Túrkmenistan

Morgunblaðið er skemmtilegur fjölmiðill sem oft fær mann til að brosa, hvort sem það er yfir myndasögunum, slúðrinu eða tragikómískum viðhafnargreinum Hannesar Hólmsteins um það hvernig hann hafi stungið upp í mann og annan með orðaleikjum sem hefðu sómt sér vel í Íslenskri fyndni um 1940. Sennilega finnst jafnvel Morgunblaðsmönnum of langt gengið að setja greinar Hannesar á forsíðuna og þess vegna birtast þar reglulega örstuttar fréttir sem kæta landsmenn yfir serjosdisknum – það eru Túrkmenistanfréttirnar. Morgunblaðið er skemmtilegur fjölmiðill sem oft fær mann til að brosa, hvort sem það er yfir myndasögunum, slúðrinu eða tragikómískum viðhafnargreinum Hannesar Hólmsteins um það hvernig hann hafi stungið upp í mann og annan með orðaleikjum sem hefðu sómt sér vel í Íslenskri fyndni um 1940. Sennilega finnst jafnvel Morgunblaðsmönnum of langt gengið að setja greinar Hannesar á forsíðuna og þess vegna birtast þar reglulega örstuttar fréttir sem kæta landsmenn yfir serjosdisknum – það eru Túrkmenistanfréttirnar.

Það hafa örugglega allir tekið eftir þessum fréttum, sem flestar ganga út á nýjustu aðgerðir hins snarbilaða Túrkmenbashi, forseta Túrkmenistan. Núna síðast var hann að gefa út sína þriðju ljóðabók, sem var undir eins tekin inn í námskrá túrkmenskra barna sem skyldulesning, auk þess sem útsending var rofin í sjónvarpinu til að Túrkmenbashi gæti lesið upp úr bókinni.

Ég hef alltaf flissað yfir þessum fréttum en það var ekki fyrr en um daginn sem ég gerði mér grein fyrir því í skyndilegum innblæstri að Túrkmenistan væri alvöru land og að bak við þessa nett klikkuðu framhlið sem snýr að umheiminum hlyti að búa alvöru fólk með alvöru hugsanir og tilfinningar – og á það ekki skilið að við kynnum okkur landið þeirra svolítið betur áður en við fáum hláturskast yfir nýjasta uppátæki Túrkmenbashi? Myndum við fíla það ef restin af heimsbyggðinni hefði bara áhuga á að hlæja að því hversu stórir karlar stjórnarherrarnir okkar, Davíðbashi og Halldórbashi, halda að þeir séu?

Eyðimerkurlandið Túrkmenistan tilheyrði Sovétríkjunum þangað til þau hrundu árið 1991 og var eitt af fátækustu og fámennustu ríkjunum í Mið-Asíu. Það er þó ríkt af olíu, sem það hefur ekki náð að nýta til fulls vegna útflutningsvandræða og deilna um eignarrétt á olíulindum. Meirihluti íbúanna eru Túrkmenar og það hefur verið óvenju lítið um innbyrðis deilur milli þjóðernishópa í landinu. Helsta menningarstolt Túrkmena er aldagömul teppagerðarhefð – það er meira að segja teppamunstur í túrkmenska fánanum.

Það er aðeins einn flokkur í Túrkmenistan og hann samanstendur aðallega af gömlum kommúnistum. Valdið er óskorað í höndum áðurnefnds forseta, Saparmyrat Niyazov, eða Túrkmenbashi (,,faðir Túrkmena”) eins og hann kallar sig. Hann hefur verið útnefndur af þinginu sem forseti fyrir lífstíð.

Það er engin stjórnarandstaða í Túrkmenistan. Árið 2002 hittist hópur fyrrum stjórnandstæðinga í útlegð í Vín og tilkynnti stofnun túrmensks stjórnandstöðuflokks. Fyrir þeim fór fyrrverandi utanríkisráðherra Túrkmenistan, Boris Shikhmuradov. Í nóvember sama ár var gerð morðtilraun á hendur Niyazov forseta, sem notaði tækifærið og sakaði stjórnarandstöðumennina um tilræðið. Alls voru 46 manns dæmdir fyrir þátttöku í tilræðinu og Shikhmudarov var dæmdur í lífstíðarfangelsi. Eftir það hvarf túrkmenska stjórnarandstaðan á nýjan leik.

Allir fjölmiðlar í Túrkmenistan eru í ríkiseign og er algjörlega stjórnað af yfirvöldum. Sjónvarpsþættir og annað efni frá Rússlandi er allt vandlega ritskoðað fyrir sýningu. Ríkisrekin netfyrirtæki eins og Turkmentelecom stjórna netnotkun almennings.

Túrkmensk yfirvöld hafa margoft verið sökuð um gróf mannréttindabrot og litla virðingu fyrir almennum mannréttindum. Á bandarískri heimasíðu eru ferðalangar t.d. upplýstir um að möguleiki sé á að sími þeirra sé hleraður á hótelunum og leitað sé í herbergjum þeirra.

Ég hvet alla til að kynna sér sögu og menningu Túrkmenistan, sem er að mörgu leyti áhugaverð. Það er m.a. hægt að byrja á vefsíðu BBC News eða vefsíðu sendiráðs Túrkmenistan í Bandaríkjunum, sem er merkilega óhlutlæg. Einnig hvet ég Morgunblaðið til að gefa lesendum sínum á einhvern hátt tækifæri til að kynna sér eyðimerkurlandið Túrkmenistan umfram túrkmensku forsíðuskrýtlurnar.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand