Nú fer í hönd tími jólahátíðarinnar og fylgir henni jafnan mikið flóð gjafa. Athygli Ungra jafnaðarmanna, ungliðahreyfingar Samfylkingarinnar, hefur verið vakin á því að það tíðkist meðal ýmissa hagsmunaaðila að senda ráðamönnum í landinu góðar gjafir í tilefni jólanna. Ungir jafnaðarmenn telja mikilvægt að upplýsingar um meðferð slíkra gjafa séu uppi á borðinu til að tryggja gegnsæi og að enginn vafi leiki á um hvort slíkar gjafir hafi áhrif á einstakar ákvarðanir eða stefnumótun.
Ungir jafnaðarmenn hafa því sent öllum ráðherrum ríkisstjórnarinnar, forseta Alþingis og borgarstjóranum í Reykjavík bréf þar sem óskað er eftir lista yfir allar þær gjafir sem þeir hafi þegið frá fyrirtækjum, hagsmunaðilum og einstaklingum á árinu 2005 og áætlað verðmæti þeirra. Jafnframt óskuðu Ungir jafnaðarmenn eftir upplýsingum um hvaða reglur gildi um slíkar gjafir hjá viðkomandi embættum. Séu engar sérstakar reglur í gildi hafa Ungir jafnaðarmenn óskað eftir því að fá að vita hvaða hefðir hafi ríkt um meðferð slíkra gjafa sem ráðherrar, forseti Alþingis og borgarstjóri veita viðtöku í krafti embætta sinna.
Það væri reyndar ástæða til að hvetja aðra kjörna fulltrúa, t.d. alþingismenn og borgarfulltrúa til að birta slíka lista sömuleiðis. Og hvað með forseta Íslands? Hvað verður um allar gjafirnar sem hann fær? Sérstaklega þarf jafnframt að beina þessum kröfum að formönnum allra stjórnmálaflokkanna, enda eru þeir jafnan valdamestu menn í landinu.
Rétt er að taka fram að við höfum afmarkað kröfu okkar um upplýsingar við þær gjafir sem gefnar eru til ráðamanna í krafti embættis þeirra.
Þetta á að sjálfsögðu ekki við um hefðbundnar tækisfærisgjafir, svo sem afmælis- eða jólagjafir milli fjölskyldu og vina.
Síðan mætti einnig velta fyrir sér hinu gagnstæða, þ.e.a.s. eru alþingismenn, svo dæmi sé tekið, að gefa kjósendum sínum gjafir til að reyna að afla sér fylgis? Hvað með það þegar alþingismenn senda jólakort á kostnað Alþingis? Stjórnmálaflokkar gefa líka stundum gjafir – er þetta eðlilegt?
Markmið Ungra jafnaðarmanna er ekki að gefa í skyn að um spillingu að ræða. Þ.e. að stórfyrirtæki séu í raun að múta stjórnmálamönnum. Hér er aðeins verið að leita upplýsinga sem eðlilegt er að liggi á borðinu – þ.e. listi yfir gjafir sem ráðamenn fá í krafti embætta sinna. Þetta er sömuleiðis ekki spurning um flokkapólitík. Ungir jafnaðarmenn gera sömu kröfur til sinna eigin flokksmanna í þessum efnum og allra annarra.
Ætlunin er heldur ekki að standa á móti hófstilltum gjöfum – miklu frekar er hugmyndin að upplýsingar liggi á borðinu, allavegana gagnvart starfsmönnum hins opinbera og kjörnum fulltrúum. Eins beri að velta fyrir sér, ef gjafirnar eru verðmætari en eitthvað ákveðið, að þær renni þá til samfélagslegra nota.
Mér finnst persónlega eðlilegt að miðað sé við ákveðið hámark á verðmæti slíkra gjafa.