Til framtíðar eða fortíðar

Líklegt er að menntaáætlun og ungmennaáætlun Evrópusambandsins eigi eftir að efla þá tilfinningu fólks að tilheyra Evrópu í framtíðinni þar sem að ungmenni víðsvegar úr Evrópu fá tækifæri til þess að kynnast nýrri menningu og læra ný tungumál. Kannanir sem gerðar hafa verið sýna að ungt fólk er jákvæðara gagnvart ESB og lítur frekar á sig sem Evrópubúa heldur en eldri kynslóðir. Það verður áhugavert að sjá hvort að komandi kynslóðir muni koma til með að vera virkari þátttakendur í Evrópusamstarfinu og láta sig meir um málefni ESB varða en þær kynslóðir sem nú ráðandi. Það lætur vel á krossgötum að staldra við og horfa til veðurs.

Undanfarið hefur ekki vindað vel um Samfylkinguna í könnunum. Jafnvel má heyra raddir um að endurskoða þurfi stefnur flokksins, skipulag og forystu. Og þetta er skiljanlegt, það er alltaf til sá hópur sem vill láta veður og vinda ráða stefnum og straumum flokksins.

En ég er á öðru máli. Það sem unnið hefur verið hingað til er og ætti að vera grunnur að öllu starfi Samfylkingarinnar. Framtíðarhóparnir voru lýðræðislegir, vitsmunalegir, málefnalegir og, eins og nafnið ber með sér, framsýnir. Vinna þeirra var byggð á ítarlegum rannsóknum og niðurstöðum helstu sérfræðinga á hverju sviði fyrir sig. Hún var kynnt á opnum fundum, ekki í reykfylltum bakherbergjum, málefnin voru rædd í stórum hópum og fengin var málefnaleg og lýðræðisleg niðurstaða.

Það þarf ekki að spyrja að því að hægrimennirnir hafa reynt eins og þeir geta að gera lítið úr þessu starfi, það er starfsháttur þeirra. Skemmst ber að minnast starfs Kvennalistans sem Mogganum tókst með sífelldum aðdráttunum að gera að næsta engu. En í þetta skipti skal hinum innmúraða sjálfstæðismanni sem þar stendur í brúnni og skoðanabræðrum hans ekki takast að drepa þetta hugsjónastarf.

Það er hægt að gera lítið úr framsýni, úr lýðræðislegum stjórnarháttum, úr samfélagslegri umræðu og hugsjónum um jafnræði í samfélaginu en þegar allt kemur til alls þá hafa þessi málefni hljómgrunn í samfélaginu og eru grundvöllur stjórnkerfis í lýðræðisríki.

Auðvitað hafa hægri menn ærna ástæðu til þess að óttast það starf sem fram fór í framtíðarhópum Samfylkingarinnar. Menn (og það eru aðallega karlmenn) sem hafa verið við völd jafn lengi og raun ber vitni hafa nefnilega misst sjónar á því hvert hlutverk þeirra er. Hlutverk þeirra, ólík því sem þeir halda, er ekki að bjarga þjóðinni frá hinu og þessu, heldur að þjóna þjóðinni. Að búa svo um hnútana að Ísland verði ekki eftirbátur í þeirri hröðu framþróun sem á sér stað í hinum alheimsvædda heimi.

Efnahagsstefna sem keyrð er áfram á áli og steinsteypu eru ekki hugmyndir um framþróun, það eru hugmyndir um stöðnun. Samfélagið og hagkerfið er ekki keyrt áfram á allsherjarlausnum stjórnmálamanna. Hagkerfið og samfélagið er keyrt áfram af fólkinu sem býr og starfar í landinu. Stjórnmálamennirnir eru bara þarna til þess að þjóna og veita þjónustu og öryggi þeim sem minna mega sín.

Og þarna komum við kannski að aðalatriðinu. Jafnaðarmenn þurfa að standa fyrir því að stjórnmálamennirnir (og þar með ríkið) séu ekki í því að „bjarga“ landinu frá hinu og þessu. Heldur að íta undir og styrkja stoðir samfélags sem er sjálfbjarga og framsækið. Ekki í því að byggja sér minnismerki og geta keypt sér atkvæði í heimahéraði, heldur að íta undir að Ísland verði sjálfstætt ríki byggt á innri styrk og þeim ótrúlega krafti sem sýnir sig þegar Íslendingar stinga niður fæti erlendis.

Ísland fer ekki á hausinn ef stóriðja verður ekki á hverju horni, ef ekki eru göng í gegnum hvert fjall, ef tóm steinsteypuhús prýða ekki hvern smábæ. Nei, en Ísland fer á hausinn ef fyrirtæki eins og Össur, Flaga, Hjartavernd, Marel og önnur sportfyrirtæki taka staf sinn og hatt og fara vegna efnahagsstjórnunar sem tekur ekkert mark á þeirri alþjóðlegu þróun sem á sér stað.

Heimurinn er að breytast. Asía hefur tekið forystu í iðnaði, enda með starfsfólk á lúsarlaunum sem býr ekki við nein af þeim réttindum sem Evrópubúar börðust fyrir í mörg hundruð ár. Evrópa er að svara þessari breytingu með því að stefna á hátækniiðnað, þjónusturekin hagkerfi og frumkvæði og sköpun borgaranna til þess að lifa af. En Ísland virðist þessa dagana vera að reyna að keppa við þriðja heiminn í stað þess að reyna að treysta ímynd sína sem land framsóknar og hugrekkis, frumkvæðis og fegurðar.

Þannig að valið sem Samfylkingin stendur frammi fyrir er að berjast fyrir framtíðinni eða fyrir fortíðinni. Og það er þess virði að velta fyrir sér á þessum tímamótum.

Grípum tækifærið, veljum framtíðina!

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand