Tíðin slöpp í „tíkinni“

Ansi er pólitíkin mikil flatneskja þessa daganna. Við erum greinilega ekki að standa okkur í stykkinu. Persónulegur metnaður ákveðinna manna og kvenna er allt sem menn nenna að ræða. Umræðan er ekki í skötulíki heldur í einhvers konar rabb- eða bloggstíl. Endalausar vangaveltur um ekki neitt og það sem enginn veit er stöðugt í brennidepli.

Verst hvað þetta er smitandi. Pistill minn verður því einmitt í þessum sama stíl í dag.

Vald fólksins – Vald fyrirtækjanna
Ég er gamaldags og trúi því að vald fólksins sé í gegnum ríkisvaldið og þessvegna þurfi sterkt ríkisvald til að hafa hemil á fyrirtækjunum. Vald ríkisins er að minnka og fyrirtækjanna að aukast en hvenær förum við að þora að segja almennilega skoðanir okkar á fyrirtækjunum og þeirra uppátækjum. Ég verð nú að viðurkenna að þótt ég hafi enga trú á því sem Davíð Oddsson eða Hallur Hallsson halda fram um að fólkið sem skrifar í Fréttablaðið sé að gera það af einhverjum öðrum hvötum en að búa til gott og vinsælt blað þá finn ég fyrir vissum ugg gagnvart veldi fyrirtækjanna. Fyrirtækin eru gott ef ekki hörundsárari en aðrir þegar kemur að gagnrýni. Ég get t.d. vel trúað að forsvarsmenn SPRON hugsi okkur í UJ þegjandi þörfina fyrir þá gagnrýni á þá sem við höfum sett fram (þótt ekki hafi þeir lokað reikningnum mínum). Sömuleiðis kann Kári Stefánsson okkur líklega litlar þakkir fyrir ályktun okkar um að upplýsing um 400 milljón króna málið skuli vera skilyrði fyrir veitingu ríkisábyrgðar. Eða andstöðu okkar við ríkisábyrgðina yfirleitt.

Ég held að við þurfum í stjórnmálunum að halda vöku okkar gagnvart fyrirtækjunum. Þau eru ekki hafin yfir gagnrýni. Þau þurfa aðhald. Það er eðli fólks í rekstri að ganga eins langt og leyfilegt er til að tryggja framgang þess rekstrar. Það hefur hins vegar einnig komið í ljós tilhneiging meðal stjórnenda fyrirtækja til að nýta sér það ef aðhald er lítið að innan og utan. Þegar að fyrirtæki eru farin að byggja upp ákveðinn óþarfa standard í samskiptum sín í millil þá er það orðið okkar mál. Þegar að fyrirtæki réttlæta það að eyða milljónum á milljónir ofan til að tryggja sér viðskiptavild stjórnenda annarra innlendra fyrirtækja sem allir vita að fæst fyrir miklu minna fé, þá er okkar mál. Það að fyrirtæki bjóði stjórnendum í margra daga lúxusferðir í einkaþotum á erlenda knattspyrnuleiki til þess eins að tryggja sambönd sem þegar eru góð, þá erum við komin að mörkum þess sem er eðlilegt. Og þá er eðlilegt að þeir séu krafnir svara.

Til þess að tryggja að stjórnmálamenn geti veitt þetta aðhald þarf að banna styrki fyrirtækja til stjórnmálaflokka.

Er Davíð með rétta skapið í dómsmálin?
Yfirlýsingar Davíðs um að honum gæti hugnast að gerast dómsmálaráðherra vekja upp spurningar. Er kannski komin hér enn ein fléttan í baráttu hans við Baugsfeðga? Er hann er kannski einn þeirra sem eru orðnir óþreyjufullur að fá niðurstöðu í lögreglurannsókn á meintum brotum þeirra Jóns Ásgeirs og félaga? Eða veit Davíð kannski af einhverjum aðkallandi verkefnum sem liggja fyrir í Dómsmálaráðuneytinu. Getur verið að vinur hans, Árni Johnsen, hafi hvíslað einhverju að honum um brotalamir kerfisins? Þá lægi nú beinast við að mínu mati að endurskoða nýlegt frumvarp Björns Bjarnasonar sem skerðir réttindi fanga og gefur fangavörðum m.a. allt of mikið rými til að að deila út refsingum og taka geðþóttaákvarðanir sem snerta líf fanganna. Nú svo vona ég að hann ætli ekki að reyna sem dómsmálaráðherra að hefta rétt okkar til að gagnrýna hann sjálfan. Hann tekur þeirri gagnrýni augljóslega misvel sbr. frægt bræðiskast sem hann fékk í tengslum við SPRON málið og kallaði hann okkur unga jafnaðarmenn ýmsum illum nöfnum í kjölfarið. Davíð sagðist hafa, minnir mig, upplifað það sem svo að verið væri að kalla hann „klámbúllueiganda“ með því að gagnrýna tilboð til stjórnmálamanna um að gerast stofnfjáreigendur.

Draumur: Ástþóri hafnað í netkosningu
Sömuleiðis var skrýtið að fylgjast samtímis með urmræðum um beint lýðræði með tilheyrandi þjóðaratkvæðagreiðslum og útgjöldum við þær og um leið að það ætti að banna Ástþóri Magnússyni að bjóða sig fram til forseta vegna kostnaðarins sem því fylgir. Er ekki viss hvort það var sama fólkið sem talaði fyrir eflingu lýðræðisins og fordæmdi framboð Ástþórs. Get þó vel trúað að svo hafi verið.
Annars vil ég fyrir mitt leyti hafna forsetasamningi Ástþórs hér og nú. Mér finnst samingurinn vondur og lítt vandaður. Svo er Ástþór enn að misskilja tilgang forsetaembættisins. Við viljum ekki að forseti sé að vasast í atvinnumálum Suðurnesja eða í út í löndum að semja um að fá hingað skrifstofur alþjóðlegra friðargæsluliða. Ástþór á frekar að taka þessi mál upp á vettvangi stjórnmálanna. Það er hlutverk flokkanna, Alþingis og svo ráðherra að vasast í slíkum málum. Forseti á ekki að vera að útfæra einhverja slíka hluti. Og auðvitað eigum við að hækka tölu meðmælenda sem þarf til forsetaframboðs. Við eigum að breyta því í ákveðið hlutfall kjósenda enda er út í hött að hafa þetta sömu tölu allt frá árinu 1944 meðan þjóðinni hefur fjölgað um helming.´

Að lokum þetta
Það er fagnaðarefni að nefndin sem á að kanna lög um eignarhald á fjölmiðlum skuli eiga að taka sér aðeins lengri tíma til að skila niðurstöðum sínum. Það er hins vegar undarlegt hversu lítið hefur verið minnst á það sem er afskaplega óeðlilegt við skipunarbréf þessarar nefndar og sem grefur stórlega undan trúverðugleika hennar að mínu mati. Það er sú staðreynd að sömu nefndinni sé uppálagt að skila áliti um það hvort nauðsynlegt sé að setja lög um eignarhald á fjölmiðlum og eigi einnig sjálf að skrifa lögin ef niðurstaðan er á þá lund. Ég get ekki séð að heppilegt sé að sama nefndin eigi að taka málefnalega afstöðu til máls þar sem að niðurstaðan hefur bein áhrif á það hvort þeim verði falin og fái greitt fyrir frekari nefndarvinnu. Þetta hefðu auðvitað átt að vera tvær nefndir. Eða að Davíð hefði bara einfaldlega átt að gera þetta sjálfur. Leggja fram frumvarp á Alþingi og vera ekki með þennan leikaraskap.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand