Dagurinn í dag er þó ekki eingöngu tækifæri fyrir konur til þess að vekja athygli á launa- og réttindamuni kynjanna. Dagurinn í dag er fullkomið tækifæri fyrir okkur öll til þess að átta okkur á krafti kvenna. Í dag hafa mörg fyrirtæki ákveðið að loka. Hjól atvinnulífsins hiksta í dag vegna þess að konur landsins taka sig nú til og vekja athygli á því hversu mikla ábyrgð þær axla í þjóðfélaginu. Það er svolítið skrýtið að byrja þessa grein á því að óska konum sérstaklega til hamingju með daginn. Ég er búinn að sitja lengi og velta því fyrir mér hvaða fyrirsögn væri við hæfi á þessa grein. Dagurinn í dag er merkilegur í sögu jafnréttisbaráttunnar, og að mörgu leyti gleðidagur. Tilvist kvennafrídagsins sem slík er hinsvegar ekki gleðiefni. Það er svartur blettur á þjóðfélaginu að enn skuli finnast hópar sem finna sig knúna til að berjast fyrir réttindum sem aðrir sem sjálfsögðum hlut. Við skulum þó ekki draga úr gleði dagsins, því 24. október markar tímamót í baráttunni og skal minnst sem slíkra. Í framtíðinni vona ég að 24. október verði minnst sem dags þar sem við lítum til fortíðar, fortíðar þar sem konur fundu sig kveðnar til að marsera niður stræti borgarinnar og að mótmæla misjöfnum kjörum sínum og réttindum. Í framtíðinni verður þetta partur af okkar sögu en ekki af samfélaginu.
Raunin
Það er staðreynd að konur hafa ekki sömu réttindi og sömu laun og karlar. Þrátt fyrir það heyrast oft raddir sem reyna að neita tilvist þessa misréttis. Ég hef reyndar aldrei skilið hvernig hægt er að reyna að telja sér trú um að konur njóti sömu réttinda til fulls við karla, því svo er það ekki.
Júnihefti The Economist þetta árið var sérstaklega tileinkað mæðrum í atvinnulífinu. Í blaðinu var talað um Glerþakið, þær ósýnilegu hindranir sem konur mæta í atvinnulífinu og samfélaginu. Glerþakið er góð lýsing á því hverju konur mæta dagsdagleg. Konur taka oftast meiri ábyrgð á heimili og fjölskyldu en við karlmenn, konur eiga mun erfiðara með að fá lánsfé til að stofna til eigins reksturs og konur hafa að meðaltali um 30% lægri laun fyrir sömu vinnu og karlar. Kvennafrídagurinn árið 2005 er því jafn nauðsynlegur og kvennafrídagurinn 1975. Stórkostlegar breytingar hafa orðið á hag og réttindum kvenna hér á landi. Misréttið er þó enn til staðar.
Kvennafrídagurinn
Dagurinn í dag er þó ekki eingöngu tækifæri fyrir konur til þess að vekja athygli á launa- og réttindamuni kynjanna. Dagurinn í dag er fullkomið tækifæri fyrir okkur öll til þess að átta okkur á krafti kvenna. Í dag hafa mörg fyrirtæki ákveðið að loka. Hjól atvinnulífsins hiksta í dag vegna þess að konur landsins taka sig nú til og vekja athygli á því hversu mikla ábyrgð þær axla í þjóðfélaginu. Þrátt fyrir þessa ábyrgð og vinnu kvenna eru enn til fyrirtæki og stofnanir sem ekki meta að verðuleikum verk kvenna. Dagurinn í dag er líka tækifæri fyrir eiginmenn, syni og bræður til að axla aukna ábyrgð á heimili. Konur hafa ákveðið að taka sér frí þegar þeirra vinnudegi er lokið samkvæmt launaumslaginu. Fríið ætti líka að ná til heimilisins og því hvet ég alla karlmenn til að láta daginn í dag verða upphafið að aukinni ábyrgð á heimilishaldi og uppeldi barna, einhverju sem enn í dag fellur oft sjálfkrafa á herðar kvenna.
Ég vona að sem flestar konur fylkist niður á torg og berjist af alefli fyrir sínum sjálfsögðu réttindum. Gerum þennan dag upphafið að nýjum hugsunarhætti. Ég óska konum um allt land til hamingju með daginn.