Ungar konur og þátttaka í pólitík

Þegar kemur að þátttöku ungra kvenna í stjórnmálum, þá sérstaklega grasrótarstarfinu, tel ég að vandamálið sé ekki að ungar konur skorti áhuga á stjórnmálum...

Þegar hugað er að þátttöku ungra kvenna í stjórnmálum er fyrsta skrefið að líta til þeirra sem þegar eru í stjórnmálum. Það er ómetanlegt að á Íslandi eigum við á að líta fjölbreyttan hóp kvenna til að líta upp til. Sterkar og flottar fyrirmyndir. Forsætisráðherra og forseti Alþingis eru konur, rétt rúm 40% þingmanna eru konur og hlutur kvenna í sveitarstjórnum er álíka.

Samfylkingin er frábært dæmi um þar sem konur hafa náð árangri og er eina ástæðan fyrir því að ég er í Samfylkingunni. Ef það væri ekki þannig, væri ég annað hvort í öðrum flokki, eða engum flokki.

Þegar kemur að þátttöku ungra kvenna í stjórnmálum, þá sérstaklega grasrótarstarfinu, þá eru mun færri konur, sérstaklega ungar konur, sem taka þátt í stjórnmálastarfinu. Ég tel að það sé ekki vegna þess að ungar konur skorti áhuga á stjórnmálum heldur er hluti vandans að þær vita ekki hvernig þær eiga að gerast þátttakendur.

Tilfinningin um stjórnmálastarf sem lokað klíkukennt starf er sterk og það er ekki auðvelt að hætta sér inn á slíkt svæði. Auðvitað á að hvetja ungar konur til að taka þátt í grasrótarstarfinu, mæta á fundi og láta í sér heyra, en það þarf líka að opna starfið betur fyrir ungum konum.

Vandamálið snýst þó ekki eingöngu um að fá ungar konur til að taka þátt, heldur að styðja þær og hvetja eftir að þær gerast þátttakendur. Þá hefst hindrunarhlaupið fyrir alvöru. Vandamálið snýst ekki síður um að halda konum í stjórnmálum, en að fá þær til að taka þátt.

Ímynd stjórnmála er snúið fyrirbæri

Strax eftir hrunið heyrðist hátt í konum. Þessir strákpjakkar búið var að lofa í bak og fyrir síðustu árin komu heilu landi á hliðina. Ekki var að sjá eina konu í öllu þessu havaríi. Ein af ástæðum þess að efnahagur Íslands hrundi er vegna þess að konur voru útilokaðar frá þeim stöðum þar sem peningar, vald og ákvarðanir voru teknar. Það var niðurstaðan. Tími kvenna væri nú komin. Körlum væri ekki einum treystandi.

Það skaut því skökku við að fylgjast með því sem á eftir gekk. Stjórnmálakonur voru hundeltar fyrir styrkjamál og viðskipti eiginmanna. Á sama tíma fengu  karlmenn að sitja nánast óáreittir. Konur sátu undir svörum á meðan karlmenn létu ekki ná í sig. Sótt var persónulega að þessum konum og þær fóru frá á meðan karlmenn sitja enn. Þetta horfum við ungu konurnar á og spyrjum okkur, bíddu, er ég til í þetta? Og hvað þýðir þetta eiginlega?

Þýðir þetta ekki að þegar konur standa sig vel í karlaleiknum og ná að spila leikinn eins og hann er settur upp, þá er þeim refsað sérstakleg harkalega fyrir að ná góðum árangri. Konur mega spila með, þeim má bara ekki ganga of vel. Og ef þeim gengur vel, og gera mistök, þá er fallið hátt og harkalegt.

Prófkjör eru heldur ekki hvetjandi kostur fyrir ungar konur. Tilhneyging er til þess að setja þær í sæti sem erfitt er að verja eða vinna. Er það ekki vegna þess að ungar konur mega frekar missa sín? Að aðrir hafi meiri tilköllunarrétt? Fléttulistar hafa  breytt miklu þar sem þeir hafa fengið brautargengi. En það er sértæk aðgerð sem segir okkur á hvaða karllægu forsendum flokkakerfið byggir.

Fléttulistar hafa verið gagnrýndir enda menn þurft að færa sig niður um sæti fyrir konu. Það hlýtur að vera alveg hræðileg tilfinning. Merkilegt þó að karlmenn hafa fullkominn skilning á kvótakerfi sem slíku, enda myndi suðurkjördæmið aldrei stilla upp þremur frá Selfossi en gæti sætt sig við þrjá karlmenn?

Flokkarnir hafa lokaorðið í frambjóðendavali. Hjá þeim liggur ábyrgðin.

Hvað segir samfélagið við stelpur?

Einhvers staðar á táningsárunum förum við að missa sjálfstraustið. Þá áttum við okkur á þeim takmörkunum sem okkur eru sett og hin hefðbundnu kynjahlutverk fara að láta á sér kræla. Stelpur skulu ekki hafa sig jafn mikið frammi, stelpur skulu bíða eftir að þeim er veitt athygli en ekki vera að trana sér fram og stelpur skulu þetta og stelpur skulu hitt.

Klámvæðingin hefur verið harkalegt bakslag í jafnréttisbaráttunni. Smættun kvenna ekki bara í kjötstykki heldur bókstaflega bútað kjötstykki. Þessi þróun er ekki án afleiðinga fyrir ungar konur og hefur mikil áhrif á hugarlíf kvenna um hlutverk og tilgang í okkar samfélagi. Útlitsdýrkunin og ramminn sem okkur er settur út frá því. Ungar konur í framboði fá spurningar sem snúa að tísku eða snyrtiveskinu frekar en þjóðmálaumræðu. Karlar geta aftur á móti talað um allt er að því virðist.

Það er svo ótrúlega margt sem gefur ungum konum í dag þau skilaboð að við eigum á einn hátt eða annan ekki erindi upp á dekk. Plássið og peningarnir séu strákanna. Það besta sem við getum gert er að ná í góða menntun og ágætt starf, vera sætar og tala um hráfæði. Í þessu umhverfi er auðvitað ótrúlegt hvað íslenskar konur ná langt á öllum sviðum, íþróttum, listum, stjórnmálum. Við erum sterkt kyn. EN – okkur er mismunað á næstum öllum sviðum samfélagsins, konur fá lægri laun, ólaunuð vinna innan heimilis liggur á herðum kvenna, orð okkar hafa minna vægi og framvegis.

Þannig höfum við heldur oft ekki sjálfstraust í að mæta á opna fundi og gaspra um mál, það er strákanna. Námsval, vinnumarkaður og annað starf er enn mjög kynjaskipt. Félagslegt uppeldi veldur því að enn veljum við framtíð okkar byggða á kyni.

Eru kynjakvótar málið?

Sértækar aðgerðir eru mikilvægur þáttur í jafnréttisbaráttu, eins og áðurnefndir fléttulistar, en við verðum að tryggja lögmæti þeirra. Stjórnmálafræðingurinn Anne Phillips nefnir fern rök fyrir kynjakvótum. Þau fyrstu eru að konur í stjórnmálum eru sterkar fyrirmyndir annarra kvenna,  að um sé að ræða sjálfsagt réttlæti milli kynja, að sérhagsmunir kvenna þurfi að eiga ötula talsmenn og að mismunandi sýn kvenna og karla á stjórnmál skipti máli.

Það er þó umræðan í kringum kynjakvóta og aðrar sértækar aðgerðir sem ógnar lögmæti þessara aðgerða í hugum fólks, líka ungra kvenna. Hún er þrautseig sú hugmynd að konur í pólitík eigi að berjast á eigin verðleikum og eigi ekki að fá brautargengi eingöngu vegna þess að þær eru konur.

Það þarf að snúa orðræðunni við og tala um að afnema þurfi karlakvóta.  Ég er með langan lista af óhæfum karlmönnum sem hafa setið eða sitja á þingi og í ráðherrastól sem ekki komust áfram vegna þess að þeir voru eða eru hæfastir heldur vegna kyns síns og tengslanets. Hér er og hefur alltaf verið karlakvóti við lýði. Ungar konur vilja ekki komast áfram á einhverjum sérákvæðum þegar orðræðan í kringum þau er sú að þær séu þá ekki að komast áfram af eigin verðleikum. Sértækar aðgerðir eru mikilvægar en við verðum að breyta umræðunni í kringum þær. Afnemum karlakvótann og setjum á jafnréttiskvóta.

Hvað er málið?

Vandamálið er ekki áhugaleysi ungra kvenna á stjórnmálum heldur í fyrsta lagi að þær vita margar ekki hvernig þær geta komið og orðið þátttakendur. Í öðru lagi að eftir að þær eru orðnar þátttakendur, að yfirstíga allar þær hindranir sem valda því að margar hverfa frá.

Ég get ímyndað mér að reynslumeiri konum finnist ungar konur ekki alltaf sýna þakklæti með því að nýta sér ekki þau tækifæri sem þó bjóðast. En þá komum við aftur að skilaboðunum sem ungum konum eru gefin.  Við vitum þó að jafnrétti hefur ekki náðst vegna góðsemdar karla heldur vegna ára, áratuga og aldalangrar baráttu hugrakkra kvenna. Ég þakka þeim fyrir að berjast gegn straumnum og sýna okkur að við getum verið meira en til skrauts.

Það er ögrandi verkefni að krefjast umbreytinga og endurmats á pólitíkinni en til þess að það gerist þarf aukna þátttöku kvenna í stjórnmálum. Þurfa flokkarnir annars ekki á okkur að halda til að vinna kosningar?

Þessi grein byggir á ræðu sem haldin var á ársþingi kvennahreyfingar Samfylkingarinnar 25. mars – frumútgáfan var þónokkuð lengri en ekki vill höfundur misbjóða netlesendum!

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand