Ég íhugaði um daginn að segja mig úr Þjóðkirkjunni. Þó aðeins til að styrkja Háskóla Íslands, enda kom trúleysi mitt ekki mikið við sögu. M.a.s. fermd og skírð, og má kallast sannkristin samkvæmt bókinni. Ég trúi hinsvegar meira á erfiðleika Háskólans – því enginn rétthugsandi maður getur neitað tilvist þeirra! Ég íhugaði um daginn að segja mig úr Þjóðkirkjunni. Þó aðeins til að styrkja Háskóla Íslands, enda kom trúleysi ekki mikið við sögu. Fermd og skírð, og má kallast sannkristin skv. bókinni. Ég trúi hinsvegar meira á erfiðleika Háskólans – því þeir eru sannarlega til.
Hver spurði þig?
Í Stjórnarskrá Íslenska Lýðveldisins er m.a. kveðið á um trú- og skoðanafrelsi, en eðli málsins samkvæmt er einnig fjallað um Þjóðkirkjuna. Þar segir orðrétt: „Öllum er frjálst að standa utan trúfélaga. Enginn er skyldur til að inna af hendi persónuleg gjöld til trúfélags sem hann á ekki aðild að“. Maður skyldi ætla að þessi staðhæfing ætti einnig við um ríkið. Í dag geta Íslendingar ekki staðið svo fullkomlega utan þjóðfélaga að skattpeningar þeirra renni ekki óskert til Háskóla Íslands, eins og kveðið er um annars staðar í Stjórnarskránni. Þau gjöld sem menn láta rakna af hendi í þágu Háskólans (séu menn á annað borð utan trúfélaga) renna nær óskipt til guðfræðideildarinnar.
Þú sleppur ekki, góði.
Mörgum finnst þetta e.t.v. réttlætanlegt athæfi í ljósi þess að ýmsar deildir Háskólans eru fjársveltar. Skemmst er að segja frá því að nemendur á síðasta ári í táknmálsfræði fá ekki að ljúka námi sínu á tilsettum tíma vegna fjárskorts Guðfræðideildin stendur e.t.v. ekki betur fjárhagslega en aðrar deildir, enda ekki um himinháar fjárhæðir að ræða. Árið 2003 voru ekki nema 7000 manns utan trúfélaga, en það gildir einu; samræmis verður að gæta í þessum fjárveitingum eins og öðru. Í raun er það hrein og bein viðurlög hinna svokölluðu „trúleysingja“ að láta þeirra hlutlausa fé renna til guðfræðideildarinnar, a.m.k. líta margir svo á.
Mismunun, mismunun, mismunun.
Í ljósi þess að Háskólinn stendur frammi fyrir fjárhagsvanda sem aldrei ætlar að hverfa, er nauðsynlegt að viðurkenna ósanngirni ríkis og kirkju hvað þetta varðar. Nú þegar hefur Háskóli Reykjavíkur mun meira fjármagn á sérhvern nemanda heldur en Háskóli Íslands þrátt fyrir skólagjöld HR. Er þetta ekki hrein og bein mismunun? Lagadeild HÍ hefur m.a.s. spurst fyrir um réttlætingu þess að tekin verði upp skólagjöld við deildina. Á þetta að líðast?
Guðfræði – fínt fag
Nú hefur undirrituð lítið á móti guðfræðideild Háskólans og nemendum hennar; þvert á móti er deildin að vinna fróðlegt og mikilvægt starf sem ekki má missa sín. Hinsvegar á það ekki að líðast, að deildum sé mismunað á þennan hátt því nú er illa farið með almannafé. Hugsið ykkur, ef almenningur myndi taka höndum saman og segði sig úr þjóðkirkjunni til styrktar Háskóla Íslands. Myndi það ganga upp? Nei, vitaskuld ekki, guðfræðinemar njóta takmarkaðra vinsælda hjá harðsvíruðum guðleysingjum (og e.t.v. fleirum). Ég leyfi mér að efast um áhuga almennings á þvílíku framtaki þegar þetta fyrirkomulag ræður ríkjum.
Hver og einn verður að leggja sig fram við að leggja Háskólanum lið, því þessa dagana þarf hver deildin á fætur annari að líða stórvægilegt misræmi og þvílíka ósanngirni að það er lygi líkast að slíkt viðgangist í því menntasamfélagi sem við eigum að búa í. Og þó, stöðnun Háskólans virðist samrýmast menntastefnu Ríkisstjórnarinnar prýðilega. Guð blessi framtíð Háskólans.