Stjórnmálaályktun af landsþingi UJ 2005 – Jafnréttismál

Hver manneskja skal hafa fullt sjálfræði og rétt til að móta framtíðina í félagi við aðra. Ungir jafnaðarmenn sjá fyrir sér samfélag þar sem allir tekið ákvarðanir um eigið líf og látið drauma sína rætast óháð kynferði. Til að þetta samfélag geti orðið að veruleika verðum við að bylta þeim stofnunum og gildum sem enn standa í vegi fyrir og takmarka jafnrétti kynjanna.

Á Íslandi er ekki raunverulegt jafnrétti. Þrátt fyrir að við höfum vissulega gripið til ýmissa ráðstafanna til að stuðla að jafnrétti þá er konum á mörgum sviðum enn ætlað minna hlutverk en körlum. Að fæðast sem kona felur enn í sér það óásættanlega hlutskipti, að hafa lægri laun, minni áhrif í stjórnmálum, meginábyrgð á heimilishaldi og uppeldi barna og færri tækifæri í viðskiptalífinu. Við búum í heimi feðraveldisins, þar sem karlar sem hópur hafa meiri áhrif og völd en konur sem hópur. Þessi kerfisbundna mismunun er staðreynd hvarvetna í heiminum í dag. Misréttið birtist einnig í kynferðislegri kúgun, í klámi, í vændi og í ofbeldi gegn konum. Þetta óréttlæti takmarkar möguleika konunnar sem einstaklings og skerðir frelsi hennar til að skapa sér sín eigin örlög. Sé maður samþykkur þessari greiningu á stöðunni og hafi vilja til að breyta henni þá þýðir það að maður sé femínisti. Ungir jafnaðarmenn eru feminísk hreyfing vegna þess að við viðurkennum að konur sem hópur búa ekki við sömu skilyrði og karlar sem hópur og þessu viljum við breyta.

Til lýðræðisríkja eru gerðar formlegar kröfur um þátttöku þegnanna í opinberri stjórnun, svo sem að stjórnvöld hafi umboð frá þjóðinni með reglulegum kosningum. En lýðræðishugtakið felur ekki eingöngu í sér að uppfylltar séu formlegar kröfur um lýðræði heldur skiptir ekki síður máli að þeir hópar sem eiga hagsmuna að gæta komi að ákvarðanatökunni og tekið sé mið af ólíkum hagsmunum, sér í lagi hagsmunum minnihlutahópa.

Skipulegt misrétti, t.d. kynjamisrétti sem birtist í því að vægi kvenna í stjórnkerfinu er óeðlilega lítið veldur því að sjónarmið og gildi kvenna eru vanmetin í ákvarðanaferli sem annars kann að uppfylla formlegar kröfur um lýðræðislega ákvörðun. Það er því skilyrði lýðræðislegra stjórnarhátta að sjónarmið þeirra sem málið varðar komi fram og að tekið sé tillit til þeirra sjónarmiða þegar ákvarðanir eru teknar. Af þessu leiðir að ef konur koma ekki að ferli við ákvarðanatöku sem snertir íslenskt þjóðlíf er lýðræðishalli á samfélaginu. Það sama á við um fólk af erlendum uppruna, samkynhneigða, fatlaða og aðra minnihlutahópa í íslensku samfélagi.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand