Með lögum skal land byggja?

Full ástæða er til að hafa áhyggjur af stjórnarháttum íhaldsmanna og B-deildar þeirra. Formhlið stjórnskipunarinnar er ef til vill í lagi en til þess að hægt sé að telja ríki til lýðræðisríkja er ekki síður mikilvægt að vinnubrögð og viðhorf þeirra sem starfa í umboði fólksins endurspegli virðingu fyrir lýðræðislegum gildum. Stjórnskipulega hlið lýðræðis verður því að skoða í samhengi við lýðræðislega stjórnarhætti og ýmis atriði við framkvæmd stjórnskipulagsins undanfarin ár hafa vakið upp spurningar um hversu lýðræðislegt íslenskt þjóðfélag er. Vanvirðingu stjórnvalda við lýðræðislega stjórnarþætti má meðal annars sjá í því að framkvæmdavaldið hefur í æ ríkara mæli ekki haldið sig innan lagaramma án þess að það hafi verið hægt að bregðast við því með neinum hætti.

Hefur vanvirðing stjórnvalda á lögunum við meðal annars leitt til þess að efasemdir hafa vaknað í samfélaginu um sjálfstæði dómstóla. Slíkt getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér vegna þess að þrískipting ríkisvaldsins og sjálfstæðir dómstólar er eitt af grundvallarskilyrðum lýðræðislegra samfélaga. Skipan dómara í Hæstarétt undanfarin misseri hefur glögglega sýnt að sá háttur sem hafður er á við skipanina sýnir að ekki er hægt að treysta stjórnvöldum til þess að hafa fagleg sjónarmið að leiðarljósi við skipanina eða að hæfasti umsækjandinn sé valinn. Skipan dómara verður að vera með það að leiðarljósi að dómarar séu eingöngu valdir á faglegum grundvelli og að sú leið sem farin er rýri ekki traust almennings á Hæstarétti líkt og síðustu skipanir hafa gert.

Einnig mætti hér nefna aðför Árna Magnússonar félagsmálaráðherra að fyrrverandi framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu. Dómur Hæstaréttar í málinu var kveðinn upp fyrir helgi og taldi rétturinn að það yrði að líta svo á að með eindregnum yfirlýsingum sínum á fundi sínum með framkvæmdastjóranum hafi ráðherra stytt sér leið að settu marki með því að knýja hana til að fallast á að láta af starfinu. Hæstiréttur taldi þessa leið ósamrýmanlega þeirri meginreglu stjórnsýsluréttar að óheimilt sé að undirbúningur og úrlausn máls miði að því að komast hjá að fylgja lögboðinni málsmeðferð, sem ætlað sé að tryggja réttaröryggi aðila. Í stuttu máli þýðir þetta að félagsmálaráðherra var talinn hafa brotið meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins þar sem hann hefði getað beitt vægari úrræðum en að knýja framkvæmdastjórann til þess að láta af starfi sinu. Slík þvingun getur ekki talist til lýðræðislegra stjórnarhátta.

Síðast en ekki síst komst umboðsmaður Alþingis á dögunum að þáverandi dómsmálaráðherra, Sólveig Pétursdóttir, hefði ekki haft lagagrundvöll til þess að taka þá ákvörðun að meina þekktum eða grunuðum meðlimum í Falun Gong fyrir fram landgöngu og að fela einkaréttarlegum aðila, Flugleiðum hf., að framkvæma þá ákvörðun í flughöfnum í Evrópu og Norður-Ameríku með því að meina þessum einstaklingum að stíga þar um borð í flugvélar félagsins.

Framangreind mál sýna glögglega hversu litla virðingu stjórnarflokkarnir bera fyrir lögum landsins og þeim alþjóðlegu mannréttindasáttmálum sem íslenska ríkið hefur undirgengist. Slík vanvirðing grefur undan stjórnskipan landsins og sendir út þau skilaboð að það sé óþarfi að fara að landslögum…því af hverju ættu þegnar landsins að fara að lögum ef stjórnvöld telja það óþarfi?

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið