Tökum ábyrgð – Látum ekki atkvæði okkar detta dauð niður

utgerc3b0PISTILL Stefna Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum er skýr. Að afloknum komandi kosningum mun gefast gullið tækifæri til þess að ná fram þeim breytingum sem þarf til þess að ná sátt á meðal þjóðarinnar um nýtingu auðlindanna.

utgerc3b0PISTILL Sigurjón Þórðarson, frambjóðandi Frjálslynda flokksins fer mikinn í grein sinni „Verkin sýna merkin“ og talar um mikinn misskilning minn á vangetu og vanvilja Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálunum. Þegar fyrirsögnin er lesin er raunar nærtækt að spyrja sig hvað það er nákvæmlega sem Frjálslyndi flokkurinn hefur afrekað í gegnum tíðina? Ég sem fyrrverandi kjósandi flokksins hef svo sannarlega ekki séð þau merki sem halda verkum Frjálslyndra hátt á lofti.

Sigurjón heldur því fram að Samfylkingin hafi ákveðið að hafa að engu álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Staðreyndin er sú að Samfylkingin fékk litlu ráðið í þessum málaflokki í ríkisstjórnarsamstarfi sínu með Sjálfstæðisflokknum. Það náðist því miður ekki annað en að samþykkja sérstaka athugun á reynslunni á fiskveiðistjórnunarkerfinu og síðar var ákveðið að skipuð yrði nefnd til þess að gera tillögur til að bregðast með fullnægjandi hætti við áliti mannréttindanefndar SÞ um fiskveiðistjórnunarkerfið. Það var hægagangur fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, Einars K. Guðfinnssonar, sem og bankahrunið sem varð til þess að ekki reyndist unnt að ljúka þessari vinnu. Nú hefur aftur á móti verið haldið áfram með endurskoðun á stjórnarskránni þar sem áhersla verður lögð á að leiða til lykta þann ágreining sem uppi er um þjóðareign á náttúruauðlindum. Það liggur nú þegar fyrir tillaga þess efnis. Mistök Samfylkingarinnar voru hins vegar að fara í stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum sem ver kvótakerfið með ráðum og dáð. Slík mistök munu án efa ekki verða gerð aftur.

Stefna Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum er skýr. Að afloknum komandi kosningum mun gefast gullið tækifæri til þess að ná fram þeim breytingum sem þarf til þess að ná sátt á meðal þjóðarinnar um nýtingu auðlindanna. Kvótabraskinu verður að linna og hinu endalausa sogi fjármagns út úr greininni sem hefur skilið sjávarútveginn eftir í rúst. Um það hefur Frjálslyndi flokkurinn verið sammála Samfylkingunni. Samfylkingin er hins vegar eini stjórnmálaflokkurinn á Íslandi sem hefur burði til þess að leiða þetta mál til lykta. Um það þarf ekki að deila.

Ef einhverju á að vera hreyft í þessum málaflokki þá mun það verða gert að tilstuðlan Samfylkingarinnar. Því er mikilvægt að þeir sem hafa raunverulegan áhuga á að gerðar verði breytingar á þessu sviði fylki sér á bak við flokkinn. Íslandshreyfingin tók mjög ábyrga afstöðu fyrir skömmu síðan og ákvað yfirgnæfandi meirihluti félagsmanna hennar að hafna sérstöku framboði af ótta við að slíkt gerði meira ógagn en gagn þar sem allar líkur væru á því að atkvæði myndu detta niður dauð. Engu að síður hefur Íslandshreyfingin mælst með meira fylgi en Frjálslyndir í undanförnum skoðanakönnunum.

Hugsanlegir kjósendur Frjálslynda flokksins ættu því að kynna sér stefnumál Samfylkingarinnar varðandi sjávarútvegsmálin og hafa ábyrga ákvörðun Íslandshreyfingarinnar að leiðarljósi í næstu kosningum. Stefna Samfylkingarinnar mun verða kynnt að afloknum landsfundi 27.-29. mars. Ég hvet kjósendur til að taka ábyrgð og láta ekki atkvæði okkar detta niður dauð í næstu kosningum. Slíkt mun eingöngu styrkja þau öfl sem standa þétt að baki kvótakerfinu. Kosningarnar í vor gætu verið okkar síðasta tækifæri til þess að leiðrétta hið hróplega óréttlæti sem kvótakerfið hefur leitt af sér. Látum það ekki fram hjá okkur fara.

Þórður Már Jónsson, viðskiptalögfræðingur, mun skipa fjórða sæti á lista Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi í næstu kosningum. www.thordurmar.blog.is

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand