Um breytingar á stjórnarskrá

Nú er orðið ljóst að endurskoða á ýmis ákvæði stjórnarskrárinnar. Þó að það sé eðlilegt að endurskoða stjórnarskrána reglulega hlýtur að teljast óeðlilegt að gera það undir því yfirvarpi að skýra þurfi 26. gr. hennar. Sú stjórnlagakreppa sem upp kom í kjölfar þess að forseti lýðveldisins synjaði lögum undirritunar er að öllu leyti búin til af stjórnarflokkunum sem notuðu einkennileg rök um að ákvæðið væri óskýrt til að víkjast undan stjórnarskrárbundinni skyldu til þess að halda þjóðaratkvæðagreiðslu. Erfitt er að sjá hvers vegna þeir töldu svona erfitt að átta sig á innihaldi ákvæðisins þar sem orðalag þess gæti varla verið skýrara og það segir segir allt sem segja þarf; forsetinn þarf að staðfesta lagafrumvörp sem þingið hefur staðfest innan tveggja vikna og það er staðfestingin sem veitir ákvæðinu lagagildi. Ef forsetinn synjar skal halda þjóðaratkvæðagreiðslu eins fljótt og kostur er og ef þjóðin samþykkir lögin ekki þá falla þau úr gildi. Einfalt hefði verið fyrir Alþingi að setja nánari ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðsluna í almennum lögum, líkt og gert hefur verið um ýmis önnur atriði sem stjórnarskráin kveður á um.

Velta má fyrir sér hvernig á að breyta 26. gr., til dæmis hvort færa eigi það vald sem forsetanum er fengið með ákvæðinu til þingsins, þannig að ákveðið hlutfall þingmanna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu, líkt og kveðið er á um í dönsku stjórnarskránni. Ég óttast þó að breytingin verði ekki með þeim hætti heldur verði ákvæðið einfaldlega fellt úr gildi þar sem Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki sætt sig við annað lýðræði en fulltrúalýðræði og getur ekki sætt sig við það að sú staða geti komið upp að þjóðin hafi vald til þess að fella úr gildi það sem hann hefur ákveðið.

Í 79. gr. stjórnarskrárinnar er fjallað um hvernig má breyta henni eða auka við hana. Það er gert með þeim hætti að Alþingi samþykkir tillögur þess efnis og svo er þing rofið og kosið til Alþingis. Hið nýkjörna Alþingi þarf síðan að samþykkja ályktunina óbreytta og telst hún gild stjórnskipunarlög eftir að forseti hefur samþykkt hana. Telja verður eðlilegra í alla staði að þjóðin þurfi að samþykkja breytingar á stjórnarskrá með sama hætti og í mörgum öðrum ríkjum. Slíkt myndi ekki hafa í för með sér mikinn kostnað fyrir þjóðina þar sem hægt væri að kjósa um breytingarnar samhliða kosningunum til Alþingis. Þetta myndi einnig tryggja að stjórnarskrárbreytingar fengju nægilega umræðu í þjóðfélaginu. Fyrirkomulagið, eins og það er nú, tryggir ekki umræðu af því tagi því fyrir Alþingiskosningar er fyrst og fremst fjallað um störf og stefnu þeirra flokka sem eru í framboði, eins og eðlilegt er. Stjórnarskráin er grundvöllur þess samfélags sem við búum í og mikilvægt að vandað sé til verka þegar henni er breytt og að almenn sátt ríki í samfélaginu um innihald hennar. Þess vegna er nauðsynlegt að stjórnarskránni sé ekki breytt nema borgurunum sé fullkunnugt um í hverju breytingarnar felast og sætti sig við þær. Hafa verður í huga að stuðningur við stefnu stjórnmálaflokks merkir alls ekki að kjósandinn sé sáttur við allar athafnir viðkomandi flokks. Miklu skiptir að gefa hverjum og einum færi á að kjósa flokk án þess að leggja um leið blessun sína yfir breytingar á stjórnarskrá sem þeir eru ósáttir við.

Stjórnarskráin á að vera hafin yfir pólitískar deilur hversdagsins. Ég óttast að fyrirhugaðar breytingar séu hluti af einkastríði forsætisráðherra og forseta og vítavert ef stjórnarskránni og stjórnskipan landsins er blandað inn í þvílík mál. Til að koma í veg fyrir slíka stöðu verður að leyfa þjóðinni að kjósa beint um breytingar á stjórnarskrá.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand