Trúleysi

Ég var skikkuð til að læra kristinfræði í skóla. Það taldi ég löngum leiðinlegasta fag í heimi. Trúarbragðafræði lærði ég seint og takmarkað. Sagt er að krakkar verði að læra kristinfræði því kristnin sé svo samofin sögu þjóðarinnar. Ég bendi á á móti að til að lifa í þeim fjölþjóðlega heimi sem við lifum í í dag verðum við að kunna skil á öðrum trúarbrögðum en kristninni. Annars er auðvelt að fyllast fordómum og vanþekkingu. Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið á mánudaginn í síðustu viku. Ég sat í sakleysi mínu í matsalnum í skólanum mínum og borðaði epli, þegar alltíeinu sté upp á stól ung stúlka og tilkynnti okkur áheyrendum að hún tryði sko á Jesús. Og það væri af því að hann Jesús (tónninn var svoldið einsog hún bara væri rétt búin að tala við hann í símann) hefði verið svo hrikalega kúl gaur, grænmetisæta, labbað um á sandölum í slopp og breytt vatni í vín. Geðveikt töff. Jájá. Mér finnst Johnny Depp líka geðveikt töff en ég trúi ekkert á hann. En stúlkan hélt sína ræðu og ég sat eftir með eplið og leið einsog syndugri Evu sem væri um það bil að vera rekin út úr Eden. Allt af því að mér finnst Johnny Depp meira kúl en Jesús.

Jesus Madness
Daginn eftir kom fram önnur stúlka í matsalnum og tilkynnti okkur með nokkru þjósti að henni væri sko alveg sama þó okkur fyndist hún hallærisleg, hún væri samt trúuð. Seinna þennan dag fékk ég útskýringu á þessu undarlega háttalagi og tilkynningaþörf ungra Kvennaskólastúlkna; kristilegir nemendur skólans voru að standa fyrir trúarviku undir nafninu Jesus Madness. Jessöríbob. Það er sem ég sæi Unga jafnaðarmenn eða SUS fá að leggja undir sig skólann í heila viku óáreitt án þess að það væri kallað ójafnrétti.

Stuðlað að jákvæðu viðhorfi
Mér fannst þetta fyndið alveg þangað til á fimmtudeginum, þegar þau fengu prest í pollagalla til að sitja fyrir svörum. Þetta reyndist ekki vera skynsamur og djúphugull prestur sem gat komið til móts við tilvistarkreppu okkar menntaskólanemanna, heldur einn af þessum Gunnörum í Krossinum sem fordæmir syndir okkar hægri vinstri og er sérlega umhugað um pervertisma eins og samkynhneigð og kynlíf utan hjónabands. Það er mér hulin ráðgáta hvernig kristilegu ungmennin héldu að þau gætu stuðlað með þessu að jákvæðu viðhorfi fólks til kristninnar.

Fjölþjóðlegur heimur
Mér er ekkert illa við að fólk sé kristið. Þvert á móti. Allt fólk hefur sinn rétt til trúarbragða… og einnig til að sleppa þeim. Ég er þreytt á því að kristið fólk njóti sérréttinda í þessu landi. Þá er ég ekki að tala um Jesus Madness-vikur og sértrúarpresta heldur almennt hugarfar og mismunun. Ég var skikkuð til að læra kristinfræði í skóla. Það taldi ég löngum leiðinlegasta fag í heimi (já, það var leiðinlegra en danska). Trúarbragðafræði lærði ég seint og takmarkað. Sagt er að krakkar verði að læra kristinfræði því kristnin sé svo samofin sögu þjóðarinnar. Ég bendi á á móti að til að lifa í þeim fjölþjóðlega heimi sem við lifum í í dag verðum við að kunna skil á öðrum trúarbrögðum en kristninni. Annars er auðvelt að fyllast fordómum og vanþekkingu.

Trúleysingjar siðblindir?
Oft er gefið í skyn að einungis kristið fólk hafi siðferðiskennd. Ég man eftir grein eftir Jónínu Bjartmars þar sem hún var að skrifa um barnaníðinga. Meðal lýsingarorðanna sem hún valdi þeim var orðið ,,trúlausir”. Það var kaldhæðnislegt í ljósi þess að nýjasti barnaníðingurinn sem flett hafði verið ofan af var virkur meðlimur í KFUM og æskulýðsstarfi kirkjunnar. En þetta hefur verið tilhneiging hjá ýmsu heitkristnu fólki, að gera ráð fyrir því að trúleysingjar séu upp til hópa siðblindir. Ég spyr: er ekki betra að vera góð manneskja af því að maður vill það sjálfur en af því að maður er hræddur við einhvern skeggjaðan kall sem hleypir manni kannski ekki inn í himnaríki?

Út af pökkunum?
Og þegar ég fermdist borgaralega fékk ég yfirleitt ekki hamingjuóskir heldur spurninguna ,,ertu ekki bara að þessu út af pökkunum?” Auðvitað var ég að þessu út af pökkunum, það voru allir að þessu út af pökkunum. Munurinn var bara sá að við sem vorum fermd borgaralega vorum spurð að því meðan þeir sem fermdust í kirkju (og sáu fyrir sér hlaðið gjafaborðið meðan þeir jöpluðu á oblátunni) fengu eintómar hamingjuóskir með að vera komin í kristinna manna tölu að eilífu. Aldrei fengu þau spurninguna ,,ertu ekki bara að þessu út af pökkunum?” Það þótti dónalegt og ókristilegt. Að níðast á samvisku okkar ókristnu fjórtán ára siðleysingjanna var hins vegar í fínu lagi.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand