UJ varðandi SPRON

Ungir jafnaðarmenn hafa nú sent frá sér sínu fjórðu ályktun um málefni stofnfjáreigenda SPRON þar sem beðið er um forsendur fyrir vali á stofnfjáreigendum í SPRON. Fyrri ályktanir UJ um málið er einnig hægt að nálgast hér. Birt 02.01
Ungir jafnaðarmenn biðja SPRON um forsendur fyrir vali á stofnfjáreigendum

Ungir jafnaðarmenn, ungliðahreyfing Samfylkingarinnar, hafa óskað eftir því við SPRON að sparisjóðurinn birti forsendur þess hvernig valið var inn í lokaðan hóp stofnfjáreigenda síðastliðin 10 ár. Komið hefur fram að ólíkar forsendur virðast liggja að baki því af hverju mönnum var boðið að gerast stofnfjáreigendur. Einnig hefur komið fram að fjölgað hafi verið í hópi stofnfjáreigenda um 200 manns á ári frá árinu 1996 til ársins 1999.

Ungir jafnaðarmenn telja að aðeins með því að birta sundurliðaðan rökstuðning fyrir inntöku hvers og eins stofnfjáreiganda geti stjórn SPRON eytt þeim vafa sem upp er kominn um hvort staðið hafi verið að valinu með eðlilegum hætti. Ungir jafnaðarmenn hafa beðið SPRON um að listinn verði þannig úr garði gerður að á honum komi fram nafn stofnfjáreiganda, hvenær honum hafi verið boðið stofnféð til kaups, hvort lánað hafi verið fyrir kaupunum og hvaða rök hafi verið lögð til grundvallar valinu.

Ungir jafnaðarmenn telja öllum fyrir bestu að gert verði opinbert hverjir eru stofnfjáreigendur í SPRON þar sem mikilvægt er að opin og lýðræðisleg umræða fari fram um á hvaða forsendum einstaka stofnfjáreigendur hafa verið teknir í hópinn. Í ljósi þess sem komið hefur fram má telja að það sé eðlileg krafa borgarbúa og ekki síst viðskiptavina SPRON að upplýst sé hvernig staðið var að úthlutun þessara takmörkuðu gæða í formi réttar til kaupa á stofnfé þegar að allur almenningur átti þess ekki kost.

Enginn stofnfjáreigandi hefur enn orðið við áskorun Ungra jafnaðarmanna um að birta lista yfir hópinn opinberlega.

Framkvæmdastjórn Ungra jafnaðarmanna

– – – – – – – – – – – – – – – – – – – –

Birt 29.12
Ungir jafnaðarmenn harma leynd í SPRON

Ungir jafnaðarmenn, ungliðahreyfing Samfylkingarinnar, harma að stjórn SPRON skuli hafa meinað þeim aðgang að lista yfir stofnfjáreigendur í sparisjóðnum.

Í ljósi þess að stofnfjáreigendur geta orðið sér úti um skrá yfir alla
stofnfjáreigendur, skorar ungt samfylkingarfólk á alla 1100 stofnfjáreigendurna í SPRON, að sækja afrit af skránni á skrifstofu sparisjóðsins og gera hana opinbera þannig að almenningur geti séð hverjir eru stofnfjáreigendur.

Ungir jafnaðarmenn telja öllum fyrir bestu að gert verði opinbert hverjir eru stofnfjáreigendur í SPRON þar sem mikilvægt er að opin og lýðræðisleg umræða fari fram um á hvaða forsendum einstaka stofnfjáreigendur hafa verið teknir í hópinn.

Framkvæmdastjórn Ungra jafnaðarmanna

– – – – – – – – – – – – – – – – – – – –

Birt 28.12
UJ óskar eftir því við SPRON að fá að sjá lista yfir stofnfjáreigendur

Ungir jafnaðarmenn, ungliðahreyfing Samfylkingarinnar, hafa óskað eftir því við SPRON að fá aðgang að lista yfir stofnfjáreigendur í sparisjóðnum.

Ungt fólk í Samfylkingunni hefur áhuga á að komast að því hvaða stjórnmálamenn eru á þeim lista. Hyggjast ungir jafnaðarmenn því næst spyrja stjórnmálamennina hvernig þeir hafi komist yfir stofnféð og hvort þeim finnist verjandi siðferðislega að hagnast á sölu þess.

Ungir jafnaðarmenn óska eftir að fá aðgang að listanum strax á mánudag enda er afar brýnt að viðskipti þungavigtarfólks í íslenskri pólitík með stofnfé í SPRON séu dregin fram í dagsljósið. Best væri þó ef stjórnmála- og embættismenn meðal stofnfjáreigendanna kæmu sjálfir fram og skýrðu frá málinu.

Framkvæmdastjórn Ungra jafnaðarmanna

– – – – – – – – – – – – – – – – – – – –

Birt 27.12
Biðjum þjóna almennings að breyta rétt

Ungir jafnaðarmenn, ungliðahreyfing Samfylkingarinnar, biðja embættis- og stjórnmálamenn í röðum stofnfjáreigenda í SPRON um að afsala sér og skila öllum hugsanlegum gróða af sölu SPRON umfram eðlilega vexti og verðbætur.

Það er hvorki í samræmi við lög né ríkjandi siðferði á Íslandi að fólk hagnist á því persónulega að gegna opinberum embættum. Fólki sem trúað er fyrir slíkum hlutverkum gegnir þeim sem fulltrúar almennings og allur gróði eða annar ávinningur sem því áskotnast vegna þessara hlutverka skal skilast aftur í sameiginlega sjóði fólksins í landinu.

Komið hefur fram að í röðum þeirra sem vegna stöðu sinnar hefur verið boðið að gerast stofnfjáreigendur í SPRON eru m.a. fyrrverandi borgarstjórar í Reykjavík, borgarfulltrúar, alþingismenn og ýmsir embættismenn. Afar mikilvægt er að það fólk sem gegnt hefur þessum embættum geri nú hreint fyrir dyrum sínum og skýri hvernig því gafst kostur á að kaupa stofnfjárhluti í SPRON á nafnverði þegar að allur almenningur átti þess ekki kost.

Taka skal fram að hluti stofnfjáreigenda hefur eignast hluti í Sparisjóðnum vegna persónulegs framlags til hans s.s. vegna sölu á fyrirtækjum til hans, starfa fyrir hann eða annars slíks. Við þessu amast Ungir jafnaðarmenn ekki sérstaklega en fagna því að rekstrarformi Sparisjóðsins verði nú breytt.

Ungt fólk í Samfylkingunni treystir því að okkar ágætu kjörnu fulltrúar, sem þáðu boð stjórnar SPRON um að kaupa stofnfé á nafnverði, sjái að sér nú þegar ljóst er að hægt verður að selja þessi hluti á margföldu kaupverði. Það ætti að vera öllum morgunljóst að þeir geta með engu móti selt hluti sína á genginu 5,5 og ætlast til að geta stungið mismuninum í vasann. Slíkt væri andstætt almennu siðferði og því opna og gagnsæja samfélagi sem samstaða hefur verið um að skapa á Íslandi.

Einnig er mikilvægt að þeir skýri hvernig þeim datt í hug að þiggja slíkt boð í upphafi, enda hljóti þeim að hafa verið ljóst að það væri lagt fram vegna stöðu þeirra í þjónustu við almenning.

Framkvæmdastjórn Ungra jafnaðarmanna

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand