Kirkjan fer ekki eftir Stjórnarskránni

Menntun leiðir til aukins frelsis til þátttöku í samfélaginu og skapar grundvöll fyrir fjölbreytilegu þekkingarsamfélag. Menntun er eitt sterkasta jöfnunartæki í nútímasamfélagi. Það er mikilvægt að tryggja að sem flestir njóti menntunar og öðlist þannig betri forsendur til þess að skapa sér og sínum betra líf. Jöfnuður og samhjálp eru besta leiðin til þess að allir þegnar samfélagsins njóti frelsis. Því á menntun að vera ókeypis á öllum skólastigum. Ein er sú ríkisstofnun sem tilfinnanlega streitist gegn ákvæðum 65.greinar Stjórnarskrár Íslands, um að „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna“, og þá er ég að sjálfssögðu að vísa í þjóðkirkjuna. Því miður virðist sú stofnun komast upp með að þiggja fé úr opinberum sjóðum en mismuna þegnum landsins gróflega eftir kynhneigð. Hvort andstaðan við hjónabönd samkynhneigðra er ein af hornsteinum kristinnar trúar eður ei er umdeilt bæði innan kirkjunnar og utan hennar, en sýnist greinarhöfundi ólíklegt að kirkjan muni í bráð stíga mikilvægt skref í áttina til þess frjálslyndis og umburðarlyndis sem spámaður hennar þó boðar samkvæmt Biblíunni. Það eru ekki síst ummæli biskups Íslands nú um áramótin, um að það að leggja blessun yfir hjónabönd samkynhneigðra jafngilti því að „fleygja hjónabandinu á sorphaugana“ og að með því að veita trúfélögum frelsi til að ákveða sjálf hvort þau gefi saman samkynhneigða sé verið að „þvinga þau“ til þess að endurskoða stefnu sína, sem gefa til kynna að kirkjan er einfaldlega allt of íhaldssöm stofnun til þess að henni sé treystandi til þess að gangast við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Vissulega hlýtur trú að vera einkamál hvers og eins, og ekki er ég að mælast til þess að við skipum fólki að trúa einhverju öðru en það gerir. Hins vegar hljótum við að vera sammála því að þótt Biblían samþykki þrælahald sé mönnum blessunarlega bannað að hneppa aðra í þrældóm, og að þótt konur eigi samkvæmt Biblíunni að vera undirgefnar eiginmönnum sínum, þá sé það almennt viðurkennt að það eigi ekki að vera raunin í okkar frjálslynda samfélagi. Samt sem áður virðist viðurkenning á rétti samkynhneigðra til jafns við gagnkynhneigðra vera eitthvað sem kirkjunnar fólki sé um megn að gangast við og að það eigi að hafa rétt til þess að sniðganga jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar af trúarástæðum. Maður getur rétt ímyndað sér hvort kirkjunni væri þolað það að útiloka þeldökkt fólk frá hjónabandi á þeim grundvelli að Biblían mælti gegn því.

Á það má á móti benda að hugsanlega mætti teljast fjarstæðukennt að ætla að krefja gyðinga og múslima um viðurkenningu á hjónabandi samkynhneigðra til jafns við gagnkynhneigðra. Gott og vel. Ef okkur frjálslyndu skattborgurunum kemur ekki við hvort kirkjan sé tilbúin að vera kirkja allrar þjóðarinnar en ekki bara kirkja gagnkynhneigðra, þá getur hún ekki haldið áfram að þiggja skattfé og kalla sig þjóðkirkjuna. Stofnun, sem rekin er af hinu opinbera, er ekki friðhelg frá afskiptum stjórnmálanna. Það er ekki hægt að segja við skattborgarana: „upp með peningana en skiptið ykkur ekki af minni stefnu“.

Aðskiljum ríki og kirkju!

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand