Skemmst er að segja frá því að Sjálfstæðismenn sáu sér ekki ástæðu til að halda prófkjör í Suðvesturkjördæmi fyrir síðustu kosningar. Eflaust var mönnum mikið í húfi að halda Gunnari Birgissyni í 2. sæti, á meðan Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir mátti mæta afgangi í 4. sætinu. Eftir kosningar kom á daginn að 5% kjósenda flokksins höfðu strikað Gunnar af kjörseðli sínum. Þorgerður Katrín hefur vissulega verið flokknum til sóma á síðasta kjörtímabili og leikur vafi á hvort hún hefði látið í minni pokann fyrir Gunnari, hefði prófkjör verið haldið. Eins og flestum er nú kunnugt eru konur orðnar harla fáar á Alþingi. Samfylkingin stendur þó öðrum flokkkum feti framar í jafnréttismálum og þar eru konur 45% þingmanna. Stjórnarflokkarnir sjá fátt athugavert við stöðu kynjamisvægis innan sinna þingflokka og gera gott betur; þeir skella skuldinni á okkur.
Konur eru konum verstar?
Hannes Hólmsteinn Gissurarson sagði í Silfri Egils 11.maí sl. að brottfall fjögurra kvenna úr Sjálfstæðisflokknum hefði að mestu leyti verið sök þeirra Sjálfstæðiskvenna sem kosið höfðu Samfylkinguna í þessum kosningum. Ef þær hefðu aftur á móti sett sitt X við Sjálfstæðisflokkinn væru konur á Alþingi mun fleiri en ella. Það má vel vera, en hafði kvenþjóðin úrslitaáhrif?
Konur í baráttusætum – karlar á toppnum!
Það er alvitað að flestar konur innan Sjálfstæðisflokksins eiga erfitt uppdráttar. Vissulega hafa fléttulistar og uppstillingar m.t.t. kynferðis aldrei verið stundaðar innan flokksins, en það hefur sýnt sig oftar en einu sinni að forgangsröðun Sjálfstæðisflokksins er á skjön við sína eigin jafnréttisstefnu. Skemmst er að segja frá því að Sjálfstæðismenn sáu sér ekki ástæðu til að halda prófkjör í Suðvesturkjördæmi fyrir síðustu kosningar. Eflaust var mönnum mikið í húfi að halda Gunnari Birgissyni í 2. sæti, á meðan Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir mátti mæta afgangi í 4. sætinu. Eftir kosningar kom á daginn að 5% kjósenda flokksins höfðu strikað Gunnar af kjörseðli sínum. Þorgerður Katrín hefur vissulega verið flokknum til sóma á síðasta kjörtímabili og leikur vafi á hvort hún hefði látið í minni pokann fyrir Gunnari, hefði prófkjör verið haldið. Í Samfylkingunni eru prófkjör haldin og þar koma konur vel út. Hver er leyndardómurinn?
Þrátt fyrir öflugar vefskríbentur á hægri kantinum eiga jafnréttismál innan Sjálfstæðisflokksins langt í land. 22 þingmenn og þar af 4 konur – flokkur með skýra stefnu, ekki satt? Og það bitnar á öllum kjósendum!
Stelpustjórn?
Nú hafa stjórnarflokkarnir náð samkomulagi um málefnasamning nýrrar ríkisstjórnar og verður sannarleg forvitnilegt að sjá nýja ráðherraskipan. Sérstaklega í ljósi þess að nú ætti konum að fækka í ríkisstjórn ef miðað er við kynjahlutföll innan þessara flokka. Femínistafélag Íslands hefur sett fram þá kröfu á hendur stjórnarflokkanna að konur skuli skipa helming ráðherrasæta vegna bágrar stöðu kvenna á Alþingi. Vissulega er það ekki svo fráleit hugmynd en við verðum að átta okkur á þeirri stöðu, að velja yrði úr þröngum hópi kvenna í mikilvægar embættisstöður. Flokkarnir yrðu þá að leita aftast í sínar raðir til að velja sér kvenkyns ráðherraefni. Er sanngjarnt gagnvart reyndum þingmönnum að synja þeim um ráðherraembætti á þeim forsendum að þeir séu karlmenn? Ja, einhversstaðar verður jafnréttið að skjóta rótum, eða hvað? Í draumaveröld hugsum við ekki um kynferði þegar kemur að ráðherraskipan. En við eigum langt í land.
Nú er að standa sig!
Ef við lítum andartak framhjá kynferði Framsóknar- og Sjálfstæðiskvenna, sjáum við mishæf ráðherraefni. Samfylkingin hefði eflaust leitt betri kvennastjórn en við breytum ekki kosningum. Eins og á undanförnum árum mun Samfylkingin án nokkurs efa skarta kröftugum kvenskörungum innan sinna víga. Þeim er fyllilega treystandi til að skynja aðför gegn jafnrétti kynjanna, á þann hátt að þær munu verða enn háværari rödd á Alþingi þegar stærð flokksins er orðin enn meiri. Þess vegna gegnir Samfylkingin lykilhlutverki, þrátt fyrir að vera ekki í ríkisstjórn.
Það verður að teljast langsótt að Davíð Oddson láti undan þrýstingi frá Femínistafélaginu, tilhugsunin er beinlínis fráleit (og fyndin). En sjái hann sóma sinn í að huga betur að jafnréttismálum innan síns flokks og leggja grundvöll fyrir greiðari leið kvenna í metorðastöður, tekur hann stórt skref í rétta átt. Með háværum kvenröddum á Alþingi stefnum við í rétta átt að jafnrétti kynjanna. Og þá skiptir minnstu máli hvaða flokki þú tilheyrir!