Ég er í framboði vegna þess að mér þykir vænt um bæinn minn og vil sjá breyttar áherslur í stjórnun og stefnu bæjarfélagsins. Sem 28 ára fjölskyldumaður þekki ég af eigin raun hvernig búið er að barnafólki í Kópavogi og hef ríkan skilning á þörfum, áhyggjum og reynsluheimi þeirra sem eru að kaupa sína fyrstu fasteign, stofna fjölskyldu og koma sér fyrir í lífinu. Ég mun því beita mér fyrir félagslegum áherslum í stjórnun bæjarins. Það var áhugaverð yfirlýsing Halldórs Ásgrímssonar þann 9. febrúar síðastliðinn þar sem hann spáði að Ísland yrði gengið í ESB fyrir 2015. Hann bendir hins vegar á að engar pólitískar forsendur séu fyrir því að Ísland gangi í ESB fyrir þann tíma þar sem umræðan um Evrópumál sé ekki nægjanlega þroskuð hér á landi.
Þar held ég að Halldór hafi haft rétt fyrir sér. Umræðan um Evrópumál hér á landi hefur lengi verið lítil og oft byggð á þreytandi orðræðu er byggist á veikum grunni. Á það bæði við um stuðningsmenn Evrópusamrunans sem og andstæðinga. Það er virkilega mikilvægt að hér á landi fari fram heilbrigð og málefnaleg umræða um Evrópumál þar sem almenningi gefst tækifæri til að mynda sér skoðanir um framtíð Íslands í evrópsku samstarfi.
Hvert stefnir?
Vitund almennings á Evrópusambandinu hér á landi er lítil líkt og í öðrum ríkjum Evrópu, einfaldlega sökum þess að hér hefur umræðan verið takmörkuð og oft á tíðum á mjög lágu plani. Einungis hafa tveir stjórnmálaflokkar, Samfylking og Framsókn, rætt Evrópumál að einhverju marki, en þó verður að segja að aldrei hafi umræðan farið á flug og náð til almennings. Vinstri Grænir og Sjálfstæðisflokkurinn hafa lýst yfir andstöðu við inngöngu í Evrópusambandið og hafa flokkarnir þar af leiðandi ekki haldið uppi virkri umræðu um Evrópumál. Frjálslyndir hafa einnig lýst sig andvíga inngöngu í Evrópusambandið enda segir í stefnu flokksins í utanríkismálum; Aðild að Evrópusambandinu kemur ekki til greina á meðan reglur bandalagsins eru óbreyttar í fiskveiðimálum.
Er þetta skynsamleg stefna? Á hvaða upplýsingum byggir flokkurinn þessa stefnu? Hefur farið fram það málefnaleg umræða hér á landi að mögulegt sé að draga slíkar ályktanir? Hafa Íslendingar farið út í aðildarviðræður við ESB til þess að kanna samningsstöðu okkar?
Telja verður ólíklegt að Evrópumál og hugsanleg innganga í ESB verði kosningamál í næstu þingkosningum hér á landi og jafnvel ekki fyrr en 2015 en um það er þó of snemmt að spá.
Nauðsynleg umræða
Það er nauðsynlegt að stjórnmálaflokkar, líkt og aðilar í atvinnulífinu fari að taka Evrópuumræðuna upp opinberlega og fari að ræða Evrópumálin á málefnalegan hátt. Það er alveg ljóst að bæði kostir og gallar fylgja aðild að Evrópusambandinu og verður fólk að vera nægjanlega þroskað til þess að ræða hvort tveggja, hvort sem þeir eru hlynntir aðild að ESB eða ekki. Það má vel vera að einhverjum stjórnmálaflokkum muni finnast umræðan óþægileg en ljóst er að umræðan um Evrópumál verður ekki umflúin í nánustu framtíð.
Einnig má skoða þátt fjölmiðla í þessu samhengi en fjölmiðlar hafa sýnt Evrópumálum mjög takmarkaðan áhuga og ekki þrýst á neina umræðu um þau mál. Það er helst að eitthvað sé birt um málefni ESB í aðsendum greinum áhugamanna um Evrópumál. Óhætt er að segja að virkasta umræðan um Evrópumál fari fram á Netmiðlum eins og heimasíðum ungliðahreyfinga stjórnmálaflokkanna og samtaka um Evrópumál. Má í því samhengi nefna framlag Evrópusamtakanna og Heimssýnar til umræðu um Evrópumál en hvort sem menn eru hlynntir eða andvígir Evrópusamrunanum þá ber að fagna allri umræðu svo lengi sem hún er málefnaleg.
Og ekki orð meir
Ekki hef ég heyrt Halldór eða Framsóknarflokkinn minnast orði meir á Evrópumál eftir að Halldór lét þessi orð falla. Reyndar tel ég líklegast að þau hafi einungis verið látin falla til þess að draga athygli frá prófkjöri Samfylkingarinnar sem haldið var tveimur dögum síðar. Skyldi þó ekki vera að hugmyndin af þessari yfirlýsingu væri komin frá Birni Inga aðstoðarmanni forsætisráðherra og frambjóðenda Framsóknarflokksins í Reykjavík? Allavega er ljóst að Halldór hefur lært eitthvað af forvera sínum Davíði Oddssyni sem var duglegur að koma fram með háværar yfirlýsingar þegar athygli fjölmiðla beindist að pólitískum andstæðingum.
Er það von mín að umræðan um Evrópumál fari nú að vera háværari og á hærra plani en verið hefur í þjóðfélaginu. Tel ég mikilvægt að stjórnmálaflokkarnir taki nú af skarið og hafi kjark til þess að vagga bátnum og komi nú af stað opinskárri umræðu um Evrópumál sem ekki verður komist hjá síðar meir. Því fyrr, því betra.