UJR, ungliðahreyfing Samfylkingarinnar í Reykjavík, mótmælir harðlega öllum hugmyndum um að innheimt verði skólagjöld fyrir meistaranám í viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands og telur að þau ógni jafnrétti til náms og verði mikil fjárhagsleg byrði fyrir ungt fólk.
Sættum okkur aldrei við skólagjöld
Á meðan fjársvelti Háskóla Íslands er eins raun ber vitni er skiljanlegt að deildir Háskólans leiti allra leiða til að styrkja fjárhag sinn. Ungt samfylkingarfólk í Reykjavík telur aftur á móti fráleitt að leysa vanda Háskólans með því að taka upp skólagjöld. Breytir þá engu þótt aðeins sé ætlunin að taka upp skólagjöld á meistarastigi, en ekki í grunnnámi. Hætt er við að upptaka skólagjalda í Háskóla Íslands væri aðeins þróun í átt til frekari gjaldtöku fyrir nám við skólann.
Skila litlu en skemma mikið
Ungt samfylkingarfólk í Reykjavík minnir á að öll skólagjöld í framhaldsskólum og Háskóla Íslands skila aðeins rúmum 300 milljónum króna í ríkissjóð á ári hverju, sem er rúmlega 0,1% af tekjum ríkissjóðs. Jafnvel þótt skólagjöldin í Háskóla Íslands yrðu fjórfölduð myndu skólagjöld á framhalds- og háskólastigi aðeins skila ríkissjóði um 800 milljónum króna á ári.
Mörgu lofað en jafnrétti til náms fórnað
Stjórnarflokkarnir boðuðu mikil útgjöld í kosningabaráttunni. Ungu samfylkingarfólki í Reykjavík þætti því undarlegt ef ekki finnst fé til að tryggja rekstargrundvöll Háskólans svo að hann þurfi ekki að senda nemendum gíróseðla til að geta boðið gott nám.
Ályktun stjórnar UJR, ungliðahreyfingar Samfylkingarinnar í Reykjavík