Síðbúin jólahugvekja

Það er til skammar að velmegunarríkið skuli ekki tíma að verja meira fé en þessu til hjálpar fátækum og vanþróuðum ríkjum. Fátækt þeirra er ekki þeirra einkamál, heldur er það siðferðisleg skylda allra þjóða heimsins að vinna saman að því að útrýma henni og rétta bágstöddum þjóðum hjálparhönd. Nú er jólahátíðin að verða um garð gengin í sinni eiginlegu merkingu. Eftir situr maður saddur og sæll en þó í hálfgerðu móki yfir öllu havaríinu í kringum hátíðarnar. Auglýsingaflóðið og stressið fyrir jólin minnir mig svolítið á óveður sem stigmagnast og hvín út um útvarps- og sjónvarpstækin en skyndilega gengur veðrið niður og komið er blankalogn. Þannig er a.m.k. mín tilfinning á aðfangadagskvöld. Engar auglýsingar, engin jólatilboð, bara kyrrð og ró.

Ekki er ólíklegt að við Íslendingar höfum sett enn eitt neyslumetið um þessi jól og mega kaupmenn án efa vel við una. Nóg verður líklega að gera í verslunum næstu daga við að taka á móti vörum til skipta auk þess sem sorpflokkunarstöðvar munu eflaust drukkna í krumpuðum jólapappír ásamt því að hafa nóg að gera við að pressa umbúðir undan plasmaskjám, digital myndavélum, mp3 spilurum, ipod-um, örbylgjuofnum og guð má vita hverju. A.m.k. telur undirritaður að umbúðaflóðið frá hans fjölskyldu eftir þessi jól fari langt í að kosta tvær bílferðir á hauganna. Margir sjá auðvitað stóran kost við þetta þar sem menn geta loksins nýtt 7 metra löngu pallbílana sína og þannig sloppið jafnvel með eina jólapappírs- og umbúðaferð í Sorpu.

Neyslugleðin sem fylgir jólunum kemur misvel eða illa niður á fólki. Sumir halda sér innan fjárhagsrammans, aðrir hafa mjög rúman fjárhagsramma, sumir vita ekkert hvað fjárhagsrammi er. Svo eru þeir einnig fjölmargir sem einfaldlega geta ekki tekið þátt í leiknum sökum fátæktar og sitja oft eftir með sárt ennið. En sem betur fer höfum við ekki gleymt náunganum og hlýnaði manni mikið að sjá hversu margir voru tilbúnir að gefa af sér fyrir jólin í formi jólapakka eða matargjafa. Mæðrastyrksnefnd á auðvitað mestu þakkirnar skilið fyrir að beina kastljósinu að hinum veiku blettum samfélagsins og jafnframt að virkja okkur sem höfum vel í okkur og á í að hjálpa þeim sem minna hafa. Það er víst hinn sanni andi jólanna og meðan hann gleymist ekki erum við í góðum málum.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand