Umsögn Ungra jafnaðarmanna um tillögu að breytingu á viðmiðunarstundaskrá

Umsögn Ungra jafnaðarmanna um tillögu mennta- og menningarmálaráðherra að breytingu á viðmiðunarstundaskrá grunnskóla, mál nr. 160/2020.

Ungir jafnaðarmenn leggjast gegn tillögu mennta- og menningarmálaráðherra um breytingu á viðmiðunarstundaskrá í grunnskóla sem var birt í Samráðsgátt stjórnarráðsins 26. ágúst 2020. Á tímum hnattvæðingar og hraðra breytinga er fjölbreytt, lýðræðislegt og sveigjanlegt skólastarf nauðsynlegt til þess að hægt sé að mæta ólíkum þörfum margbreytilegs nemendahóps og stuðla að virkri þátttöku þeirra í þjóðfélaginu. 

Umrædd tillaga snýr að því að auka vægi íslensku og náttúrufræði í viðmiðunarstundaskrá grunnskóla á kostnað ráðstöfunartíma eða valfaga. Breytingunni er ætlað að sporna gegn slökum árangri nemenda hérlendis í fyrrnefndum fögum í PISA könnun Efnahags- og framfarastofnunarinnar (e. OECD). Tillagan inniheldur þó ekki rökstuðning fyrir því að aukinn tími í íslensku og náttúrufræði muni yfirhöfuð leiða til aukins árangurs í PISA eða, sem mikilvægara er, efla færni nemenda í þessum fögum. Dr. Andreas Schleicher, yfirmaður menntamála hjá OECD og PISA-könnunarinnar, hefur sjálfur bent á að það sé mýta að því meiri tíma sem varið er í lærdóm því betri verði útkoman. Enn fremur hefur Andreas bent á að framtíðin muni snúast um einstaklingsmiðað nám sem byggir á ástríðu og hæfni hvers og eins nemenda. Fjölbreytileiki er lykilorðið og skapa þarf umhverfi þar sem nemendur hafa visst frelsi til þess að efla sína eigin hæfni.

Drög að þingsályktunartillögu um menntastefnu til ársins 2030 voru birt inni á Samráðsgátt vorið 2020 og er þar farið fögrum orðum um sveigjanlegt menntakerfi. Undir meginmarkmiðum stefnunnar kemur fram að allir eigi að fá tækifæri til að þroskast og auka hæfni sína á eigin forsendum. Umrædd tillaga ráðherra gengur því þvert á meginmarkmið stefnunnar þar sem valfög veita einmitt börnum dýrmætt tækifæri til þess að auka hæfni sína á eigin forsendum.

Við undirbúning menntastefnu til ársins 2030 hafði mennta- og menningarmálaráðherra samráð við ýmsa hagaðila innan menntakerfisins og eru áherslur þeirra dregnar saman í skýrslunni „Menntun til framtíðar: Aðgerðir og viðbrögð í kjölfar fundaraðar um menntun fyrir alla og mótun menntastefnu til 2030“. Í skýrslunni er lögð áhersla á að mæta fjölbreyttum þörfum nemenda. Meðal annars með því að auka fölbreytni og sveigjanleika í náms- og kennsluháttum og bjóða nemendum í grunn- og framhaldsskólum aukið val um námsgreinar og námsleiðir. Tillaga mennta- og menningarmálaráðherra um breytingu á viðmiðunarstundaskrá í grunnskóla styður ekki við fyrrnefndar áherslur. Ekki er hægt að stæra sig af góðu samráði og aðkomu fjölmargra aðila úr skólasamfélaginu við gerð menntastefnu ef áherslur þeirra endurspeglast ekki í tillögunum sem fylgja.

Áherslur og markmið skólakerfisins mega ekki snúast um kunnáttu og frammistöðu einstaklinga á þeim þröngt afmörkuðum sviðum náms sem PISA mælir. Með því einfaldast skilningur okkar á eðli og flóknum tilgangi menntunar, en ekki síst hvaða þekking og menntum við sem samfélag teljum vera mikils virði. Það er hlutverk skólans að laða fram það besta í hverju og einu okkar, og efla þá fjölbreyttu eiginleika sem gerir einstaklingum betur kleift að bæta samfélagið. Í því ljósi er mikilvægt að ígrunda hvort að með þessari tillögu sé öllum gefin raunverulega jöfn tækifæri til þess að skara fram úr í skóla eða bara þeim sem vegnar vel innan þeirra afmörkuðu námsgreina sem tillagan beinir athygli að.  

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand