Það var ekki kosið um kyrrstöðu

Ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hefur kynnt málefnasamning sinn fyrir þriðja kjörtímabil flokkanna í ríkisstjórnarsamstarfi. Málefnasamning um kyrrstöðu og óbreytt ástand. Evrópa verður áfram bannorð, sumarlokanir geðdeilda lögmál, óréttlætið veður uppi í kvótakerfinu og skólamálin dragast áfram aftur úr af fullum þunga. Fátt breytist nema nokkur ný andlit birtast á skjánum sem ráðherrar flokkanna. Ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hefur kynnt málefnasamning sinn fyrir þriðja kjörtímabil flokkanna í ríkisstjórnarsamstarfi. Málefnasamning um kyrrstöðu og óbreytt ástand. Evrópa verður áfram bannorð, sumarlokanir geðdeilda lögmál, óréttlætið veður uppi í kvótakerfinu og skólamálin dragast áfram aftur úr af fullum þunga. Fátt breytist nema nokkur ný andlit birtast á skjánum sem ráðherrar flokkanna.

Þessi niðurstaða mun þegar fram í sækir reynast Framsóknarflokknum dýrkeypt. Það var nefnilega ekki kosið um kyrrstöðu og óbreytt ástand. Það var kosið um breytingar. Í því fólst sigur Samfylkingarinnar og ósigur Sjálfstæðisflokksins. Hinsvegar þá treystu rúm 17% kjósenda því að Framsókn læsi skriftina á veggnum og fylgdi vilja kjósenda. Það að hafa leitt Sjálfstæðsflokkinn í þriðja sinni til öndvegis stjórnmálanna eftir ósigur mun reynast flokknum þungur baggi. Ekki síst með tilliti til þess að mikinn og góðan vilja þarf til að greina raunverulegan mun á stjórnarflokkunum tveimur. Félagshyggjan er farin úr Framsókn og þjónkunin við fjármagnið og frjálshyggjuna ræður ríkjum í flokknum. Kannski hin gömlu orð Hannesar Hólmsteins, um að Framsókn ætti bara að ganga í Sjálfstæðisflokkinn, eigi loksins við og það verði breytingarnar sem fólk sjái á kjörtímabilinu.

Evrópa og Samfylkingin
Samfylkingin sótti hægt og bítandi í sig veðrið seinni hluta síðasta kjörtímabils. Flokkurinn fór niður undir 11% í könnunum og staðan var vægast sagt slæm. Með miklu átaki var vörn snúið í sókn og er hægt að fullyrða að þegar formaður flokksins tók Evrópuákvörðunina haustið 2001 hafi gæfan farið að snúast Samfylkingunni í vil. Þó að Evrópumálin hafi ekki borið hátt í nýliðnum kosningum, ekki síst vegna deilna okkar við ESB, þá lágu þau undir og voru þáttur í þeim breyttu stjórnarháttum sem kjósendur kalla eftir.

Samfylkingin náði 32% í kjölfar Evrópukosningar flokksins og leikur enginn vafi á því að Evrópustefna flokks og forystu hafði áhrif á sögulegan sigur jafnaðarmanna á dögunum. Vilji kjósenda var skýr. Hann var um frjálslynda jafnaðarstjórn sem væri opinhuga og framsýn í Evrópumálum. Niðurstaða ríkisstjórnarmyndunarinnar og framganga Framsóknarflokksins er því vonbrigði fyrir þá sem vildu frumkvæði og forystu um breytingar. Kyrrstöðustjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks mun ekki draga vagninn í Evrópuátt sem er mikið hagsmunamál fyrir þjóðina að þeir geri. Þvert á móti munu þeir þverskallast við að ræða þessi mál með vitrænum hætti og Ísland missa af lestinni til Evrópu sem þau lönd álfunnar sem ekki voru um borð keppast nú við að ná.

Fullveldi og fiskur
Fram að þessu hefur Sjálfstæðisflokknum tekist að þaga Evrópumálin að mestu í hel og ekki er séð fyrir endann á því hvað andvaraleysið hefur kostað íslenskan almenning. Evrópusambandið stækkar í austur og tekin er upp sameiginleg mynt. Lítið hefur verið gert til að kanna áhrif þess á viðskiptahagsmuni Íslendinga í gegnum EES samninginn. Stjórnvöld hafa sofið á verðinum. Fjölda spurninga þarf að leita svara við til að komast að niðurstöðu um hvernig samskiptum okkar við álfuna verði háttað í framtíðinni. Mikilvægasta og yfirgripsmesta atriðið lýtur að sjávarútveginum. Aðild að Evrópusambandinu kemur aldrei til greina nema að því tilskyldu að við höldum fullum yfirráðum yfir landhelginni og auðlind sjávar. Í því ljósi er fróðlegt að benda á að í skýrslu Evrópuúttektar Samfylkingarinnar kemur fram að ESB aðild myndi styrkja íslenskan sjávarútveg á ýmsa lund. Jafnframt er þar sýnt með rökum fram á að við myndum ekki tapa forræði yfir fiskimiðum okkar. Það er reyndar skemmtilegt að sá kafli, sem varðar sjávarútveginn, er einmitt ritaður af Katrínu Júlíusdóttur og Ágústi Ólafi Ágústssyni, sem bæði urðu ungir þingmenn Samfylkingarinnar fyrir hálfum mánuði.

Þá brennur á mörgum hvernig komið verði fyrir fullveldi Íslands ef til aðildar að ESB kemur. Kjarni málsins er sá að við fulla aðild myndum við endurheimta að hluta það fullveldi og stjórn á eigin málum sem glataðist við gerð samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Síðan þá höfum við tekið við 80% af löggjöf okkar frá ESB án þess að hafa neitt um þá lagasetningu að segja. Við inngöngu í sambandið fengjum við okkar fulltrúa á Evrópuþingið og í stofnanir bandalagsins. Hefðum bæði rödd og áhrif. Trúlega hefur ekkert land í heiminum hagnýtt sér sérkenni og undur eigin menningar einsog Írar á síðustu áratugum. Þeir gengu í ESB árið 1973 og enginn heldur því fram að þeir séu minni Írar nú en þá. Ekki einasta hefur landið risið úr öskustó fátæktar og eymdar á þessum tíma vegna aðildar að ESB, heldur hafa Írar nýtt sér með framúrskarandi hætti menningu sína og sérkenni.

Völd og almannahagsmunir
Kyrrstöðustjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks mun hinsvegar ekki hreyfa við þessu stærsta hagsmunamáli þjóðarinnar á næstu árum. Það er ríkisstjórn um áframhaldandi völd þessara tveggja flokka og fátt annað, nema þá atlögunni að velferðarkerfinu sem felst í óraunhæfum skattalækkunum og þeirri ánauðargildru sem 90% húsnæðislánin eru fyrir þá sem slysast til að taka þau. Framsókn tók völdin fram yfir almannahagsmuni en það verður hinsvegar þungt fyrir fæti í næstu kosningum þegar flokkurinn leggur enn og aftur á vaðið til að blekkja kjósendur til fylgis við sig.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand