Firrur hægrimanna

Hinn 15. þ.m. birtist ágæt grein á Tíkinni eftir Guðríði Sigurðardóttur þar sem meðal annars er fjallað um sprengjuárásirnar í Madríd, hverjir hafi staðið að baki þeim og áhrif þeirra á úrslit þingkosninganna á Spáni, þ.e. sigur Sósíalistaflokksins undir forystu José Luis Rodríguez Zapatero. En þó að greinin sé ágæt er útilokað að vera sammála tilteknu viðhorfi sem þar birtist og er mjög einkennandi fyrir lífssýn margra hægrimanna. Hinn 15. þ.m. birtist ágæt grein á Tíkinni eftir Guðríði Sigurðardóttur þar sem meðal annars er fjallað um sprengjuárásirnar í Madríd, hverjir hafi staðið að baki þeim og áhrif þeirra á úrslit þingkosninganna á Spáni, þ.e. sigur Sósíalistaflokksins undir forystu José Luis Rodríguez Zapatero. En þó að greinin sé ágæt er útilokað að vera sammála tilteknu viðhorfi sem þar birtist og er mjög einkennandi fyrir lífssýn margra hægrimanna.

Vitnað er í greininni til þeirra orða Zapatero, sem hann lét falla skömmu eftir kosningar, að það muni verða forgangsverkefni að berjast gegn hryðjuverkum. Þá er og vitnað til þeirra orða hans að herlið Spánverja í Írak verði kallað heim – en án þess þó að geta þess fyrirvara sem þessi yfirlýsing er bundin, þ.e. að herliðið verði því aðeins kallað heim að Sameinuðu þjóðirnar hafi ekki tekið við umsjón mála í Írak fyrir 30. júní nk. Síðan segir: „Hryðjuverkamönnunum tókst því ætlunarverk sitt hverjir svo sem þeir voru, þeir fengu Spánverja til að breyta afstöðu sinni og kjósa forsætisráðherra sem hlýðir hryðjuverkamönnum [leturbreyting mín].“

Af þessum orðum er ljóst að Guðríður lítur framhjá einni grundvallarstaðreynd í málinu, þ.e. að Zapatero var búinn að lýsa því yfir í kosningabaráttunni að herliðið yrði kallað heim kæmist Sósíalistaflokkurinn til valda, þ.e. ef Sameinuðu þjóðirnar hefðu ekki tekið þar við af hinum „staðföstu þjóðum“ fyrir framangreindan tíma (sjá t.d. á heimasíðu spænska Sósíalistaflokksins). Þetta var því hin yfirlýsta stefna flokksins áður en hið hörmulega hryðjuverk var framið í Madríd. Hér er því alls ekki um það að ræða að kosinn hafi verið forsætisráðherra sem „hlýðir hryðjuverkamönnum“, þ.e. breytir stefnumálum sínum til að þóknast hryðjuverkamönnum og er því eins og strengjabrúða í höndunum á þeim, heldur hafa Spánverjar þvert á móti kosið flokk til valda sem fylgir stefnumálum sínum af fullri einurð, sama hvað á dynur.

Flestir ættu að geta verið sammála um að það væri fáránleg stefnubreyting hjá Sósíalistaflokknum spænska að ætla nú að hafa spænskt herlið áfram í Írak hvað sem tautar og raular, þrátt fyrir að Íraksstríðið sé í hróplegu ósamræmi við hugsjónir flokksmanna og raunar vilja mikils meirihluta þjóðarinnar, bara vegna þess að hryðjuverk var framið á Spáni. Fyrir þess háttar stefnubreytingu eru engin skynsamleg rök. Það væri til að mynda ekki gáfulegt að breyta stefnunni til þess eins að einhver gæti ekki komið og sagt síðar, algjörlega út í hött: „Þið hlýdduð hryðjuverkamönnunum!“ Auðvitað á ekki að hafa áhyggjur af slíkum yfirlýsingum, enda eru þær ósanngjarnar og ómálefnalegar og fólk, sem lítur yfirvegað á málið, sér í gegnum þær.

Eins og áður sagði hefur Zapatero bundið yfirlýsingu sína um brottflutning spænskra hermanna frá Írak þeim fyrirvara að þeir verði þar áfram hafi Sameinuðu þjóðirnar tekið þar við umsjón mála fyrir 30. júní nk. Því er það ekki svo að Sósíalistaflokkurinn ætli að láta spænska hermenn flýja frá Írak í einu hendingskasti vegna hryðjuverkanna heldur mun hann hafa þá þar áfram komist skipan mála í viðunandi horf að hans mati, þ.e. ekki verði lengur um að ræða ólöglegt hernám heldur friðargæslu á vegum Sameinuðu þjóðanna. Af þessu má sjá að það hvort framin eru hryðjuverk á Spáni eður ei hefur engin áhrif á stefnu flokksins. Það sem skiptir máli er hvort það samrýmist stefnu hans og grundvallarviðhorfum að halda úti her í Írak.

Málflutningur margra hægrimanna í þessu máli, og í tengslum við hryðjuverkaógnina yfirleitt, er satt að segja farinn að verða nokkuð þreytandi. Alls kyns firra dynur stöðugt á fólki, s.s. að ríki, sem ekki styðja þá leið að nota nýtískudrápstól til að murka lífið úr hermönnum og óbreyttum borgurum, „hlýði hryðjuverkamönnum“; að Spánverjar, sem notuðu atkvæði sitt til að koma vinstrimönnum til valda, hafi látið hryðjuverkamenn ráða úrslitum kosninga en ekki sína eigin sannfæringu; að það skipti engu máli hvort ríki hafi friðsama utanríkisstefnu eða styðji svokölluð „fyrirbyggjandi stríð“ því að sú ógn sem þeim stafi af hryðjuverkum sé og verði sú sama (sjá t.d. leiðara Morgunblaðsins hinn 16. þ.m.); og að stöðugt meiri hervæðing og stríðsrekstur sé vörn gegn hryðjuverkum (sbr. það sem Bush tönglast alltaf á: „war on terror“).

Það þarf engan snilling til að hrekja þennan áróður. Hér hefur þegar verið hrakin firran um hlýðni við hryðjuverkamenn. Þá firru að Spánverjar, sem kusu Sósíalistaflokkinn, hafi látið hryðjuverkamenn ráða atkvæði sínu er jafnauðvelt að hrekja; auðvitað voru það ekki hryðjuverkamennirnir sem slíkir, sem þeir létu ráða atkvæði sínu, heldur sú staðreynd að stefna hægrimanna á Spáni gerði landið að skotmarki múslímska öfgamanna, sem og að ríkisstjórnin hélt því fram statt og stöðugt og án þess að blikna að ETA hefði sprengt lestirnar í Madríd, þó að það væri alls ekki sannað, bara, að því er virðist, til að halda völdum. Spænskir kjósendur, sem kusu Sósíalistaflokkinn, höfðu því tvenn mjög góð rök fyrir atkvæði sínu: í fyrsta lagi að hryðjuverkin mátti rekja til utanríkisstefnu ríkisstjórnar hægrimanna, rétt eins og verðbólgu eða atvinnuleysi má oft rekja til efnahagsstefnu ríkisstjórnar; og í öðru lagi að ríkisstjórnin hafði komið fram af óheilindum.

Og þá komum við að þeirri firru að utanríkisstefna ríkja hafi ekkert að segja um hryðjuverkahættu. Reynslan sýnir okkur að þetta er ekki rétt – eða hvaða lönd hafa helst orðið fyrir barðinu á hryðjuverkamönnum? Jú, það eru auðvitað Ísraelar, sem hafa kúgað Palestínumenn svo áratugum skiptir; Bandaríkjamenn, sem hafa stutt við bakið á þeim allan tímann, sem og ýmsum einræðisstjórnum í Miðausturlöndum (og víðar), t.d. konungsstjórninni í Saudi-Arabíu; Rússar, sem hafa kúgað Tsétséna um árabil og sprengt þá aftur til steinaldar; og ýmsir sem farið hafa illa að ráði sínu á einn eða annan hátt. Því að auðvitað er það ekki svo að hryðjuverkamenn fórni tíma sínum og jafnvel sínu eigin lífi til að gera árás á bara eitthvað eða einhverja einhvers staðar. Þeir velja sér að sjálfsögðu skotmörk og skotmörkin ráðast af pólitískum markmiðum þeirra. Þannig velja palestínskir hryðjuverkamenn sér til dæmis Ísraela sem skotmörk í stað þess að drepa vestræna hjálparstarfsmenn á herteknu svæðunum – og hvað þá að tölta yfir jórdönsku landamærin og sprengja Jórdaníumenn. Þá voru árásirnar 11. september 2001 gerðar á tvíburaturnana í New York og Pentagon en ekki til dæmis á verslunarmiðstöð í Halifax eða Reykjavík. Og tsétsneskir hryðjuverkamenn fremja hryðjuverk í Moskvu en ekki í Varsjá eða Búdapest. Og svona má áfram telja.

Síðasta firran, sem hér verður hrakin (en þær eru án nokkurs vafa mun fleiri), er sú að hervæðing og stríðsrekstur sé vörn gegn hryðjuverkum. Það er alveg sama hversu miklum peningum dælt er í vígvélar ýmiss konar og hversu margir eru undir vopnum, hryðjuverkamenn hafa jafn mikil tækifæri til að athafna sig eftir sem áður. Ekki tekst Ísraelum að stöðva hryðjuverk Palestínumanna þó að þeir séu eitt hervæddasta ríki heims. Ekki tókst Bandaríkjamönnum heldur með allan sinn her að koma í veg fyrir árásirnar 11. september 2001 og ekki tekst þeim að koma í veg fyrir hryðjuverk í Írak þó að þeir séu þar gráir fyrir járnum. Og ekki tekst Rússum að stöðva hryðjuverk Tsétséna þó að her þeirra hafi drepið Tsétséna í hrönnum. o.s.frv.

Ef eitthvað er þá eru það einmitt hervæddustu ríkin sem einna helst verða fyrir barðinu á hryðjuverkum. Staðreyndin er nefnilega sú að herir eru ekki öflugt vopn í baráttunni gegn slíkum óhæfuverkum, enda fara hryðjuverkamenn allt aðrar leiðir að markmiðum sínum heldur en herir. Í stað þess að birtast skyndilega gráir fyrir járnum fara þeir allan tímann með leynd – eða allt þar til þeir láta til skarar skríða. Enginn veit að Palestínumaðurinn, sem gengur inn á ísraelskan veitingastað, sé hryðjuverkamaður fyrr en hann springur allt í einu í loft upp. Og sprengjunum í lestunum í Madríd var komið fyrir með ítrustu leynd í stað þess að ekið væri um götur borgarinnar á skriðdreka og skotið á lestirnar. Af þessu má sjá að það er fyrst og fremst lögreglan, flugvallarvarslan o.s.frv. – og auðvitað heilbrigð utan- og innanríkismálastefna – sem kemur í veg fyrir hryðjuverk en ekki hervæðing.

En það er eins og það sé alveg sama hvernig reynt er að benda fjölmörgum hægrimönnum á öll þau augljósu sannindi sem rakin eru hér að ofan. Alltaf halda þeir áfram að berja hausnum við steininn.

Þórður Sveinsson, lögfræðingur og ritstjóri Mír.is
– greinin birtist á vefriti Ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði, Mír.is, föstudaginn 19. mars.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið