LEIÐARI Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í 7. apríl sagði frá því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi fengið 30 milljónir frá FL Group. Greiðslan fór í gegn nokkrum dögum áður en lög voru sett um 300.000 króna hámarksgreiðslu fyrirtækis til stjórnmálaflokks.
LEIÐARI Ég veit ekki hvar á að hefja leika. Á að byrja á því að tækla málið útfrá siðleysi, hæsta stigi spillingar og peningaflæði sem aldrei var innistæða fyrir? Jafnvel þeirri augljósu staðreynd hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn vill hvorki afnema bankaleynd, opna bókhald flokksins né hleypa frekara valdi til almennings? Á kannski að benda á hversu ótrúlega kaldhæðnisleg þau orð eru nú, sem Styrmir Gunnarsson reit fyrir ekki svo löngu síðan er hann lagði hart að Sjálfstæðismönnum að hamast á Samfylkingunni og tengja hana sem mest við útrásina?
Ég gæti líka tekið heilshugar undir þá tillögu að fresta skuli kosningum þar til öll kurl séu komin til grafar í greinilega misjöfnu bókhaldi flokkanna. Nú eða ritað á léttu nótunum um hversu ótrúlega óheppilegt atvikið sé fyrir hjörð Sjálfstæðisflokksins svo fáum vikum fyrir kosningar. Ekki beint í takt við Bjarna Benediktsson, nýkjörinn formann, sem talar skyndilega einsog jafnaðarmaður. Sá Garðabæjarstrákur veit nefnilega að ekki er hyggilegt að setja upptöku skólagjalda í opinberum háskólum, óhefta frelsisvæðingu þar sem allt má undir borðinu eða einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu á oddinn þetta árið.
Ekki skal þó gleyma meginspurningunni. Hvað fékk FL Group í staðinn fyrir þessar 30 milljónir? Samningur af þessu tagi getur ekki verið gerður af flokkshollustu einni saman. Þvert á móti líta þessar 30 milljónir af bankabók FL Group og inn á reikning Sjálfstæðisflokksins út sem mútur eða fyrirgreiðsla á hæsta stigi.
Þá stendur eftir einn punktur. Fannst flokknum þessi eingreiðsla allt í lagi á meðan almenningur vissi ekki af henni? Fannst flokknum allt í lagi að taka við þessum milljónum, vitandi það að alltaf kemur að skuldadögum? Bæði hvað varðar FL Group og almenning, þökk sé fréttastofu Stöðvar 2.
300.000 krónur í kosningasjóð Sjálfstæðisflokksins frá Neyðarlínunni, var af- og endurgreiddur af skeleggum framkvæmdastjóra flokksins um daginn. Hann stóð keikur fyrir framan myndavél og greiddi styrkinn til baka – þegar upp hafði komist að 112 hafði hent aðeins í kosningasjóðinn. Nú bíð ég spennt eftir því að sá hinn sami skili feita tékkanum rakleiðis í þrotabú FL-Group… eða nei! Það væri miklu heiðarlegra ef flokkurinn myndi í eitt skipti fyrir öll taka slaginn með stefnu sinni. Halda 30 milljónunum og iðrast hvergi. Hér skal ríkja endalaust frelsi, hér má gera allt það sem fólki sýnist. Frumskógarlögmál ofar siðferði. Og peningahyggja fárra ofar jöfnuði.