Magnús Már gefur kost á sér í 4. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar sem fer fram dagana 9. –10. febrúar.
Nafn: Magnús Már Guðmundsson
Starf/menntun: Formaður borgarstjórnarflokks Samfylkingarinnar. Á kjörtímabilinu hef ég færst fram og til baka þar sem ég byrjaði sem 2. varaborgarfulltrúi, gegndi stöðu borgarfulltrúa í eitt og hálft ár og er nú 1. varaborgarfulltrúi. Þegar kjörtímabilið hófst var ég að kenna í Menntaskólanum í Kópavogi. Ég fór síðar í leyfi vegna aukinna verkefna í borgarmálunum. Áður starfaði ég sem blaðamaður á Vísi og Bylgjunni auk þess sem ég var framkvæmdstjóri Ungra jafnaðarmanna og starfaði lengi samhliða námi með krökkum úr Öskjuhlíðarskóla, frístundastarfi í Hinu húsinu fyrir fötluð ungmenni auk skammtímavistunar í Hafnarfirði.
Ég lærði sagn- og stjórnmálafræði í HÍ eftir að ég lauk stúdentsprófi frá Kvennó. Síðar bætti ég við mig kennslufræði sem veitti mér kennslusréttindi.
Fjölskylduhagir: Ég er giftur Sigurveigu Sigurjónsdóttur Mýrdal, deildarstjóra á Bugl. Saman eigum við Maríu, Friðrik og Styrkár sem eru fædd 2011-2016.
Hvers vegna ákvaðst þú að gefa gefa kost á þér í flokksvali Samfylkingarinnar í Reykjavík?
Borgarmálin eru ofboðslega spennandi. Verkefnin síðustu ár hafa verið fjölbreytt og skemmtileg. Starfið bíður upp á beint samband við borgarbúa og sömuleiðis námið samstarf við borgarstarfsmenn en hjá borginni starfar mikið fagfólk. Ég fylgja eftir þeim verkefnum sem ég hef verið að vinna í og svo er margt annað ógert. Þess vegna ákvað ég að gefa kost á mér aftur og sækjast eftir öruggu sæti borgarfulltrúa.
Af hverju ertu jafnaðarmaður?
Ég hugsa að lífsreynsla, umhverfi og uppeldi hafi mest um að það segja. Ég er alinn upp í Breiðholti þar sem ég hafði það alltaf gott – heima, í skólanum og bara almennt í hverfinu. En það var ekki veruleiki allra og óháð búsetu og borgarhlutum eru alltof margir sem alast upp við lélegar aðstæður, bág kjör og foreldra sem ráða ekki við sitt hlutverk og sinna því illa. Ég áttaði mig örugglega betur á þessu þegar ég var orðinn eldri þegar atvik úr hverfinu rifjuðust upp.
Þar fyrir utan liggja rætur mínar meðal jafnaðarmanna. Ég er kominn af verkafólki sem vann í sveit, á heimilum og almennum störfum. Annar afa minna vann í Bretavinnunni svokölluðu á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Pabbi ólst upp í sveit og mamma hér á mölinni í „bæjarblokk“ í Vesturbænum. Það hafði mótandi áhrif á hana. Ekki að alast upp í bæjarblokk heldur stimpilinn sem fylgdi því og ákveðinn útskúfun. Ég þekki það ekki af eigin raun en ég gef mér að það sé ansi þungt fyrir barn að upplifa slíkar aðstæður í samskiptum við önnur börn eða jafnvel fullorðna.
Með nákvæmlega það í huga er gott að rifja upp að það var félagshyggjufólk og jafnaðarmenn í Reykjavíkurlistanum sem byrjuðu að vinna eftir hugmyndinni um félagslega blöndun sem fólst í því að kaupa félagslegar íbúðir í öllum hverfum borgarinnar, fækka slíkum íbúðum í Breiðholti og hætta að eiga heilu blokkirnar eða stigaganga. Út frá beinum rekstri er miklu heppilegra fyrir borgina að eigu heilu húsin en félagsleg fjölbreytni skiptir meira máli og er ákveðið leiðarstef í hússnæðistefnu borgarinnar. Og kostar þegar upp er staðið minna en staða sem getur skapast þegar samsetning hverfa eða fjölbýlishúsa verður einsleit.
Hver verða þín helstu baráttumál í borgarstjórn?
Umfangsmesta verkefnið sem ég hef komið af á kjörtímabilinu er tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar um styttri vinnuviku án launaskerðingar. Ég fer fyrir stýrihópnum sem heldur utan um tilraunaverkefnið en nú er í undirbúningi 2. áfangi verkefnisins sem mun ná til um 100 starfsstaða og 2200 starfsmanna. Um stórt hagsmunamál er að ræða sem sífellt fleiri tengja við enda er stytting vinnuvikunnar mikilvægur þáttur í því að fjölga samverustundum fjölskyldna og auka þannig lífsánægju Reykvíkinga. Slíkar breytingar gerast hins vegar ekki að sjálfu sér og þarf trausta pólitíska forystu til að halda áfram á sömu braut. Ég býð mig fram til að leiða þessa vinnu áfram í Reykjavík.
Ég hef stoltur unnið að mikilvægum framfaramálum með borgarstjórnarflokki Samfylkingarinnar og samstilltum meirihluta undanfarin fjögur ár. Á komandi árum er brýnt að halda áfram á sömu braut, styrkja innviði borgarinnar ennfrekar og forgangsraða í þágu velferðar, fjölskyldna og jafnréttis. Brúa verður bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla og ráðast þarf í stórátak til að fjölga menntuðum leik- og grunnskólakennurum. Leikskólamálin eru mér alltaf ofarlega í huga. Koma verður á fjölskylduvænna samfélagi þar sem foreldrum gefst tækifæri á að njóta meiri tíma með börnum sínum. Stytting vinnuvikunnar skiptir þar lykilmáli.
Halda þarf vel á spöðunum í jafnréttismálum – efla Jafnréttisskóla Reykjavíkur, útrýma kynbundnum launamun og þá er ljóst eftir #metoo byltinguna að borgin má aldrei slá slöku við og fylgja enn betur eftir reglum sem taka á ofbeldi, áreitni og einelti og tryggja að samstarfsaðilar Reykjavíkurborgar; íþróttafélög, skólar eða önnur starfsemi eftir þessum reglum. Borgin verður að leggja sitt af mörkum til þess að þolendur sitji ekki einir uppi skömmina og vanlíðanina sem fylgir rótgrónu kynjakerfinu sem við búum við.
Síðan þarf að halda áfram samvinnu við leigufélög sem starfa án hagnaðarsjónarmið til að koma á virkum leigumarkað sem þjónar þörfum ólíkra hópa – allt frá námsmönnum og ungum barnafjölskyldum til eldri borgara.
Leyndur hæfileiki:
Eitraðar uppgjafir í badminton! Vinahópurinn spilar einu sinni í viku og ég verð skárri með hverju árinu sem líður í þessari skemmtilegu íþrótt.
Fyrirmynd í stjórnmálum:
Engin ein en ég hugsa að ég eigi mér í staðinn margar fyrirmyndir, a.m.k. að hluta. Ég las bókina Löglegt en siðlaust fljótlega upp úr tvítugu og hef alla tíð síðan verið hrifinn af Vilmundi Gylfasyni og þeim á áherslum og breytingum sem hann boðaði. Ég var 12 ára þegar Reykjavíkurlistinn komst til valda undir forystu Ingibjargar Sólrún Gísladóttur. Ég man vel eftir þessum kosningum og gleðinni sem fylgdi úrslitunum á mínu heimili. Ingibjörg Sólrún fór þarna fyrir hópi góðs félagshyggjufólks sem var staðráðið í að gera vel. Ingibjörg Sólrún er konan sem breytti borginni þegar hún fór fyrir þessum hópi og vann að þeim breytingum sem kjósendur kölluðu eftir. Húmor í pólitík skiptir miklu máli og þar skorar Össur Skarphéðinsson hátt. Stríðinn og um leið beittur í gagnrýni sinni en tekur sig að sama skapi ekki of alvarlega. Svona yfirleitt. Það er mikilvægur eiginleiki. Það þarf að vera stutt í hláturinn og gleðina.
Þegar horft er til útlanda er auðvelta að hrífast af góðum ræðumönnum á borð við Bill Clinton og Barack Obama. Hillary Clinton er töffari og það er miklu meira en skandall að hún skuli ekki hafa orðið forseti Bandaríkjanna fyrst kvenna. Síðustu kosningum var í raun stolið frá henni. Svo hef ég lúmskt gaman af gömlu refunum Bernie Sanders og Jeremy Corbyn sem var þvert á allar spár í miklu stuði í síðustu þingkosningum í Bretlandi og var Theresu May afar erfiður. Hann endaði á að stórskaða hana sem er mikið löskuð í dag.
Nærtækara er að horfa til Norðurlandanna þegar kemur að fyrirmyndum. Mér fannst aðdáunarvert að fylgjast með Jens Stoltenberg, þáverandi forsætisráðherra og leiðtoga norskra jafnaðarmanna, takast á við hryðjuverkin í Útey og Osló sumarið 2011. Hann boðaði að hatri skyldi mæta með kærleika. Olaf Palme var með hugmyndafræðina á hreinu og er auðvelt að hrífast af honum fyrir þær sakir. Haustið 2005 sat ég landsfund sænskra jafnaðarmanna. Þar flutti Göran Persson flotta ræða. Hann er vinalegur og traustur og fyrir vikið áhugaverður. Persson sat lengur á stóli formanns en stóð til en almennt var gert ráð fyrir því að Anna Lindh sem var vel liðinn utanríkisráðherra myndi taka við af Persson sem leiðtogi sænska Jafnaðarmannaflokksins. Það breyttist allt haustið 2003 þegar hún var myrt. Ég man að mér þótti ákaflega sorglegt að sjá á eftir henni. Nokkrum mánuðum fyrr hafði ég setið fyrirlestur sem hún flutti í Odda í Háskóla Íslands um alþjóðamál og mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu. Anna Lindh hafði heillandi framkomu og talaði þar af einlægni um stjórnmálin.