Ungir íbúðareigendur þurfa svör strax

Ungir Íslendingar sætta sig ekki við að verða fangar í skuldafangelsi eigin húsnæðis. Finna þarf aðrar lausnir en að lengja í hengingarólinni, skrifar Guðlaugur Kr. Jörundsson, varaformaður Hallveigar, í grein sem birtist í Morgunblaðinu.

Hallveig – ungir jafnaðarmenn í Reykjavík sendi frá sér ályktun með tillögum að lausnum hinn 11. nóvember. Henni er hér fylgt eftir. Við köllum eftir upplýsingum og lausnum til framtíðar. Umræðunnar vegna leggjum við fram tillögur að lausnum sem mætti skoða.

Sættum okkur ekki við skuldafangelsi
Ungir Íslendingar sætta sig ekki við að verða fangar í skuldafangelsi eigin húsnæðis. Við viljum leiðarvísi um inngöngu í ESB og upptöku evru. En einnig leiðarvísi um skammtímalausnir þar til að Ísland tekur upp evruna.

Stjórnvöld reyna nú með veikum mætti að koma gjaldeyrisviðskiptum í gang. Það gengur illa að ganga frá láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og fá lán hjá erlendum seðlabönkum. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur áður reynt að setja gjaldmiðla á flot. Árangurinn var ekki glæsilegur. Stjórnvöld taka því mikla áhættu með stefnu sinni.

Við eigum ónýtan gjaldmiðil en niðurstaðan eftir fleytingu krónunnar gæti verið ónýtur gjaldmiðill og að auki sex milljarða dollara skuldsetning. Þessi áhætta kallar á alvarlegar umræður um aðrar lausnir án tafar. Það er ábyrgðarleysi að fara þessa leið áður en aðrar lausnir eru skoðaðar.

Þak á hækkun verðbóta
Ungt fólk hefur á síðustu árum keypt húsnæði dýru verði og skuldsett sig mikið. Einhverjar fjölskyldur eru nú þegar komnar í greiðsluerfiðleika. Stjórnvöld vinna að því að komast til móts þær fjölskyldur og er það gott. Þau verða þó að vinna hraðar.

Spáð er mikilli verðbólgu og hruni á fasteignaverði. Ef ungar skuldugar fjölskyldur sjá ekki fram á annað en frelsisskerðingu, að skuldir vaxi yfir eignir, munum við sjá fram á landflótta. Flóttinn er þegar hafinn. Skoða verður aðrar lausnir en þær að lengja í hengingarólinni með því að lengja í lánum. Skoða þarf hvort hægt sé að setja þak á hversu hratt verðbætur á verðtryggðum lánum geta hækkað. Við tókum verðtryggðu lánin því við treystum stjórnvöldum til að halda sig við verðbólgumarkmiðin.

Lausaféð undan koddanum
Það þarf að athuga lausnir til þess að ná lausafénu undan koddunum og aftur inn í bankana. Koma þarf til móts við þá sem enn eiga sparifé. Sparnaðinn þarf að verðtryggja svo hann gufi ekki upp. Skoða þarf möguleikann á að stytta þriggja ára bindiskyldu á verðtryggðum innlánum þannig að það fjármagnið komist fyrr aftur í umferð. Verði bindiskyldan stytt mun það auka hvata til innlána sem hlýtur að styrkja bankana í núverandi stöðu.

Stjórnvöld í lið með fólkinu í landinu
Það sem skiptir öllu máli ef við eigum að komast yfir þessar þrengingar er að halda vinnufæru fólki í landi og mæta grundvallarþörf þess að eiga öruggt húsaskjól. Ef ekki verður komið í veg fyrir að óréttlát verðtrygging éti upp eignir fólksins í landinu þá upplifir almenningur ekki þá liðsheild sem nú er svo nauðsynleg.

Höfundur er varaformaður Hallveigar – ungra jafnaðarmanna í Reykjavík

Birtist í Morgunblaðinu, 26. nóvember 2008

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand