Jón Skjöldur Níelsson segir dreifða byggð stuðla að óhagkvæmni í samgöngum og gerir einkabílinn nánast nauðsynlegan í lífi okkar. Hann telur að það þurfi að setja mislæg gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar í forgang því nýverandi ástand sé óviðunandi. Einkabílaþjóðin
Bíllausi dagurinn var haldinn hátíðlegur í Reykjavík nýverið og borgarbúar fögnuðu honum með því flykkjast sem aldrei fyrr út á götur borgarinnar á bílum sínum. Umferð hélst óbreytt og götur sem áttu að vera lokaðar voru fullar af bílaumferð. Ekki ætla ég að skjóta á einn né neinn enda notaði ég bílinn minn þann daginn eins og alla aðra daga.
Það er staðreynd að umferð á eftir að aukast á götum borgarinnar í framtíðinni og ef við ætlum að halda ótrauð áfram á sömu braut munum við þurfa að sætta okkur við hægari umferð og umferðarteppur eins og við þekkjum frá erlendum stórborgum. Margir hafa velt því fyrir sér hvað veldur því að Íslendingar nýti sér illa almenningssamgöngur og geri lítið af því að ganga og hjóla milli staða. Auðvitað er nærtækast að tala um veðráttuna í þessu samhengi. Reykjavík er gríðarlega dreifð og mikið af opnum svæðum þar sem fólk er berskjaldað fyrir veðri og vindum. Þétting byggðar væri til mikilla bóta og horfi ég þá hýru auga til byggðar í Vatnsmýrinni þegar flugvöllurinn fer. Þar er gríðarlegt byggingarlandsvæði sem myndi án efa efla miðborgina.
Dreifð byggð stuðlar að óhagkvæmni í samgöngum og gerir einkabílinn nánast nauðsynlegan í lífi okkar.
Mislæg gatnamót
Mikil umræða hefur farið fram síðustu daga um mislæg gatnamót á mótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Stjórnarandstaða Sjálfstæðismanna í Reykjavík hefur gengið hart fram um að framkvæmdum við gatnamótin verði flýtt og ráðist í byggingu þriggja hæða umferðarmannvirkis með fríu flæði umferðar um báðar göturnar. Þau yrðu þannig að neðst kæmi Kringlumýrarbraut, yfir hana Miklabraut og efst yrði hringtorg. Þessi gatnamót hafa tvímælalausa kosti í för með sér og samkvæmt áfangaskýrslu Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar mundi slysum að öllum líkindum fækka um 80% og tafatími minnka um 70%.
Heildarlausnir
Skoða verður þessa framkvæmd sem hluta af stærri heild. Frítt flæði um þessi gatnamót er talið hafa í för með sér umferðaraukningu um 9 þúsund bíla sólarhring og myndu umferðarteppur tvímælalaust færast á nálæg ljósastýrð gatnamót. T.d. liggur ljóst fyrir að ef Miklabraut færi í frítt flæði myndi það skapa mikla flöskuhálsa á gatnamótunum við Lönguhlíð og þar er lítið hægt að rýmka til sökum plássleysis. Í skýrslunni er bent á lausnir í þessu samhengi eins og t.d. að setja Miklubraut að hluta til í stokk milli Lönguhlíðar og hinnar nýju Hringbrautar. Einnig telja skýrsluhöfundar æskilegt að ráðist verði í mislæg gatnamót á mótum Kringlumýrarbrautar og Listabrautar (við Morgunblaðshúsið) jafnhliða framkvæmdunum við gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Áætlaður kostnaður við gatnamótin eru um 2,7 milljarðar króna og ef mislæg gatnamót Kringlumýrarbrautar og Listabrautar yrðu teknar með í reikninginn væri kostnaðurinn kominn í 3,1 milljarð. Skýrsluhöfundar telja æskilegt að ráðist verði í kjölfarið í framkvæmdir við nálæg gatnamót og vegakerfi til að koma í veg fyrir umferðarteppur og tryggja að fjárfestingin nýtist sem best. Erum við þá að tala um heildarpakka upp á 7,6-8,2 milljarða en til samanburðar má nefna að áætlaður kostnaður við Fáskrúðsfjarðargöng, að þeim ólöstuðum, er um 3,8 milljarðar.
Erum við á rangri braut?
Ákveðið hefur verið að fresta framkvæmdum við þessi mislægu gatnamót og ráðast þess í stað í undirbúning á byggingu Sundabrautar. Jafnframt því á að ráðast í breytingar á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar, með fjölgun akreina og ljósastýringum fyrir allar akstursleiðir. Myndi sú framkvæmd sem yrði þá til bráðabirgða fækka óhöppum um 30-50% og minnka tafatíma um 15%. Kostnaður við þessa lausn yrði tiltölulega lítill en arðsemi þónokkur þar sem slysum myndi fækka töluvert.
Mín skoðun er sú að við verðum að setja mislægu gatnamótin í forgang. Núverandi ástand er algjörlega óviðundandi.
Kannanir sýna að mikill meirihluti borgarbúa er á móti frestun framkvæmda við mislægu gatnamótin. Án efa munu Sjálfstæðismenn nýta sér það í þaula í kosningabaráttunni fyrir næstu borgarstjórnarkosningar árið 2006 og gæti það þyngt okkar róður til muna.
Að lokum vil ég benda fólki sem hefur áhuga á að kynna sér málið nánar að skoða áfangaskýrslu Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar sem má finna hér.