Almenningur og ESB

Frá árinu 1973 hefur ESB gert reglulegar skoðanakannanir meðal íbúa aðildarríkjanna. Kannanirnar ná yfir helstu þætti er snerta daglegt líf fólks eins og til dæmis félagsmál, heilbrigðismál, umhverfismál og menningu. Tilgangur þessara kannana er meðal annars að auðvelda ákvarðanatökur innan Evrópusambandsins, stuðla að aukinni framþróun sambandsins og síðast en ekki síst að efla Evrópuvitund almennings í þeim tilgangi að færa almenning nær sambandinu.

Evrópuvitundin
Til ársins 1992 voru gerðar ýmsar tilraunir til þess að efla Evrópuvitund almennings. Vald Evrópuþingsins var aukið upp úr 1975 og fjórum árum síðar fékk almenningur að kjósa til þingsins í fyrsta skipti en kosningaþátttakan var töluvert minni en vonir voru bundnar við eða um 62,5%. Árið 1984 var haldinn fundur leiðtogaráðsins í Fontainebleau. Markmið fundarins var einfalt, að vekja áhuga almennings á ESB.

Í kjölfarið var svokölluð Adonnino-nefnd skipuð undir stjórn fyrrum Evrópuþingmannsins Pietro Adonnino. Þær tillögur sem nefndin stakk upp á til þess að auka Evrópuvitund voru frjálst flæði fólks yfir landamæri og samstarf milli háskóla um nemenda- og kennaraskipti. Samt sem áður var aðaláhersla nefndarinnar á sameiginleg evrópsk tákn og voru eftirtalin tákn tekin upp: Fáni Evrópusambandsins, einkennislag (Ode to the joy), Evrópudagurinn, evrópsk vegabréf og frímerki.

Með Maastricht-sáttmálanum má segja að ESB hafi markvisst farið að dýpka Evrópusamstarfið með að efla pólitískt og félagslegt samstarf. Eitt það markverðasta sem kom fram í Maastricht-sáttmálanum var að kveðið var á um að ESB skyldi taka tillit til menningarlegra sjónarmiða í öllum aðgerðum sínum í þeim tilgangi að virða menningu annarra og koma á framfæri eigin menningu. Frá því að Maastricht-sáttmálinn tók gildi hefur samstarf aðildarríkjanna dýpkað á sviði menningar og lista. Evrópusambandið hefur stóraukið útgjöld sín til menningarmála í gegnum menningaráætlun sambandsins er nefnist Menning 2000. Einnig hefur Evrópusambandið styrkt og staðið fyrir fjölþættum samvinnuverkefnum á vegum aðildarríkjanna.

Í kjölfar átaks í menningarmálum var einnig gert átak í menntamálum innan ESB og í málefnum ungs fólks í þeim tilgangi að auka Evrópuvitund þess. Kunnuglegustu áætlanir ESB á þeim vettvangi eru Leonardo- og Sókratesáætlunin, er svokölluð Erasmusáætlun fellur undir. Talið er að rúmlega ein milljón nemenda víðsvegar frá Evrópu hafi nýtt þá möguleika sem Erasmus hefur uppá að bjóða og rúmlega 2200 háskólar taki virkan þátt í samstarfinu.

Hver er ávinningurinn?
En hefur Evrópuvitund íbúa aðildarríkjanna aukist síðastliðin 30 ár eða 15 ár? Líta íbúar aðildarríkjanna frekar á sig sem Evrópubúa í dag en þeir gerðu áður?

Í júlí síðastliðnum birti ESB skoðanakönnun sem Eurobarometer framkvæmdi meðal allra aðildarríkja sambandsins og lýsir viðhorfi almennings gagnvart sambandinu. Ætla ég að nefna nokkrar áhugaverðar tölur úr könnuninni. Þessar tölur sem nefndar eru ber þó að taka með fyrirvara enda um sex mánuðir síðan að könnunin var framkvæmd.

• Meirihluti íbúa aðildarríkja ESB telur að þjóð sín hafi hagnast á aðild að sambandinu eða 55% á móti 33% sem telur að þjóð sín hafi ekki hagnast á aðild.

• Ímynd ESB er almennt jákvæð meðal íbúa aðildarríkjanna en 47% íbúa hafa jákvæða afstöðu gagnvart ESB á móti 32% sem hafa neikvæða ímynd á sambandinu.

• Stór meirihluti almennings er fylgjandi stjórnarskrá Evrópu sem var eftirminnilega felld í Frakklandi og Hollandi fyrr á þessu ári. Stuðningur við stjórnarskrána er 61% á móti 23%.

Þessar ofangreindar niðurstöður eru vissulega jákvæðar fyrir Evrópusambandið en hins vegar virðist sem sambandið eigi enn í erfiðleikum með að ná til almennings ef marka má niðurstöðurnar sem birtar eru hér að neðan.

• 53% íbúa telur að rödd þeirra heyrist ekki innan Evrópusambandsins á móti 38%.

• 70% almennings telur sig hafa litla sem enga þekkingu á Evrópusambandinu.

• 45% líta ekki á sig sem Evrópubúa og horfa einungis til þjóðernis. Þjóðernisvitund almennings er sterkust á Norðurlöndum og í Bretlandi. Árið 1992 eða um það leyti og Maastrich-sáttmálinn var undirritaður litu 40% ekki á sig sem Evrópubúa.

Önnur vísbending sem virðist benda til þess að almenningur virðist ekki hafa mikinn áhuga á ESB er að kosningaþátttaka til Evrópuþingsins hefur farið dvínandi en í fyrra var hún um 45% samanborið við 62,5% árið 1979.

Hvað kemur til?
Það er engin ein skýring á því hvers vegna Evrópusambandinu hefur gengið svo erfiðlega vekja áhuga almennings. Hugsanlegar ástæður gætu legið í að Evrópusamruninn hefur verið knúinn áfram af pólítískri elítu, íbúar eru lítið meðvitaðir um ESB eða jafnvel að útvíkkun sambandsins hafi komið niður á dýpkun þess.

Þess ber þó að geta að Evrópusambandið er ungt í sögulegu samhengi og á sér ekkert sambærilegt fyrirbæri. Því má ætla að það geti tekið langan tíma að efla Evrópuvitund fólks. Líklegt er að menntaáætlun og ungmennaáætlun Evrópusambandsins eigi eftir að efla þá tilfinningu fólks að tilheyra Evrópu í framtíðinni þar sem að ungmenni víðsvegar úr Evrópu fá tækifæri til þess að kynnast nýrri menningu og læra ný tungumál. Kannanir sem gerðar hafa verið sýna að ungt fólk er jákvæðara gagnvart ESB og lítur frekar á sig sem Evrópubúa heldur en eldri kynslóðir. Það verður áhugavert að sjá hvort að komandi kynslóðir muni koma til með að vera virkari þátttakendur í Evrópusamstarfinu og láta sig meir um málefni ESB varða en þær kynslóðir sem nú ráðandi.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand