Á hælunum vegna fangaflugs

Það er alveg stórmerkilegt hvernig mótun utanríkisstefnu Íslands virðist ganga fyrir sig. Öll okkar utanríkisstefna virðist byggja á því að halda ráðamönnum í Washington góðum í von um að þeir hverfi nú ekki á brott af Suðurnesjunum. Þannig höfðum við ekki dug til að fylgja alþjóðalögum í aðdraganda Íraksstríðsins, við létum fara lítið fyrir okkur í Abu Grahib hneykslinu og nú síðast virðast ráðamenn engan áhuga hafa fyrir því að komast til botns í fangaflugsmálinu svokallaða.

Hvað veldur þessu dugleysi?
Ekki meta menn hlutina svo að vera varnarstöðvarinnar sé mikilvægari en sú skylda að framfylgja alþjóðalögum og sáttmálum líkt og Genfarsáttmálanum? Það er alveg sama hvernig litið er á þá misnotkun sem fór fram í Abu Grahib. Það er alveg sama hvernig Bush og Cheney reyna að sannfæra alþjóð um að fangar í stríðinu gegn hryðjuverkum séu í reynd ekki stríðsfangar, heldur eitthvað allt annað og þar af leiðandi falli þeir ekki undir Genfarsáttmálann. Misnotkunin og pyntingarnar í Abu Grahib eru mannréttindabrot og brot á alþjóðalögum. Ég tel að mjög fáir séu ósammála því.

Í ljósi þessa fordæmis fyrir mannréttindabrotum Bandaríkjamanna, þessum sönnuðu atvikum á misnotkun og pyntingum á föngum, hversu mikið þarf þá að gerast til þess að hægt sé að fara í að rannsaka af fullum krafti þessar millilendingar flugvéla á vegum einhverra gervifyrirtækja sem eru í eigu CIA? Munu Íslendingar ekkert rannsaka þessi mál fyrr en Bandaríkjamenn viðurkenna sekt sína og búið er að staðfesta þessi mannréttindabrot? Gera ekkert nema senda fyrirspurn, svona til að sjá hvort þeir játi nú ekki og málið leysi sig sjálft. Hljómar þetta ekki dálítið skrítið? Ímyndum okkur að lögreglan myndi haga sér svona, að neita að rannsaka mál almennilega nema að játning grunaðra liggi fyrir. Hvað myndi verða um réttarkerfið? Allir myndu komast upp með allt bara með því að neita og neita.

Flestir eru á tánum…
Ráðamönnum á Íslandi er svo annt um varnarstöðina á Miðnesheiði að öll okkar stefna virðist byggja á viðleitni til að styggja ekki viðsemjendur okkar vestan hafs. Það virðist vera eina ástæðan sem að hægt er að benda á til að útskýra þetta áhugaleysi ráðamanna. Ég persónulega trúi því ekki að íslenskir ráðamenn styðji mannréttindabrot líkt og voru framin í Abu Grahib og verið er að fremja, ef að verið er að flytja fanga til staða þar sem hægt er að pynta þá. Íslendingar virða mannréttindi, en ráðamönnum virðist vera meira annt um varnarstöðina. Það er nánast augljóst. Um alla Evrópu eru menn á tánum vegna þessara mála; á Íslandi eru menn hins vegar á hælunum!

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand