LEIÐARI „Þegar öllu er á botninn hvolft er traust efnahagsstjórn stærsta velferðarmálið,“ sögðu Geir H. Haarde og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir okkur vel tönuð og skælbrosandi fyrir síðustu kosningar. Síðan þá hefur allt breyst. Við höfum verið minnt mjög óþyrmilega á að efnahagsstjórn Sjálfstæðisflokksins var aldrei traust og hefur stefnt velferð okkar allra í mikla hættu.LEIÐARI „Þegar öllu er á botninn hvolft er traust efnahagsstjórn stærsta velferðarmálið,“ sögðu Geir H. Haarde og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir okkur vel tönuð og skælbrosandi fyrir síðustu kosningar. Síðan þá hefur allt breyst. Við höfum verið minnt mjög óþyrmilega á að efnahagsstjórn Sjálfstæðisflokksins var aldrei traust og hefur stefnt velferð okkar allra í mikla hættu.
Sem betur fer er sá flokkur ekki lengur í ríkisstjórn og er farinn að sinna þeim erindum í stjórnarandstöðu sem greinilega eru talin brýnust – að væla yfir því að sjálfstæðismenn missi vinnuna. Á meðan atvinnulausir á Íslandi nálgast fimmtán þúsund hefur flokkurinn eingöngu áhyggjur af þeim sem átján ára valdatíð flokksins var notuð til þess að koma vel fyrir sem víðast um íslenskt stjórnkerfi og tókst ekki betur til en svo að algjört hrun er arfleifð þaulsetunnar á valdastóli.
Í ljósi þess er í besta falli kjánalegt að hlusta á sjálfstæðismenn predika algjört stjórnleysi við að skipt verði um fólk í brúnni hjá Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum. Það sama fólk og sat aðgerðalaust hjá meðan íslenska bankakerfið óx íslenskum skattgreiðendum langt yfir höfuð. Og sama Davíð Oddsson og vermir nú vafasaman lista hjá Time Magazine um helstu sökudólga fjármálakreppunnar.
Eftir átján ára valdasetu hljóma sjálfstæðismenn eins og kúgaður almenningur ofsóttur af hinum valdameiri og neita alfarið að taka ábyrgð á eigin stefnu, hugmyndafræði og aðgerðaleysi sem til hrunsins leiddu. Við hin sem viljum ábyrga efnahagsstjórn og velferð fyrir alla eigum sem betur fer annarra kosta völ.