Heimurinn er að breytast. Asía hefur tekið forystu í iðnaði, enda með starfsfólk á lúsarlaunum sem býr ekki við nein af þeim réttindum sem Evrópubúar börðust fyrir í mörg hundruð ár. Evrópa er að svara þessari breytingu með því að stefna á hátækniiðnað, þjónusturekin hagkerfi og frumkvæði og sköpun borgaranna til þess að lifa af. En Ísland virðist þessa dagana vera að reyna að keppa við þriðja heiminn í stað þess að reyna að treysta ímynd sína sem land framsóknar og hugrekkis, frumkvæðis og fegurðar. Deilur Múslima í garð Dana eru búnar að vera í brennidepli hér í Danmörku síðustu vikur. Lesendur politik.is hafa eflaust ekki farið varhuga af því og hafa væntanlega fylgst með atburðarás þessa máls.
Í þessum pistli langar mig að veita innsýn í umræðuna í Danmörku, hvað Dönum finnst almennt um málið og jafnvel koma á framfæri mínum eigin vangaveltum.
Einn góður sænskur vinur minn spurði mig hvort ég hefði ekki orðið vör við mikla reiði í garð dagblaðsins Jyllands-posten vegna birtingu myndanna. Þessari spurningu hafði ég vart velt fyrir mér áður. Í Danmörku ríkir tjáningarfrelsi og geta dagblöð og aðrir fjölmiðlar birt það sem þeir vilja og er fólk almennt mjög ánægt með það. Það eru því fáir Danir sem að amast út í dagblaðið. Hins vegar eru ekki allir ánægðir með hvernig forsætisráðherrann Anders Fogh Rasmussen hefur tekið á málum. Hann hefur helst viljað notað þá aðferð að þegja þetta mál í hel. Margir viðmælendur fréttastofa í Danmörku, þar á meðal Mogens Lykketoft fyrverandi formaður Sósíaldemokrata og Helle Thorning Schmidt núverandi formaður þeirra hafa tekið þátt í að gagnrýna þessa aðferð forsætisráðherrans. Þau nefna m.a. það að ef Rasmussen hefði á sínum tíma tekið góðu boði 11 sendiherra frá Vesturbakkanum um að halda með þeim fund í október, þá hefði þetta ekki gengið svona langt. Betra hefði verið að hreinsa loftið strax.
Afleiðing þagnarinnar eru, skv. danskri heimasíðu sem fjallar mikið um málefni miðausturlanda, að sögusagnir um Danmörku fóru að breiðast um Vesturbakkann. Þessum sögusögnum var ætlað að ýta undir andstöðu gegn Danmörku í hinum arabíska og múslimska heimi. Þær eiga m.a. að hafa gengið út á það að Danir séu að fara að gefa út nýja ritskoðaða útgáfu á Kóraninum, að Jyllands-Posten væri ríkisrekið dagblað og að danskir kvikmyndagerðarmenn ynnu að gerð myndar sem vanvirðir Muhamed.
Það má segja að Danir hafi nú fengið að kynnast því sem Ísraelsmenn fá að finna fyrir daglega, en útbreiðsla kjaftasagna er algeng aðferð í arabískum löndum til að ýta undir andstöðu. Slíkar aðferðir má sennilega túlka sem beina afleiðingu af því skerta tjáningarfrelsi sem þar ríkir. Um leið og yfirvöld skerða prentfrelsi, þá virðist sem til verði stórt tómarúm í upplýsingaflæði sem í staðinn fyllist af kjaftasögum og mýtum.
Auðvitað er þetta mál allt uppsprottið af skilningsleysi tveggja menningarheima hvor á öðrum. Það er erfitt fyrir Vesturlandabúa, sem taka trú sína misalvarlega að skilja að birting mynda geti haft þvílíkar afleiðingar eins og raun ber vitni. Það er einnig erfitt fyrir múslima, sem hafa búið við skert tjáningarfrelsi í gegn um tíðina að skilja hvað tjáningarfrelsið skiptir Vesturlandabúa miklu máli. Það er erfitt fyrir þá að skilja að ríkið, eða einhver æðri yfirvöld hafi ekkert með það að gera hvað einkarekið dagblað birtir. Áhrif heimsvæðingar og aukins upplýsingaflæðis koma skýrt fram. Upplýsingarnar streyma með hraða ljóssins þvert og endilangt yfir heiminn og hvergi er hægt að fela sig lengur. Það sem lítið dagblað í litlu Danmörku birtir er fljótt að berast út fyrir landið. Heimsvæðingin þýðir það að við jarðarbúar verðum að leggja okkur fram við að reyna að skilja, viðurkenna og virða hvert annað með allan okkar breytileika.
Í framhaldi af þessu uppþoti hefur verið talað um að hættan á að hryðuverk verði framin í Danmörku hafi aukist til muna. Fólk hér í landi ber vitaskuld hræðslu í brjósti, en flestir virðast vera á því máli að láta þá hræðslu ekki hafa áhrif á hversdagslífið. Fólk heldur áfram að nota almenningssamgöngur og fara á opinbera staði eins og áður. Þeir sem hafa í hótunum skulu ekki sigra, en ætlunarverk þeirra er auðvitað að skapa hræðslu og sýna völd sín.