Þórarinn Snorri nýr formaður Ungra jafnaðarmanna

img_1226

Þórarinn Snorri Sigurgeirsson, 28 ára stjórnmálafræðingur, var kjörinn formaður Ungra jafnaðarmanna á landsþingi hreyfingarinnar í dag. Hér má lesa stefnuræðu nýs formanns:

Elsku félagar.

Takk. Frá mínum hjartarrótum takk. Það er mér mikill heiður að takast á við þetta verkefni, að gerast fyrirliði þessarar frábæru hreyfingar sem Ungir jafnaðarmenn eru. Þrátt fyrir vel þekkt og örlítið vandræðalegt blæti mitt fyrir royalisma, þá lít ég ekki svo á að ég hafi verið krýndur kóngur hreyfingarinnar, heldur hyggst ég reyna eftir fremsta megni að virkja þann mikla mannauð sem í hreyfingunni býr, og hérna síðar í dag munum við kjósa í framkvæmdastjórn og miðstjórn og ég hlakka mikið til að starfa með ykkur öllum.

Starf Ungra jafnaðarmanna er ansi fjölbreytt. Við erum hápólitískt hreyfiafl, samviska Samfylkingarinnar, málefnahópur, djammfylking og spilaklúbbur. Og ýmislegt þar á milli. Og við þurfum að sinna öllum þessum hlutverkum vel. Það er mikilvægt að við upplifum hreyfinguna sem góðan vinahóp, og blessunarlega hefur okkur að ég held tekist að vera mjög næs hingað til, eða allavega hef ég upplifað Unga jafnaðarmenn mjög sterkt sem vinalegan félagsskap sem heldur utan um sína og býður nýtt fólk velkomið í starfið. Þannig á það að vera, þó við getum að sjálfsögðu jafnframt haldið áfram að hnakkrífast um staðgöngumæðrun og NATÓ. Það er stefna mín að Ungir jafnaðarmenn muni á næstu misserum halda reglulega viðburði, opna, vel auglýsta og aðgengilega, mis-alvarlega og alltaf velkomandi. Þjóðarheimilið Ungir jafnaðarmenn.

Annað verkefni Ungra jafnaðarmanna er að auka áhrif ungs fólks í Samfylkingunni og samfélaginu öllu, og það er ánægjulegt að málefnastarf Ungra jafnaðarmanna hefur skilað sér mjög ríkulega inn í stefnu Samfylkingarinnar, sem hefur fyrir vikið verið í fararbroddi allra flokka við að koma hlutum eins og afglæpavæðingu fíkniefna, lækkun kosningaaldurs og réttarúrbótum fyrir trans og intersex fólk í stefnu sína og taka það hugrakka skref að lýsa því yfir að best sé að leyfa drekanum að sofa á olíugóssi sínu.

Barátta fyrir mannréttindum fatlaðs fólks, hinsegin fólks, fíkla og annarra minnihlutahópa eru mál sem gerir jafnaðarmannahreyfingu á 21. öldinni nútímalegri og sterkari. Sumir vilja kalla þetta „mjúk“ mál eða gæluverkefni, en athuga ekki að þetta geta verið lífsspursmál fyrir ótal manns. Ef jafnaðarmannaflokkur hugsar ekki um hina jaðarsettu, þá telst hann varla jafnaðarmannaflokkur.

Þar fyrir utan hafa formleg völd ungra jafnaðarmanna innan flokksins sjaldan verið meiri. Á síðustu misserum hefur ungt fólk innan Samfylkingarinnar m.a. gengt hlutverki ritara flokksins, formanns framkvæmdastjórnar, formenn þriggja stærstu aðildarfélaga flokksins og í nýafstöðnum prófkjörum flokksins tóku metfjöldi ungs fólks þátt og hlaut víða góða kosningu.

En fyrir utan vinskapinn og áhrifin inn í Samfylkinguna, þá gegna Ungir jafnaðarmenn líka mikilvægu pólitísku hlutverki út á við. Á síðasta landsþingi, samþykktum við manifesto Ungra jafnaðarmanna, sem hefst á orðunum: „Ungir jafnaðarmenn er róttæk, græn, femínísk, frjálslynd, umburðarlynd, sjálfstæð og gagnrýnin hreyfing ungs jafnaðar- og félagshyggjufólks.“

Látum engan segja okkur að vinstri og hægri sé útdautt fyrirbæri. Núverandi ríkisstjórn hefur kristallað þann hugmyndafræðilega grundvallarmun sem er á félagshyggjunni og hægrinu. Lýsandi dæmi er LÍN frumvarp Illuga, þar sem reynt er að plástra fjársvelt kerfi með því að dreifa greiðslubirgðinni yfir á þá sem síst skyldi, viðkvæma hópa og tekjulága, á meðan þeir njóta mest góðs af breytingunum sem nú þegar búa við forréttindastöðu. Þetta er reynt að gera í stað þess að afla ríkissjóði þeirra tekna sem hann þarf til að gera raunverulegt átak í að bæta þessi fjársveltu kerfi okkar.

En leyfum hægrinu heldur ekki að eigna sér frjálslyndið og frelsið. Einkunnarorð Ungra jafnaðarmanna er enda „jöfn og frjáls“. Frelsi ungra jafnaðarmanna hefur öllu dýpri merkingu en að hægt sé að kaupa áfengi í Bónus (sama hvað okkur kann að finnast um það, per se). Fyrir okkur er frjálslyndið m.a. fólgið í þeirri stefnu að stokka þurfi upp landbúnaðarkerfið og koma á einhverskonar vott af samkeppni í þeim geira. Nú eða því að hætta eigi að hundelta fólk fyrir vörsluskammta af fíkniefnum og líta frekar á málið sem heilbrigðismál.

Sjaldan eða aldrei hefur verið meiri þörf á hreyfingu ungra jafnaðarmanna sem berjast fyrir jöfnuði og frelsi. Við búum í óréttlátu samfélagi. Hægri öflin halda öðru fram, sérstaklega á tyllidögum þegar mýtunni um stéttlaust samfélag er árlega slengt fram. Samfélag þar sem 10% landsmanna á 75% auðsins er ekki stéttlaust samfélag. Samfélag þar sem hundruð fatlaðra er meinað um eðlileg mannréttindi og frelsi er ekki réttlátt samfélag. Samfélag kynbundins launamunar, skattaundanskota ráðherra, verðtryggðra lána en óverðtryggðra launa, rafmagnsafsláttar til erlendra stóriðjufyrirtækja en stöðugs niðurskurðar í heilbrigðiskerfinu, samfélag útlendingaandúðar og þjóðrembings, samfélag frændhygli og sérhagsmuna, er ekki réttlátt samfélag né stéttlaust!

Það er ekki samfélag sem sem Ungir jafnaðarmenn samþykkja. Því við vitum að svona þarf þetta ekki að vera. Ísland er friðsælt og ríkt land. Við vitum að það er vel hægt að skapa hérna annarskonar samfélag, réttlátara samfélag.

Samfélag þar sem allt fólk getur lifað við mannlega reisn, sama hvort sem það er fatlað eða hinsegin eða af erlendum uppruna. Samfélag sem veitir borgurum sínum þá þjónustu sem fólk þarf í stað þess að treysta á sjálfboðaliðasamtök til að brauðfæða fólk sem hefur lent í öngstræti í lífinu vegna félagslegra aðstæðna þar sem enga hjálp var að fá. Samfélag þar sem skattkerfið er ríkulega nýtt til að stuðla að tekjujöfnuði og afla þjóðfélaginu þeirra tekna sem þarf til að standa undir raunverulegu velferðarkerfi og öflugu, þroskandi menntakerfi. Samfélag lýðræðis og óspilltra stjórnarhátta, þar sem atkvæði allra gilda jafnt og fólk upplifir sig ekki áhrifalaust í eigin lýðveldi. Samfélag sem einblínir ekki einungis á hagstærðir og hagvöxt, heldur efnahagslegt réttlæti og hamingju borgaranna. Samfélag þar sem okkar græna raforka er minna nýtt í stóriðjuver í eigu erlendra auðhringja og meira nýtt til að knýja vistvænar samgöngur. Samfélag þar sem ungt fólk getur komið sér upp húsnæði á eðlilegri kjörum en hinir uppsprengdu húsnæðis- og leigumarkaðir bjóða upp á í dag. Samfélag þar sem Íslendingar upplifa sig sem virkari þátttakendur í alþjóðaheiminum, með frið og jöfnuð að leiðarljósi í allri sinni utanríkispólitík. Samfélag, í stuttu máli, mannlegra gilda, samfélag félagshyggju, jöfnuðar og frelsis.

Þetta er framtíðarsýn okkar. Þetta er framtíðin sem Ungir jafnaðarmenn vilja sjá í forystu.

Það eina sem við þurfum að gera er að láta til okkar taka. Hvort sem það er á hinum formlega pólitíska vettvangi eða á barnum, kaffistofunni eða í fjölskylduboðinu. Við ungir jafnaðarmenn erum fulltrúar nýrrar kynslóðar sem ætlar sér að breyta heiminum til betri vegar.

Við erum framtíðin í forystu.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand