Umræðan útskrifuð – næsta stig

Um helgina var haldinn flokksstjórnarfundur hjá Samfylkingunni. Arndís Anna var á staðnum og velti byggðarmálum fyrir sér í kjölfarið.


Um helgina var sem kunnugt er flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar, og var hann haldinn á hótel Sögu. Byrjaði fundurinn með framsögu formanns Samfylkingarinnar, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og í kjölfarið fóru fulltrúar kjördæmanna allra yfir úrslit kosninga og önnur mál.

Eftir framsögurnar var nokkur tími gefinn til umræðna. Orð Kristjáns Möller á fundinum vöktu mig til umhugsunar, og urðu þau kveikjan að þessari grein. Í sambandi við afstöðu Samfylkingarinnar gagnvart stóriðjustefnu stjórnvalda, sem einhverjir framsögumanna höfðu ljáð máls á, byrjaði Kristján á því að lýsa því yfir að hann gæti einfaldlega ekki verið andvígur álverum og virkjunum fyrir norðan. Það álit hans var svosum ekkert nýtt fyrir mér. Því bætti hann hinsvegar við að hugsanlega gæti afstaða hans breyst ef til þess kæmi að ríkisstjórnin setti einhvertíma almennilega stefnu í byggðamálum, eða aðrar lausnir yrðu lagðar til, til eflingar landsbyggðarinnar.

Þessi orð Kristjáns vöktu mig til umhugsunar um það að kannski er kominn tími til þess að ljúka þrætum um umhverfissjónarmið í sambandi við virkjanir og um það hvort þjóðin vilji fleiri álver eða ekki. Sú umræða hefur nú gengið í mörg ár og ætti það að vera orðið ljóst að nokkur andstaða er við stóriðjustefnu stjórnvalda og að fyrir þeirri andstöðu eru ansi sterk rök. Fyrir virkjunum og álverum eru auðvitað einnig rök, enda eru virkjanasinnar margir hverjir, líkt og Kristján, þeir sem áhyggjur hafa af stöðu landsbyggðarinnar og síauknum brottflutningi fólks þaðan. Sem andstæðingur virkjana „í kippum“ (en ekki endilega í „prinsippinu“), svo ég taki mér í munn skemmtileg orð Dofra Hermannssonar á fundinum, las ég úr orðum Kristjáns ákall á aðrar lausnir á landsbyggðarvandanum svokallaða, hinum síaukna fólksflutningi til höfuðborgarinnar.

Þó ekki yrði það lesið úr ræðu Kristjáns, þá má svipað segja um umræðuna um Vatnsmýrina í Reykjavík og blessaðan Reykjavíkurflugvöllinn. Rökræðan um það hvort hann skuli fara eða vera hefur farið nógu lengi fram til þess að minnka þann hóp sem berst gegn færslu Reykjavíkurflugvallar niður í hálfgeran minnihlutahóp. Að nokkru leyti er þar sami hópur á ferð og sá sem hlynntur er virkjanaæðinu, fólk sem hefur mestar áhyggjur af stöðu landsbyggðarinnar. Held ég því reyndar fram að það sé fyrir nokkru síðan kominn tími á að færa þá umræðu upp á næsta plan, sem er að ræða þau vandamál sem hugsanlega geta skapast við það að innanlandsflugið flytjist til Keflavíkur, samgöngulausnir, eflingu heilsugæslu úti á landi og almennt um byggðamál.

Þegar ég hlustaði á ræðu Kristjáns áttaði ég mig á því að þessi tvö stóru mál sem mikið hafa brunnið á landanum síðustu árin eru í raun ekkert annað en byggðamál og tími til kominn fyrir báðar umræðurnar að færast áfram, úr því að vera karp um andstæða hagsmuni sem í raun eru á engan hátt andstæðir, í átt að lausn á hinu raunverulega vandamáli sem umræðuna skapaði í upphafi.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand