Þarf að hafa eftirlit með dómum Hæstaréttar?

Tvívegis á undanförnum vikum hefur Mannréttindadómstóll Evrópu dæmt í málum þegna íslenska ríkisins gegn Íslandi. Til umfjöllunar hefur verið málsmeðferð Hæstaréttar, annars vegar í einkamáli og hins vegar í opinberu máli. Í bæði skiptin hefur niðurstaða Mannréttindadómstólsins verið sú að Hæstiréttur – og þar með íslenska ríkið – hafi brotið gegn Mannréttindasáttmála Evrópu. Tvívegis á undanförnum vikum hefur Mannréttindadómstóll Evrópu dæmt í málum þegna íslenska ríkisins gegn Íslandi. Til umfjöllunar hefur verið málsmeðferð Hæstaréttar, annars vegar í einkamáli og hins vegar í opinberu máli. Í bæði skiptin hefur niðurstaða Mannréttindadómstólsins verið sú að Hæstiréttur – og þar með íslenska ríkið – hafi brotið gegn Mannréttindasáttmála Evrópu.

Fyrra málið fjallaði um vanhæfi eins dómara réttarins til að taka þátt í málsmeðferð og kveða upp dóm í máli, vegna tengsla dómarans við annan málsaðilann. Dómendur Hæstaréttar töldu ekki athugavert að dómarinn – sem nú er forseti réttarins – kvæði upp dóm í málinu. Mannréttindadómstóll Evrópu taldi aftur á móti að brotið hefði verið gegn rétti þegns íslenska ríkisins til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómstólum, þar sem málsaðilinn hefði haft réttmæta ástæðu til að ætla að tengsl dómarans við hinn málsaðilann gætu haft áhrif á niðurstöðu Hæstaréttar.

Í seinna málinu taldi Mannréttindadómstóll Evrópu að Hæstiréttur hefði brotið gegn rétti sakbornings til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi, þar sem Hæstiréttur lagði nýtt mat á framburð vitna, sem gefinn var fyrir héraðsdómi, án þess að kalla vitnin fyrir Hæstarétt til að hlýða milliliðalaust á framburð þeirra.

Sú regla, sem Mannréttindadómstóllinn taldi Hæstarétt hafa brotið í seinna málinu, kemur skýrt fram í lögum um meðferð opinberra mála. Reglan er ekki sett að ástæðulausu, heldur er henni ætlað að tryggja að saklaus maður verði ekki fundinn sekur um glæp, sem hann ekki framdi. Hæstarétti er ekki frjálst að fara eftir reglunni þegar réttinum sýnist svo, heldur er réttinum skylt að fylgja reglunni í þeim tilvikum sem hún á við. Hið sama er að segja um aðrar réttarfarsreglur – og yfir höfuð allar réttarreglur sem í gildi eru. Þegar réttarregla á við í ákveðnu máli er réttinum skylt að fylgja reglunni, en getur ekki af hentisemi vikið reglunni til hliðar. Hefur Mannréttindadómstóllinn staðfest það nú í tvígang á örfáum vikum.

Mannréttindadómstóll Evrópu endurskoðar dóma Hæstaréttar að mjög litlu leyti. Mannréttindadómstóllinn er bundinn af Mannréttindasáttmála Evrópu og kannar aðeins í dómum sínum hvort dómstólar aðildarríkja hafi brotið gegn sáttmálanum. Lögsaga dómstólsins nær því aðeins til reglna um málsmeðferð fyrir dómstólum aðildarríkjanna, en ekki til réttarágreinings aðila í einkamáli að öðru leyti. Með einföldun má því segja að hlutverk Mannréttindadómstólsins sé að kanna og endurskoða formhlið mála, en ekki efnishlið þeirra.

Hæstiréttur hefur tvívegis á nokkrum vikum gerst sekur um brot á réttarreglum um málsmeðferð fyrir réttinum – reglum um formhlið málanna. Að óreyndu hefði maður ætlað að engin stofnun hefði meira vit á því, hvaða reglur giltu um málsmeðferð fyrir Hæstarétti Íslands, en einmitt Hæstiréttur sjálfur. Þar sem réttra málsmeðferðarreglna – formreglna – hefur ekki verið fylgt í hvívetna, hlýtur maður að spyrja sig hvort, og í hve miklum mæli, réttra efnisreglna sé ekki gætt. Hversu oft hefur Hæstiréttur beitt röngum efnisreglum í málum, sem leitt hafa til rangrar dómsniðurstöðu fyrir þegna landsins? Mér finnst harla ólíklegt að svarið sé „aldrei“ fyrst Hæstiréttur hefur tvisvar á örfáum vikum verið snupraður af Mannréttindadómstólnum fyrir óréttláta málsmeðferð.

Vandamálið er hins vegar það að engin dómstóll, hvorki innlendur né yfirþjóðlegur, er til sem sker úr um það hvort Hæstiréttur Íslands hafi beitt röngum efnisreglum við úrlausn mála. Því hljóta óneitanlega að vakna upp spurningar um hvort nauðsynlegt sé að hafa þrjú dómstig hér á landi, líkt og tíðkast í nágrannalöndum okkar, t.d. Danmörku. Í það minnsta hefur í tvígang á örfáum vikum verið sýnt fram á að nauðsynlegt er að hafa einhvers konar eftirlit með dómum Hæstaréttar Íslands.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand