Burt með afnotagjöldin og RÚV af auglýsingamarkaðinum

Það eru engin öryggis-, menningar- eða lýðræðisleg rök fyrir því að RÚV sé ráðandi aðili á auglýsingamarkaði. Málefni Ríkisútvarpsins hefur löngum verið í orrahríð íslenskra stjórnmála. Það er skiljanlegt í ljósi þess umhverfis sem það starfar í og þess mikla áhrifamátt sem stofnunin hefur. Útsendingar Ríkissjónvarpsins eru þó einungis 7% af heildarútsendingartíma íslenskra sjónvarpsstöðva. Engu að síður er Ríkissjónvarpið í skylduáskrift allra landsmanna með afnotagjöldum.

Afnotagjöld RÚV eru dýr, óskilvirk, ósanngjörn og óvinsæl
Afnotagjöld sem tekjuleið fyrir Ríkisútvarpið hefur marga galla. Innheimta afnotagjalda er kostnaðarsöm en það kostar um 80 milljónir króna árlega að reka innheimtudeild Ríkisútvarpsins. Til samanburðar kostar Skattstofan á Norðurlandi eystra, ein stærsta skattstofa landsins, svipaða upphæð.
Innlendir kvikmyndagerðarmenn kvarta núna sáran yfir því að stofnunin kaupi ekki meira efni af þeim á þessu ári, en samanlögð kaup stofnunarinnar af sjálfstæðum framleiðendum eru minni en sem nemur rekstrarkostnaði innheimtudeildarinnar.

Afnotagjöld eru einnig óskilvirk innheimtuaðferð. Talið er að allt að 5-9% gjaldenda sleppi við að greiða sín afnotagjöld. Afnotagjöld eru líka óvinsæl innheimtuaðferð, m.a. í ljósi þess eftirlits sem er nauðsynlegt. Einnig finnst mörgum ósanngjarnt að geta ekki átt sjónvarp eða útvarp án þess að greiða afnotagjöld til Ríkisútvarpsins.

Það er mun vænlegri leið að standa undir rekstri Ríkisútvarpsins með framlagi á fjárlögum og með þjónustusamningi til langs tíma. Aðrar leiðir til tekjuöflunar eru má einnig hagræðing í rekstri og auðlindagjald á útvarpsrásum.

RÚV á að fara auglýsingamarkaði
Íslenski fjölmiðlamarkaðurinn mótast að verulegu leyti af tilvist Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaðinum. Það segir allt um hina erfiðu stöðu sem íslenskir fjölmiðlar búa við, að allir stóru fjölmiðlarnir, fyrir utan Morgunblaðið, hafa skipt um eigendur á síðustu þremur árum.

Tilvist RÚV á auglýsingamarkaði birtist í rekstrarerfiðleikum annarra fjölmiðla og dregur mátt úr metnaðarfullri dagskrárgerð annnarra fjölmiðla. Hin öfluga staða RÚV á auglýsingamarkaðinum kemur einnig í veg fyrir að nýir aðilar komist inn á markaðinn.

Auglýsingatekjur RÚV árið 2002 voru um 730 milljónir króna og tekjur af kostun um 95 milljónir króna. Hjá einkastöðvunum voru auglýsingar þá um 1.500 milljónir og kostun um 430 milljónir. Ríkisútvarpið er því með meira en þriðjung af þessum auglýsingamarkaði.

Ríkisútvarpið er ekki aðeins með ráðandi stöðu á auglýsingamarkaðinum heldur fær það að auki 2,2 milljarða með skyldubundnum afnotagjöldum og auk þess stórfé úr ríkissjóði en tap á rekstri RÚV árin 2001 og 2002, var yfir 500 milljónir króna sem skattborgarar greiða.

Þrengjum ekki að einkaframtakinu
Samfylkingin talar ekki fyrir því að ríkisfjölmiðillinn eigi ekki rétt á sér, þvert á móti. Það eru sérstök rök fyrir tilvist ríkisfjölmiðils á fjölmiðlamarkaði, eins og öryggis- og fræðslu- og lýðræðishlutverk ríkisfjölmiðilsins. Þessi rök eiga hins vegar alls ekki við um starfsemi RÚV á auglýsingamarkaðinum. Auglýsingamarkaðurinn er samkeppnismarkaður. Það eru engin öryggis-, menningar- eða lýðræðisleg rök fyrir því að RÚV sé ráðandi aðili á auglýsingamarkaði.

RÚV er einnig að þrengja að frjálsum Netmiðlum en samkeppni við ríkistyrka stofnun, eins og RÚV er, er vitaskuld vonlaus til lengar fyrir aðra. Við megum ekki gera einkaframtaki í fjölmiðlaheiminum svo erfitt fyrir að nánast útilokað sé að reka slík fyrirtæki til lengri tíma á Íslandi. Ég tel að það eigi að takmarka umsvif Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaðinum en geta má þess að á öðrum Norðurlöndum og í Bretlandi eru ríkisfjölmiðar ekki á auglýsingarmarkaði. Vitaskuld yrðu áfram í RÚV tilkynningar frá einstaklingum og opinberum aðilum, kostun þátta og jafnvel skjáauglýsingar.

Það er hagur okkar allra að hafa hér fjölbreytilega flóru fjölmiðla. Því fjölbreytari sem flóran er þeim mun betur eru hagsmunir almennings og auglýsenda tryggðir til lengri tíma.

Ríkisvaldið hefur verið að fara út af samkeppnismarkaði í mörgum atvinnugreinum og það er vel. Það er því tímaskekkja og beinlínis hættulegt fjölbreyttu úrvali fjölmiðla að ríkið þrengi að öðrum frjálsum fjölmiðlum.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand