UJK á fullri ferð

Ungir jafnaðarmenn í Kópavogi
UJK hafa frá stofnun beitt sér fyrir málefnum ungs fólks í sveitarfélaginu og umbótum í nærþjónustu. Hreyfingin hefur talað fyrir lýðræðislegri og manneskjulegri stjórnunarháttum, þar sem hlustað er á rödd íbúa og tekið mið af hagsmunum þeirra í framkvæmdum og skipulagi bæjarfélagsins. Þarfir barnafólks Í vetur hefur UJK varpað ljósi á ástandið sem hefur skapast í dagvistunarmálum bæjarins. Nýlega sendi stjórn UJK frá sér mjög harðorða ályktun þar sem lýst var undrun yfir sinnuleysi bæjaryfirvalda og skorað á þau að bæta ráð sitt. Það er ólíðandi að daglegt líf barnafólks raskist á hverju hausti með tilheyrandi launamissi fyrir foreldra og rótleysi í lífi barnanna. Atvinnuveitendur gjalda líka fyrir ástandið sem og samfélagið í heild. UJK vill að bæjaryfirvöld hætti þessum eilífu sýndarlausnum og plástraaðgerðum. Hér þarf raunhæfar langtímalausnir, hættum að tjalda til einnar nætur. UJK vill hampa þeim sem annast börnin okkar og bjóða þeim mannsæmandi laun og starfsskilyrði.

Nýja framhaldsskóla
Það er víðar pottur brotinn í bæjarfélaginu okkar. UJK hefur talað fyrir því á undanförnum árum að það vanti nýjan framhaldsskóla í bæinn. Það hefur verið ömurlegt að horfa upp á aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar og bæjaryfirvalda í málefnum úthýstra framhaldsskólanema. Brottfall úr námi er talsvert hærra hér á landi en á hinum Norðurlöndunum. Þeir sem hrekjast úr námi og vilja taka þráðinn upp að nýju mæta luktum dyrum og skilningsleysi. Og þegar 40.000 vinnandi Íslendingar eru einungis með grunnskólapróf að mennt, eða jafnvel minna, er mikilvægt að greitt sé um götu þeirra sem vilja hefja nám að nýju. UJK vill, líkt og þingflokkur Samfylkingarinnar, að stofnaðir verði fjöltækniskólar, þar sem hlúð er að þörfum hins vinnandi Íslendings og honum gefinn kostur á að sækja sér framhaldsskólamenntun og aðra sambærilega menntun í sinni heimabyggð. Við viljum að bæjaryfirvöld í Kópavogi beiti sér fyrir stofnun slíks skóla hér í bæ.

Okkar minnsti bróðir
Það er kominn tími til að gefa gaum að okkar minnsta bróðir í samfélaginu. Nýlegar tölur í könnun OECD sýna að misskipting tekna á Íslandi er mest allra Norðurlandaþjóða og vex hvað hraðast í hinum vestræna heimi. OECD spáir því að m.v. núverandi þróun verði misskipting á Íslandi orðin svipuð og í Bandaríkjunum innan 10 ára, þar sem hún er mest innan OECD. Það er afskaplega sorglegt að rýna í þessar tölur. Á sama tíma og við eigum að vera að upplifa mesta hagsældarskeið í sögu þjóðarinnar eru sífellt fleiri og fleiri skildir eftir í samfélaginu. Hér þarf hugarfarsbreytingu og breyttar áherslur í stjórnun. Stjórnmál snúast um forgangsröðun, og hjá meirihlutanum í Kópavogi er sú forgangsröðun einfaldlega röng að okkar mati.

Bættur vefur bæjarfélagsins
Að lokum er rétt að vekja athygli á nýlega samþykktri ályktun UJK þar sem skorað er á bæjaryfirvöld að bæta vef sveitarfélagsins kopavogur.is með því að taka upp gagnvirkt þjónustukerfi, líkt og gert er á vef Reykjavíkurborgar (Rafræn Reykjavík) og í Garðabæ (Minn Garðabær). Með slíkum kerfum er bæjarbúum auðvelduð samskipti við stjórnsýslu sveitarfélagsins. Á vefjum nágrannasveitarfélaganna er hægt að senda inn umsóknir, erindi og eiga samskipti við bæjarfélagið, skólana og aðra nærþjónustu á hvaða tíma sólarhringsins sem er. Kópavogur á að vera metnaðarfullur og framsækinn í þessum efnum en ekki eftirbátur nágranna sinna. Starfið í vetur Starf UJK er komið á fulla ferð. Mikill hugur er innan stjórnar enda verkefnin ærin og brýn. Rödd ungs fólks má ekki kafna í hjali um óperuhallir og malbik. UJK funda að jafnaði fyrsta og þriðja mánudag í hverjum mánuði kl. 19.30 – eða klukkutíma á undan opnum fundum Samfylkingarfélagsins í Kópavogi. Við tökum nýliðum og öllum sem vilja kynna sér starf okkar opnum örmum.

Greinin birtist áður Kópavogi, málgagni Samfylkingarinnar í Kópavogi

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand