Þú þarft bara að vilja að við tökum ábyrgð hvert á öðru

,,Pólitík snýst um lífið okkar og hvernig aðstæður við viljum skapa hvert öðru til að lifa því. Við höfum öll upplifað mismunandi hluti og komum þess vegna með ólík sjónarhorn að fundarborðinu. Einmitt þess vegna er betra að sem flestir hafi áhrif á pólitík, hvort sem er í stjórnmálaflokkum eða annars staðar.“ Segir Anna Pála Sverrisdóttir nýkjörin formaður Ungra jafnaðarmanna.

Við höfum öll einhverjar skoðanir á stjórnmálum. Náum þó kannski að hugsa mismikið um þau og finnst við kannski ekki hafa hundsvit á sumu sem er verið að tala um í íslenskri og alþjóðlegri pólitík.

Maður heldur kannski að maður hafi lítið fram að færa. Sjálf er ég í framboði til að verða formaður Ungra jafnaðarmanna en get játað að ég hef stundum áhyggjur af að hafa lítið fram að færa í stjórnmálum. Að einhverjir aðrir viti hlutina og skilji þetta allt saman miklu betur.


Þetta er bara fólk

Málið er samt að það fólk sem starfar í stjórnmálum er alltaf bara fólk. Sumt hefur verið kosið til pólitískra starfa og gert þau að vinnunni sinni. Annað hefur gefið tíma sinn og orku í félagsstörf tengd stjórnmálum. Þá er auðvitað eðlilegt að smám saman byggi þetta fólk upp þekkingu og geti farið að tala af öryggi. Það breytir því ekki að okkur flestum, líka þessu fólki sem er orðið vant, leið líklega svolítið eins og fávitum fyrst í stað, ef við hættum okkur á annað borð út í að taka þátt. Við þurfum bara að vita og muna að þetta er eðlilegt og á ekki að koma í veg fyrir að maður sé með í stjórnmálastarfi. Ekki heldur að maður þekki engan sem er fyrir í starfinu. Þetta kemur allt.

Fólkið sem er í ríkisstjórn núna var einhvern tímann óöruggt og að byrja að fóta sig. Örugglega má ganga út frá því að hver einasti ráðherra ríkisstjórnarinnar hefur líka garanterað einhvern tímann farið að gráta undan álagi. Þau eru bara venjulegt fólk eins og við hin, jafnvel þótt þau séu öflug og við gerum miklar kröfur til þeirra.


Þú þarft ekki að vita hvað línuívilnun er

Pólitík snýst um lífið okkar og hvernig aðstæður við viljum skapa hvert öðru til að lifa því. Við höfum öll upplifað mismunandi hluti og komum þess vegna með ólík sjónarhorn að fundarborðinu. Einmitt þess vegna er betra að sem flestir hafi áhrif á pólitík, hvort sem er í stjórnmálaflokkum eða annars staðar.

Okkar ólíka reynsla þýðir að við getum lagt mismikið af mörkum í ólíkum málaflokkum. Sum okkar kunna að nota fagorð á borð við línuívilnun, sem var talsvert í fjölmiðlum fyrir nokkrum árum en fáir virtust skilja út á hvað nákvæmlega gekk. Önnur okkar kunna ekki að nota öll fagorðin ennþá (fæst okkar held ég) og það er bara allt í lagi. Það sem skiptir mestu er að við séum sammála um grundvallaratriðin, að við vitum hvað okkur finnst í stórum dráttum skipta máli um það hvernig samfélag við búum til. Svo hjálpumst við að við að byggja ofan á.


Ertu sammála þessu?

Í Samfylkingunni starfa jafnaðarmenn. Fólk sem vill byggja á félagshyggju, sem þýðir að við viljum samfélag sem byggist á jöfnum tækifærum á borði en ekki bara í orði og því að við tökum ábyrgð hvert á öðru. Þetta felur auðvitað margt nánar í sér; svo sem að við viljum öflugt mennta-, heilbrigðis- og velferðarkerfi fyrir unga og gamla og jafnt aðgengi allra að því, að við viljum öflugt atvinnulíf sem heldur því uppi, að við viljum skila umhverfinu okkar þannig að seinni kynslóðir njóti þess jafnvel og við, að við viljum tryggja jafnan rétt mismunandi samfélagshópa og fjölbreytni í mannlífinu, að við viljum utanríkisstefnu sem endurspeglar jafnaðarstefnuna og alvöru lýðræði af því jafnaðarstefnan snýst ekki bara um jöfn tækifæri til fæðis og húsnæðis heldur líka til þess að ákveða hvernig er stjórnað.


Mættu þá

Landsþing Ungra jafnaðarmanna er haldið í Reykjavík 6. og 7. október. Þau sem eru þá orðin félagar í Samfylkingunni og eru á aldrinum 16-35 ára, eru miklu meira en velkomin. Dagskrána er að finna á vefsíðunni www.politik.is. Þessi árlegi viðburður er frábær leið til að kynnast starfinu vel og ekki síst fyrir þau sem ekki hafa verið með áður. Komdu og kíktu á okkur.

Greinin birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 6. október 2007.


Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand