Jyllands Posten og skopmyndirnar

Nú, þegar andi jólanna svífur yfir vötnum og áramót eru á næsta leiti, er sennilega fátt meir við hæfi en að leita leiða til að bæta sjálfan sig. Ein þeirra gæti verið sú að horfast í augu við eigin breyskleika. Það er löngu vitað að menn geta hlaupið á sig í orðum eða athöfnum – jafnvel þótt hvatirnar séu góðar og markmiðin göfug. Öllum getur verið hollt að viðurkenna eigin yfirsjónir, biðjast fyrirgefningar og bæta ráð sitt. Er undirritaður þar síst undanskilinn. Eins fram kom í fyrstu grein þessarar pistlaraðar skrifaði danska blaðið Politiken frétt um sjálfritskoðun listamanna þegar kemur að umfjöllun um Islam. Tekið var dæmi um barnabók höfundarins Kare Bluitgen sem fjallar um Muhammed og kóraninn.

Höfundi bókarinnar hafði verið hafnað af þremur teiknurum um myndskreytingu bókarinnar þar til hann fann loks teiknara sem myndskreytti bókina nafnlaust. Jyllands Posten* birti svo seinna í sama mánuði myndir eftir 12 listamenn, þar sem þeim var gefin frjáls túlkun á spámanninum. Myndirnar eru flestar mjög neikvæðar gagnvart Islam en nokkrar þeirra fela þó í sér gagnrýni á blaðið og ein þeirra vekur athygli á þeirri hræðslu sem oft umlykur alla umfjöllun um Islam.

Misskilningur?
Jyllands Posten heldur því fram að ekki hafi verið ætlunin að særa neinn, aðeins að sýna fram á mátt málfrelsis í Danmörku og vekja upp umræðu um þögn fjölmiðla og sjálfritskoðun um málefni Islam. Stuttu eftir að myndirnar voru birtar kröfðust Samtök Islam í Danmörku afsökunarbeiðnar frá blaðinu fyrir myndbirtingarnar. Jyllands Posten neitaði því fyrst um sinn. Með greininni er ein teikningana og hyggst ég birta nokkrar af myndum Jyllands Posten með næstu greinum. Þetta mál á sér mun dýpri rætur en aðeins þessar myndir. En ætlun mín með þessum greinaskrifum er að skýra málið frá sem flestum hliðum og eftir mikla umhugsun tel ég ekki mögulegt að gera það án þess að myndirnar birtist með. Meðfylgjandi er einnig lýsing á öllum teikningunum.

– Fyrsta myndin birtir andlit Muhammed með hálfmána ásamt stjörnu í stað hægri auga.
– Næsta mynd sínir stressaðan teiknara horfa yfir öxl sér á meðan hann dregur mynd af spámanninum
– Þriðja myndin sínir rithöfundinn Kare Bluitgen prýddan túrbani með appelsínugulu skrauti sem á stendur „Auglýsingabrella“ (PR stunt). Einnig heldur rithöfundurinn á teikningu í stíl við Óla prik af spámanninum. Appelsínuguli liturinn í túrbaninum hefur falda merkingu. Þar sem danir hafa málshátt um Appelsínugulan lit í túrban sem merkir eitthvað í líkingu við íslenska málsháttinn “Lán í óláni”
– Drengur sem á rætur sínar að rekja til miðausturlanda stendur fyrir framan krítartöflu sem á stendur „Blaðamenn Jyllands Posten hafa það markmið að kallla fram viðbrögð**“ Við hlið drengsins stendur „Muhammed Valbyskóli 7.A.“ og því gefið í skyn að Muhammed sé í raun ungur drengur af annari kynslóð danskra innflytjenda í stað spámannsins Muhammed. Á skyrtu drengsins er svo skrifað „Framtíðin“. Sem er sagt vera gagnrýni teiknarans á myndbirtingu blaðsins.
– Ein myndin er svo andlitsmynd af Muhammed, en spámaðurinn hefur logandi sprengju í túrban sínum. Segja má að þessi teikning hafi verið gagnrýnd hvað mest. (Sjá tenglaða mynd)
– Muhammed stendur fyrir framan tvær konur í svörtum klæðum sem hylja allan líkama þeirra að augum undanskyldum. Muhammed ber sverð og hefur svart strik yfir andlitinu.
– Muhammed stendur á skýi og tekur á móti píslarvottum sem gefið hafa líf sitt í sjálfsmorðsárásum og segir „Stans, stans … við erum búnir með allar jómfrúrnar“
– Reiðir bókstafstrúarmenn storma fram undir alvæpni en eru stöðvaðir af spámanninum sem segir: „Rólegir vinir, þegar allt kemur til alls eru þetta bara nokkrar myndir teiknaðar af trúlausum Suður Jótum“. Þetta hefur einnig aðra meiningu en maður sér strax þar sem Danir líta á fólk frá Suður Jótlandi sem fólk lengst í burtu.
– Önnur mynd er svo af spámanninum með geislabaug sem myndar hálfmánann.
– Sakbending með 7 persónum ásamt vitni sem segir „Ég get eiginlega ekki borið kennsl á hann“. Meðal sakborninga má finna danska rithöfundinn Kare Bluitgen sem heldur á blaði sem á stendur „Kare Bluitgen almannatengsl, hringdu og fáðu tilboð“.
– Síðasta teikningin er svo einskonar abstrakt skyssa af Davíðsstjörnunni og hálfmánanum ásamt ljóði um kúgun kvenna, „Spámaður! Með kjafti og klóm, haltu konum kúguðum**“

Hvað gerðist eiginlega?
Samkvæmt Islam er öll myndgerving af spámönnum ekki leyfð og gildir það um alla spámenn, hvert svo sem eðli myndana er. Ekki allir fylgjendur Islam fara þó eftir þessari reglu. Það má því segja að skoplegt og neikvætt eðli flestra myndanna hafi bætt olíu á eldinn. Jyllands Posten hefur í tvígang beðist afsökunar á þeim sárindum sem myndbirtingarnar gætu hafa valdið fólki, en forsvarsmenn blaðsins standa enn fast á því að þeir hafi rétt til birtingar efnis sem móðgar eða gæti talist guðlast. Í kjölfar birtinganna hafa menn fengið fjöldann allan af morðhótunum og skrifstofur blaðsins í Kaupmannahöfn og Árhúsum verið rýmdar í tvígang vegna sprengjuhótanna.

Nú fjórum mánuðum eftir upphaflega birtingu myndanna er málið komið nánast á suðupunkt. Blöð víðsvegar um evrópu hafa endurbirt myndirnar og mörg hver lýst yfir stuðningi við Jyllands Posten. Norska blaðið Magazinet*** reið á vaðið þann 10 janúar með birtingu myndanna 12 ásamt opnugrein um málið. Annarsstaðar í blaðinu má svo finna viðtal við skopteiknara blaðsins Verdensgang (VG) Morten M. sem segist ekki teikna Muhammed eftir að hafa fengið hótunarbréf í tölvupósti. Að sögn ritstjóra Magazinet var birtingu teikninganna ekki ætlað að særa neinn en blaðið vildi vekja athygli á því hversu mikil hætta vestrænu rit- og málfrelsi stafi af hryðjuverkum í nafni Islam.

Frelsið og ábyrgðin
Blaðamenn án landamæra hafa lýst yfir stuðningi við Jyllands Posten og telja málið vera eitt mikilvægasta baráttumál fyrir frelsi fjölmiðla í dag. Ekki hafa þó öll blöð tekið í sama streng og sem dæmi má nefna að blaðið „Index on Cencorship“ skrifaði nýlega í leiðara sinn að Jyllands Posten stundi harðlínu málfrelsisstefnu. Blaðið sem er sérstaklega tileinkað rit- og málfrelsi í heiminum telur að málfrelsinu fylgi ábyrgð sem Jyllands Posten hafi ekki axlað.

Flestir hafa nú séð einhverjar fréttir af viðbrögðum fylgjenda Islam, og hafa fjölmiðlar málað frekar einsleita mynd af þeim viðbrögðum. Í þessum hluta greinaraðarinnar verður ekki farið djúpt í þau viðbrögð. Þegar ég hóf að skrifa greinar um málið ákvað ég að tileinka sér kafla í greinaröðinni viðbrögðum fulltrúa hvorrar hliðar málsins.

Myndirnar sem í greininni ræðir um má sjá hér.

* JP og Politiken eru í eigu sömu fjölmiðlakeðjunar
** Ég hef reynt eftir fremsta megni að þýða öll ummæli orðrétt, en annars lagt áherslu á að ummælin séu efnislega rétt.
*** Magazinet er kristilegt blað sem skrifar um heimsmál og fréttir. Blaðið kemur út þrisvar í viku.

Greinin er önnur í pistlaröð höfundar

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand