdrifaríkustu og jafnframt umdeildustu ákvörðun Íslendinga í utanríkismálum frá lýðveldisstofnun.
Ungir jafnaðarmenn telja að sérstaklega þurfi að taka til skoðunar aðkomu Alþingis að þeirri ákvörðun og hvaða lærdóm megi af henni draga. Ungir jafnaðarmenn telja jafnframt nauðsynlegt að tryggt sé að afdrifaríkar ákvarðanir er varða utanríkismál séu teknar að vel ígrunduðu máli með fullri aðkomu lýðræðislegra stofnana eins og Alþingis.
Hið lýðræðislega ferli á að fela í sér meira en einfaldlega að þingmeirihluti styðji ríkisstjórn falli.
Ákvörðun þáverandi ríkisstjórnar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks um stuðning við stríðið í Írak hefur sömuleiðis verið umdeild allar götur síðan hún var tekin. Þingmenn VG og Samfylkingarinnar gagnrýndu harðlega þennan stuðning við aðgerðir Bandaríkjanna og þeirra bandalagsþjóða.
Þessir tveir flokkar mynda nú meirihluta á Alþingi og því ekkert í vegi að málið sé krufið til mergjar og niðurstaða fengin sem skýri hvernig þessi ákvörðun var tekin, hver aðdragandi hennar var og þær ástæður sem lágu að baki.