Við í Samfylkingunni megum vel við una með nýliðið ár. Góðar kosningar, tuttugu manna þingflokk, sterka liðsheild og öfluga ungliðahreyfingu. Samfylkingin er næststærsti flokkur þjóðarinnar, með hér um bil jafnstóran þingflokk og Sjálfstæðisflokkurinn og hefur burði til að ástunda lýðræðisleg vinnubrögð og stjórnarhætti. Atburðir liðins árs hafa sýnt að þess er þörf. Við í Samfylkingunni megum vel við una með nýliðið ár. Góðar kosningar, tuttugu manna þingflokk, sterka liðsheild og öfluga ungliðahreyfingu. Samfylkingin er næststærsti flokkur þjóðarinnar, með hér um bil jafnstóran þingflokk og Sjálfstæðisflokkurinn og hefur burði til að ástunda lýðræðisleg vinnubrögð og stjórnarhætti. Atburðir liðins árs hafa sýnt að þess er þörf.
Á árinu birtust þjóðinni mikil umbrot í íslensku viðskiptalífi, á fjármálamarkaði og fjármálastofnunum auk sviptinga á fjölmiðlamarkaði. Athyglisvert er hvað menn verða alltaf voðalega hissa á atburðarásinni sérstaklega þeir sem skirrast við að tryggja í löggjöf að ekki verði fram hjá henni farið eins og raun ber vitni um sparisjóðina. Því miður hefur það verið afhjúpað að viðskiptasiðferði er víða á lágu plani og æsifréttir ársins hafa birt okkur hrollvekjandi samráð á markaði og óhefta græðgi.
Mér finnst gott hjá Ungum jafnaðarmönnum hvernig þeir keyrðu upp umræðuna um stofnfjáreigendur SPRON. Ég var stjórnarmaður í Sparisjóði Kópavogs í nokkur ár meðan ég var í bæjarstjórn Kópavogs og þekki vel hugmyndafræðina á bak við Sparisjóðina og aðild bæjarfélaganna að þeim. Ég fullyrði að á þeim tíma hefðu stjórnarmenn og ábyrgðarmenn þess Sparisjóðs talið það fjarstæðu að ábyrgðarmenn ættu að geta hagnast síðar meir á svo samfélagslegri aðgerð sem tilurð Sparisjóðanna var. Eftir að ég settist á þing var mér boðið að gerast stofnfjáraðili en afþakkaði boðið af því mér fannst það ekki samræmast setu minni á löggjafarþingi. Sú afstaða reyndist rétt.
Þegar Davíð fer
Það er áhugavert að velta fyrir sér hvað gerist þegar Davíð fer. Hann er búinn að stjórna með miklu valdboði og ekki bara í flokknum. Hann lagði af nokkur embætti sem honum mislíkaði en annars virðist hafa verið nóg að forsætisráðherrann hvessti brýrnar í átt til þeirra sem tengjast opinberum rekstri eða hafa öðlast forræði og völd í skjóli stjórnarflokkanna til að sjálfstæðir tilburðir til nýrra stjórnarhátta lækju niður nytu þeir ekki náðar hans. Framsóknarflokkurinn hefur látið ótrúlega hluti yfir sig ganga til að halda pólitískum völdum sínum og það er skráð í söguna að þessi ríkisstjórn hefur fengið á sig alvarlega Hæstaréttardóma varðandi stór og pólitísk samfélagsmál.
Margir telja að Sjálfstæðisflokkurinn láti Halldóri og Framsókn ekki eftir forsæti ríkisstjórnarinnar. Segja að Davíð hafi strax á kosninganótt gripið það eina ráð sem dygði til að ná áframhaldandi samstarfi við Framsókn en sjái nú að það sé keypt of dýru verði. Hvernig verði sá Sjálfstæðisflokkur staddur í næstu kosningum sem hafi verið megnið af kjörtímabilinu í vist Framsóknar, Davíð jafnvel horfinn úr forystunni og ágreiningur um arftakann? Í þessu umhverfi blómstra kenningar um stjórnarslit og ný stjórnarmynstur. Ummæli Davíðs í kjölfar eftirlaunamálsins um að flokkur eins og Samfylkingin sé ekki samstarfshæf hljóma sem lofsyrði í þessu andrúmslofti.
Samfylkingin er öðruvísi stjórnmálahreyfing. Það er auðvitað erfitt fyrir mann sem hefur stjórnað með liðskipunum að skilja að þannig sé þetta ekki í öðrum flokkum.
Mikill kraftur
Stóra verkefni Samfylkingarinnar núna er að efla flokkinn og sækjast síðar eftir áhrifum á sínum eigin forsendum. Framtíðarhópur Samfylkingarinnar hefur fengið þýðingarmikið verkefni. Hann á að móta framtíðarsýn okkar jafnaðarmanna á nýrri öld. Nýr tími, nýjar kröfur, ný þekking, breytt alþjóðasamstarf. Allt kallar þetta á endurmat stefnumála, pólitískrar stjórnunar og afskipta. Hjá okkur í Samfylkingunni verður þetta mat byggt á lífssýn og grundvallarviðhorfum jafnaðarmanna. Við höfum verk að vinna að beita stjórnvöld aðhaldi, viðhafa sterka heilbrigða stjórnarandstöðu og efla flokkinn okkar.
Allt of oft þegar talað er um flokkana er átt við forystu og þingflokk. Þetta eru öflugar flokkseiningar en flokkur er miklu meira. Sveitarstjórnarstarf Samfylkingarinnar um allt land er gífurlega sterkur pólitískur grunnur, sömuleiðis öflugt flokksstarf og snörp ungliðahreyfing. Allt þetta blómstrar í Samfylkingunni. Í mínu kjördæmi, Suðvesturkjördæmi, eru allar þessar einingar sterkar. Þar starfa á annan tug sveitarstjórnarmanna, margir tugir nefndarfólks, áhugasöm flokksfélög sem funda jafnvel vikulega allan veturinn. Í Kópavogi eru ungir jafnaðarmenn að rífa upp starfið í ungliðahreyfingunni, fleira ungt fólk er að bætast í hópinn og mikill áhugi hjá þeim bæði á bæjarmálasviði og landsmálunum. Og fyrsta húsnæði sem Samfylkingin eignast var vígt í Kópavogi í nóvember. Glæsileg aðstaða þar sem öll starfsemi flokksins í Kópavogi fer nú fram.
Samfylkingin gengur til móts við nýtt ár með miklum baráttuhug. Við vitum hvaða verk við höfum að vinna.