Það er alveg stórmerkilegt hvernig mótun utanríkisstefnu Íslands virðist ganga fyrir sig. Öll okkar utanríkisstefna virðist byggja á því að halda ráðamönnum í Washington góðum í von um að þeir hverfi nú ekki á brott af Suðurnesjunum. Þannig höfðum við ekki dug til að fylgja alþjóðalögum í aðdraganda Íraksstríðsins, við létum fara lítið fyrir okkur í Abu Grahib hneykslinu og nú síðast virðast ráðamenn engan áhuga hafa fyrir því að komast til botns í fangaflugsmálinu svokallaða. Í kjölfar hryðjuverka árásanna þann 11. september sóttu tvær spurningar mjög á ráðamenn í Hvíta húsinu. Voru fleiri hryðjuverkamenn innan Bandaríkjanna sem lágu og biðu færis? Og, í ljósi hversu auðveldlega þessir 19 hryðjuverkamenn höfðu athafnað sig, hvernig átti að finna þá sem eftir voru? Það tók ekki langan tíma fyrir hina hófsömu ráðgjafa Bush að koma fram með hugmynd, Liðkum fyrir reglum um hleranir, minnir óneytanlega á hugmyndir Björns Bjarnasonar, spurning hvort hann hafi óttast árás hryðjuverka manna á laugardagslaugina. Lögðu þeir til að NSA hefði frelsi til þess að nota hlerunar búnað sinn til þess að hlera grunaða hryðjuverkamenn innan Bandaríkjanna án þess að fá til þess heimild frá dómstól. En til staðar eru lög frá 1978 sem taka það sérstaklega fram að NSA er óheimilt að framkvæma slíkar hleranir. Til þess að fylgja ráðleggingum ráðgjafa sinna hafði Bush því tvo valkosti. Sá fyrri var að breyta lögunum. Sá seinni, hunsa lögin.
Að lokum tók Bush þá ákvörðun að reyna fyrri valmöguleikann. Hann mistókst, þá stóð sá seinni eftir. Árið 2002 gaf hann NSA leynilega heimild til þess að hlera, án heimildar, síma, tölvupósta og önnur rafræn samskipti. Í fjögur ár hélst þessi heimild Bush leynileg. Svo leynileg að hópur sex lögfræðinga innan NSC sem hittast reglulega til þess að fara yfir leynileg verkefni og heimildir, var haldið utan við þessa heimild. Þess í stað var það Alberto Gonzales, þáverandi ráðgjafi sem skrifaði upp á lögmæti heimildarinnar. Það var síðan þann 16. desember að New York Times flétti ofan af þessu hneyksli og hefur það komið af stað mikilli umræðu í Washington og um öll Bandaríkin um það hversu langt má ganga í stríðinu gegn hryðjuverkum, og mikilvægi þess að lögum sé fylgt. Það er nefnilega þannig að þótt ráðamenn Íslands virðast ekki þurfa að fara eftir neinum lögum og reglum þá þurfa stjórnmála menn allstaðar annarstaðar að gera það, líka Bush.
Með þessari umræðu hefur Bush nýja árið í deilum um það hvort ábyrgð hans að koma í veg fyrir fleiri hryðjuverk hafi gefið honum vald til þess að sniðganga lög sett af þinginu, eða eins og andstæðingar hans benda á, hreinlega brjóta lögin. Bush og stuðningsmenn hans segja að forsetinn hafi vald til þess að taka þær ákvarðanir sem þurfi til þess að vernda þjóðina. Andstæðingar hans segja að stríðið gegn hryðjuverkum geti alveg eins, ef ekki betur, verið háð án útúrsnúninga eða brotum á lögum og að rök Hvíta hússins minni allt of mikið á fræga rökfræði Richard Nixon: „When the President does it, that means that it is not illegal.“ Eða lauslega þýtt: Þegar forsetinn gerir það, þá er það ekki ólöglegt. Spurning hvort Árni Magnússon haldi að hann sé forsetinn.
Eitt er þó víst, þetta mál er rétt að byrja. Arlen Specter, formaður dómsvalds nefndar öldungadeildarinnar hefur þegar tilkynnt að vitnisburðir verða teknir þegar í þessum mánuði til þess að finna út hvað nákvæmlega er í gangi innan NSA og hvort hleranirnar sem framkvæmdar voru án heimildar hafi verið nauðsynlegar. Að auki mun upplýsinganefnd þingsins án efa rannsaka málið enn frekar. Einnig hefur dómsmálaráðuneytið hafið rannsókn á því hvernig upplýsingarnar komust í New York Times. Þeir neita þó að segja hvort lögmæti hlerananna í heild verði rannsakað.
Hleranir NSA eru aðeins eitt dæmi um stefnu stjórnar Bush að heyja stríðið gegn hryðjuverkum án nokkurra hindrana, ekki einu sinni hindrunum löggjafans. Flestir eru sammála að það eigi að berjast gegn hryðjuverkum af ákveðni og festu, með öllum tiltækum ráðum. Þar sem skiljast leiðir er á spurningunni um það hvað séu tiltæk ráð, eru það aðgerðir inna ramma löggjafans eða einnig aðgerðir utan þess ramma. Bandaríkin eru jú eina stórveldi heims og þurfa að geta varið sig gegn hryðjuverkum en á hinn bóginn eiga þau líka að vera þjóð sem hefur sanngirni og réttlæti að leiðarljósi. Í útgáfu Hvíta hússins af því hvernig þessi barátta skuli háð er það ásættanlegt að halda grunuðum einstaklingi í ótakmarkaðan tíma án réttarhalds, færa þá til yfirheyrslna í löndum þar sem pyntingar eru stundaðar, skilgreina bandaríska ríkisborgara sem óvina hermenn sem handtaka megi án ákæra, berjast gegn tilraunum þingsins til þess að setja takmörk á það hversu mikla hörku megi beita gegn föngum og að leyfa CIA að starfrækja leynileg fangelsi á erlendri grundu. Ef til vill hefur Hvíta húsið rétt fyrir sér, kannski er þetta réttlætanlegt, nauðsynlegt í barátunni gegn hryðjuverkum, en ljóst er í kjölfar þessarar umræðu að á þessu ári verður þetta mál mikið skoðað í Bandaríkjunum sem og í alþjóðasamfélaginu.
Til þess að styðja þetta framferði hefur Hvíta húsið undir forystu varaforsetans, Dick Cheney, verið að þróa nýja, vægast sagt kraft mikla skilgreiningu á valdi forsetans, sem hann segir að hafi verið óeðlilega mikið skert síðan á áttunda áratugnum. Þessu heldur hann nú fram þrátt fyrir að hafa tekið þátt í því að samþykja mörg lög sem þetta gerðu sem þingmaður Wyomings fylkis frá 1978-1989. En það er framkvæmdavaldið sem á hjarta hans, eða það litla sem eftir er af því. Sem starfsmannastjóri Gerald Fords frá 1975-1977 sá hann ítrekað hvernig vald Fords var takmarkað af þinginu, sem var staðfastara en nokkru sinni fyrr að leyfa ekki skilgreiningu Nixon á forseta valdi.
Þar sem forsetinn sniðgekk mjög skýr lög í þessu hlerunar máli er það skýrasta málið til þessa sem sýnir vilja stjórnar Bush að auka framkvæmdarvaldið umfram löggjafarvaldið. Þegar NSA var stofnað, árið 1952, voru fá takmörk fyrir því hvað stofnunin hafði vald til að gera í njósna og hlerunar málum innan Bandaríkjanna. En eftir misnotkun á upplýsingaöflun á Nixon árunum, þar sem NSA og FBI voru notuð af Hvíta húsinu til þess að njósna um mannréttinda forystumenn og mótmælendur Víetnam stríðsins, var skýr þörf á löggjöf. Árið 1978 samþykkti þingið FISA (Foreign Intelligence Surveillance Act), sem gerði NSA skylt að sækja um heimild fyrir hlerunum innan Bandaríkjanna (utan Bandaríkjanna hafa þeir enn frjálsar hendur). Nýju lögin kváðu enn fremur á um að stofnsettur yrði nýr dómstóll, FISA dómstóllinn, sem í væri 11 manna leynileg nefnd sem hlutverk væri að taka við beiðnum NSA um hleranir og ýmist veita leyfi eða hafna þessum beiðnum. Í þeim tilvikum þar sem NSA gæti talið sig þurfa að bregðast við samstundis er það leift innan laganna að því gefnu að sótt sé um heimild innan 72 klukkustunda.
En menn innan NSA svara að tækniframfarir síðan FISA lögin voru samþykkt geri það að verkum að ferlið til þess að fá heimild sé allt of hægt til þess að takast á við hið endalausa magns samskipta og upplýsinga sem streyma rafrænt inn til Bandaríkjanna dag hvern. Lögfræðingar innan NSA segja að það geti tekið allt að viku að fylla út beiðni um hlerun, jafnvel fyrir reyndan lögfræðing. “Þegar þú kemst yfir farsíma hryðjuverkamanns og í honum eru 20 númer, þá er hreinlega ómögulegt að vera að fylla út umsókn fyrir hvert og eitt þeirra, það tekur allt of langan tíma.” Háttsettur maður innan NSA sagði að jafnvel bráðabyrgða ákvæðið væri ófullnægjandi. “Við höfum þurft að hætta eftirliti með þekktum hryðjuverkamönnum vegna þess að heimildin var ekki komin í gegnum kerfið á þessum 72 klukkustundum. Í þessum hraða heimi þar sem þú eltir óvin sem veit að hann er eltur er það óásættanlegt.”
Þetta nýjasta áfall fyrir Bush stjórnina hefur enn frekar dregið úr fylgi hennar og ljóst að árið 2006 verður strembið ár fyrir Bush, hann þarf að vinna til baka stuðning þjóðar sem hann hefur blekkt, svikið og vanvirt. Ólíkt Íslendingum er óvíst hvort Bandaríkjamenn gleymi þessu, það eru nefnilega lönd sem eru á móti því að æðstu embættismenn þeirra brjóti lög þegar þeim hentar.