[Tilkynning] Framkvæmd kosninga eðlileg í alla staði

Það er mat framkvæmdastjórnar að skil á listum kjörinna landsfundarfulltrúa, skráning þeirra á landsfundinn og framkvæmd kosninga hafi gengið mjög vel fyrir sig. Tekið er undir með kjörstjórn landsfundarins sem þegar hefur lýst því yfir að kosningar í öll embætti á landsfundi Samfylkingarinnar hafi verið lögmætar og í samræmi við reglur flokksins. Þá hafi framkvæmd kosninganna verið með eðlilegum og hefðbundnum hætti á landsfundinum. Framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar hefur sent frá sér yfirlýsingu um framkvæmd kosninganna á landsfundi Samfylkingarinnar sem haldinn var 20.-22. maí sl. Yfirlýsingin birtist hér í heild sinni (fyrirsagnir eru ritstjórnar).

Yfirlýsing framkvæmdastjórnarinnar

Nú að loknum landsfundi Samfylkingarinnar er unnið að úttekt á framkvæmd fundarins í heild sinni en meðal þess sem þegar hefur verið skoðað er framkvæmd kosninga á landsfundinum sem fram fóru með rafrænum hætti að þessu sinni. Mikilvægt er að ekki sé hægt að draga í efa umboð þeirra sem kjörnir eru til trúnaðarstarfa fyrir Samfylkinguna og engin áhöld séu um að kjör þeirra hafi farið fram með löglegum og réttmætum hætti. Eftir að hafa farið yfir framkvæmd þessa þáttar er það niðurstaða okkar að vel hafi verið staðið að þessum málum á landsfundinum.

Við þessa skoðun var rætt við framkvæmdastjóra flokksins, sem hafði yfirumsjón með kosningum á landsfundinum, skrifstofustjóra flokksins sem hafði yfirumsjón með félagaskrá flokksins og skráningu landsfundarfulltrúa, framkvæmdastjóra þingflokks sem sá um kosningaeftirlit á fundinum, starfsmann á fundinum sem var ábyrgur fyrir afhendingu landsfundargagna, kerfisfræðing sem hafði umsjón með kosningakerfinu sem notað var og formann og framkvæmdastjóra Ungra jafnaðarmanna. Jafnframt hefur málið verið rætt í framkvæmdastjórn flokksins á fundum hennar í maí og júní.

Landsfundarfulltrúar Ungra jafnaðarmanna lágu fyrir 12. maí
Af hálfu aðildarfélaga Samfylkingarinnar var betur staðið að skilum á listum yfir kjörna landsfundarfulltrúa en oftast áður og höfðu þannig langflest félög skilað inn nafnalistum fyrir 12. maí eins og áskilið var, en félög fengu einnig frest í nokkra daga. Fjöldi landsfundarfulltrúa einstakra félaga miðaðist við fjölda félagsmanna eins og hann var þann 15. apríl, þegar kjörskrá vegna formannskjörs var lokað. Þegar kjörskrá í formannskjörinu var gefin út um 20. apríl fengu öll aðildarfélög Samfylkingarinnar sitt félagatal í hendurnar og gerðu þá sínar athugasemdir, ef einhverjar voru. Einungis örfá félög gerðu óverulegar breytingar á sínu félagatali eftir það.

Í þessu sambandi er rétt að geta þess að verulega hefur fjölgað í Samfylkingunni frá síðasta landsfundi og áttu aðildarfélög að Samfylkingunni að þessu sinni rétt á að senda mun fleiri fulltrúa en áður, eða alls 2071 fulltrúa. Aðeins fimm aðildarfélög fullnýttu rétt sinn til að senda fulltrúa á landsfund og var þar í öllum tilvikum um lítil félög að ræða – sem áttu rétt á tíu fulltrúum eða færri.

Ekki kosið fyrir aðra í varaformannskjörinu
Fullyrða má að sjaldan hafi verið eins gott eftirlit á landsfundi með innskráningum og afhendingu gagna. Almenn ánægja er með það kosningakerfi sem notað var á fundinum og er það mat flestra að rafræn kosning sé komin til að vera á landsfundum Samfylkingarinnar. Reynt var að hafa eins gott eftirlit með rafrænu kosningunni og kostur var og var fylgst sérstaklega með ef menn voru lengur að kjósa en eðlilegt gat talist. Það auðveldaði eftirlit að ekki var kosið í klefum heldur á níu borðum, með fjórum fartölvum á hverju þeirra. Samkvæmt því sem starfsmenn á fundinum segja var fylgst sérstaklega vel með því sem fram fór í varaformannskosningunni vegna þess að það var fyrsta kosningin á fundinum og þ.a.l. skipti máli að vel tækist til og allt gengi vel fyrir sig. Voru um 15 manns í eftirliti og umferðarstjórn í þeirri kosningu. Ekkert tilvik kom upp í varaformannskjörinu þar sem reynt var að kjósa fyrir aðra.

Kosningarnar löglegar og eðlilegar
Það er mat framkvæmdastjórnar að skil á listum kjörinna landsfundarfulltrúa, skráning þeirra á landsfundinn og framkvæmd kosninga hafi gengið mjög vel fyrir sig. Tekið er undir með kjörstjórn landsfundarins sem þegar hefur lýst því yfir að kosningar í öll embætti á landsfundi Samfylkingarinnar hafi verið lögmætar og í samræmi við reglur flokksins. Þá hafi framkvæmd kosninganna verið með eðlilegum og hefðbundnum hætti á landsfundinum.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand